Er kristni endilega hin rétta trú? Var spurningin sem ég spurði mig að stuttu eftir að ég fermdist. Er einhver trú réttari en önnur? Eiga börn með ómótaðan huga ekki að fá að velja á milli, á hvað eða hvort þau vilja trúa?
Ég sat fyrir stuttu við eldhúsborðið heima hjá mér þar sem systir mín var að vinna heimavinnuna sína, ég spurði hana hvað hún hafði verið að læra í skólanum þann daginn og hún sagðist hafa verið að læra um Jesú, og hvað er Jesú spurði ég, hún sagði að Jesú væri Guð og að Guð væri besti maðurinn í heiminum, og af hverju, jú af því að kennarinn hennar sagði það.
Börn í fyrsta bekk eru alltof ung til þess að mynda sér sínar eigin skoðanir og trúa nær öllu sem þeim er sagt og hugsa næstum ekkert meira út í það, taka því jafnvel sem heilögum sannleik. Ég fermdist þrettán ára gamall þá átta árum eldri en systir mín er núna og þá ekki næstum orðinn nógu þroskaður, þó margir hafi þá viljað telja mig kominn í fullorðinna manna tölu, til að mynda mér skoðun hvorki með né gegn þessari trú sem ég var búinn að staðfesta fyrir framan prestinn meðhjálparann og flesta af mínum nánustu ættingjum. Ég taldi aðeins rétt að gera eins og flestir aðrir voru að gera og ekki spilltu gjafirnar fyrir. En núna líður mér einsog ég hafi selt sál mína guði sem ég trúi ekki á fyrir rúmar hundrað og tuttugu þúsund krónur, nokkrar alfræðiorðabækur og snjóbretti.
Af hverju ætti frekar að kenna trúarbragðafræði í staðinn fyrir kristinfræði? Jú, fyrst og fremst búum við í frjálsu landi þar sem við ættum að fá frelsi til að velja á milli þess að lesa biblíu kristinna manna eða kóran íslamstrúarmanna, frelsi til að velja á milli Hindúisma, Búddisma, Vísindatrúar, andatrúar, kristni, íslamstrúar eða ásatrúar einsog þjóð okkar gerði forðum. Annar kostur við kennslu á trúarbragðafræði í grunnskólum væri minni fordómar þar sem væri hægt fyrirbyggja misskilning sem hefur átt sér stað sérstaklega í kjölfar atburðanna í New york síðastliðin ellefta September. þar sem fordómar í garð múslima hafa blómstrað síðan. Í trúarbragðafræði væri hægt að fræða börn um hin helstu trúarbrögð heimsins án afstöðu kennara gagnvart þeim og reynt að láta kennslubækur fjalla jafn mikið um hvert trúarbragð fyrir sig án afstöðu hvers annars gagnvart hvoru öðru. Þó að án efa myndu flest börnin velja kristni vegna áhrifa frá foreldrum og annarra fjölskyldumeðlima þá veit barnið að minnsta kosti að það er til fleira sem hægt er að trúa á og er allavega ekki undir áhrifum skóla sem mér finnst að ættu að vera algjörlega hlutlausir. Einnig má þá nefna hvernig þessu er háttað í Bandaríkjunum þar sem ekki má einu sinni óska gleðilegra jóla opinberlega án þess að allt fari í háaloft heldur verður að óska gleðilegra hátíða og hvergi má misbjóða neinum og allstaðar þarf að hugsa út í að þóknast öllum einsog til dæmis í mötuneytum þar sem verður að bjóða upp á mat sem þóknast gyðingum og fleirum trúarflokkum sem ekki borða svínakjöt vegna trúarlegra ástæðna. Þó að þetta sé dálítið öfgakennt hjá Bandaríkjamönnum þá finnst mér að aðskilnaður ríkis og kirkju gæti einungis túlkast sem jákvæður hlutur og að skólayfirvöld ættu hvorki að taka afstöðu með né á móti neinni trú.
Þetta mál snýst ekki um að kristnitrú sé eitthvað verri en hver önnur trú heldur um skoðanafrelsi einstaklingsins og rétt hans til að velja hvað hann vill trúa á eða hvort hann vill trúa á einhvern, eitthvað eða einfaldlega sjálfan sig. Og ekki að reyna að þröngva trú sinni upp á einn né neinn, í þessu tilfelli börn sem finnast þetta kannski allt í lagi þangað til þau eldast og fara að sjá þetta í víðari skilningi.
est-ce que tu comprends?