Eins og flestir sem stunda kaffihús reglulega vita, var nýlega samþykkt reglugerð um það hve mikill hluti borða á kaffihúsi eiga að vera reyklaus. Ef minnið bregst mér ekki er sá hluti 50% og einnig eru reglur um lágmarksfjarlægð milli “reyks” og “reyklauss”.
Ég hef heyrt mikið af reyklausu fólki fagna þessu og þetta er svosem gott að því leyti að nú getur fólk sem ekki vill synda um í baneitruðum sígarettureyk loksins farið á kaffihús.
En hversu stór hluti þeirra sem sækja kaffihús eru í raun reyklausir? Tökum dæmi:
Ég sæki reglulega kaffihúsið Ara í Ögri og ég reyki. Margoft hef ég lent í að koma þarna inn aðeins til að sjá að öll borð í reykhlutanum eru þéttsetin. Þá er lítið annað að gera en að setjast í hálftómann reyklausa hlutann og bíða eftir að borð losni.
Svona er þetta alltaf og er ekki einskorðað við Ara í Ögri. Á öllum kaffihúsum hef ég lent í því að þó reykhlutinn sé troðinn af fólki er reyklausi hlutinn oftast nær mannlaus.
Þetta hefur það vitanlega í för með sér að kaffihúsið getur tekið við færri gestum en það vildi á meðan nánast helmingur borða eru ósetin. Þetta hlýtur að hafa í för með sér hækkað vöruverð, því rekstrarkostnaður kaffihússins er sá sami og áður þrátt fyrir færri kúnna og það kemur niður á okkur fastagestunum.
Ég hef ekkert á móti því að kaffihús og aðrir staðir hafi reyklaus svæði. Sjálfum finnst mér óþæginlegt að borða meðan einhver nálægt er að reykja og veit ég til þess að margir borða á kaffihúsum í hádeginu. En kaffihúsin verða að fá að finna það hjá sjálfum sér og sínum kúnnum hversu mikið svæði þarf í raun og veru að vera reyklaust. Er réttlætanlegt að kaffihúsin verði fyrir gróðatapi og reykingamennirnir (Sem eru meirihluti kaffihúsagesta) verði fyrir auknum fjárútlátum vegna skoðana minnihlutahóps?
Reyklaus svæði eiga fullan rétt á sér svo lengi sem ég þarf ekki að borga fyrir þau.

P.S.
Ég hef stöku sinnum átt þessa umræðu við fólk á förnum vegi og oftar en ekki kemur upp afbragðshugmynd: Hvernig væri að hafa eitt kaffihús (eða fleiri) í miðbænum sem er alveg reyklaust?
Ég bendi fólki þá á að þetta hefur þegar verið reynt. Á sínum bernskuárum var Kaffi Victor reyklaus staður. Að leyfa reykingar þarna inn var þó tekið upp skömmu eftir stofnun því þar sáust nánast aldrei kúnnar og staðurinn var því á hraðleið á kúpuna. Eftir að reykleysistefnan var felld niður er þetta orðið eitt af vinsælli kaffihúsum Reykjavíkur.
kv.