Af gefnu tilefni vil ég benda ykkur á að það er ekki hægt að neyða ykkur til að hlusta á eða taka þátt í þeim kynningum sem ýmis samtök fá að fara með inn í grunnskólana í Reykjavík.

Tilefni þessarar greinar minnar eru skrif og málflutningur ákveðins aðila hér á Huga sem eru með þeim hætti að með ólíkindum má telja.

Þessi aðili virðist mér hafa kynnt sjálfan sig sem sérlegan fulltrúa samtaka sem kalla sig Heimsþorp – samtök gegn kynþáttafordómum á Íslandi.

Þær skoðanir sem viðkomandi aðili hefur látið út úr sér varðandi Palestínumenn og Gyðinga eru m.a. að:

- reka eigi Palestínumenn á brott frá Ísrael,
- Arabarnir [Palestínumenn] verði að borga fyrir að fá að fara,
- Amnesty International séu ekki mannréttindasamtök,
- Amnesty International ýti undir helför gegn Gyðingum,
- beita skuli barsmíðum og einangrun á fanga,
- alið skuli á hatri í garð araba og múslima,
- banna trúarbrögðin Islam.


Fleira mætti vafalaust telja upp ef betur væri skoðað það sem viðkomandi hefur út úr sér látið hér á Huga.

Hið einkennilega er að samtökin Heimsþorp hafa hingað til (held ég) ekki séð ástæðu til að blanda sér í umræðuna með beinum hætti eða á nokkurn hátt gera athugasemd við þann málflutning sem kynntur hefur verið í þeirra nafni - og verður því að gera ráð fyrir að samtökunum sé þessi málflutningur mjög svo að skapi. Því má svo bæta við að aðilinn sem komið hefur svo eftirminnilega fram fyrir hönd þessara samtaka hefur sjálfur sagt að hann telji að flestir í samtökunum (Heimsþorpi) styðji sig.

Nú berast þær fréttir að samtökin Heimsþorp ætli að kynna starfsemi sína í grunnskólunum í Reykjavík í apríl. Hin málglaða (sjálfskipaða?) forsvarskona samtakanna (þ.e. sá aðili sem skrifað hefur í þeirra nafni hér á Huga) hefur sagt að hún muni sækjast eftir að fara inn í skólana fyrir hönd samtakanna.

Unglingum í grunnskólunum á höfuðborgarsvæðinu vil ég aðeins benda á, að það er ekki hægt að neyða ykkur til að hlusta á eitthvað sem þið viljið ekki hlusta á eða stríðir gegn sannfæringu ykkar og vil því skora á ykkur að krefja þessi samtök opinberlega um skýringu á þeim málflutningi sem hefur verið viðhafður í þeirra nafni og látið ekki sjá ykkur á kynningarfundum fyrr en sú skýring er komin.