Það sem kemur hér á eftir mun vera bæði svar við fyrrnefndum þræði auk hugleiðinga minna um sama viðfangsefni, dauðarefsingar.
Í áðurnefndum þræði er varpað fram nokkrum spurningum sem ég hef áhuga á að svara hverri fyrir sig. Fyrsta spurningin er sú hver sé skoðun lesandans á dauðarefsingum.
Ég er á þeirri skoðun að ekki sé hægt að réttlæta dauðarefsingu með nokkru móti. Ástæðan fyrir því að ég get ekki tekið undir sjónarmið með dauðarefsingum er einföld, hver verður munurinn á morðingja og böðli? Ég sé ekki þennan mun, fyrir mér eru þeir báðir að framkvæma sama hlutinn, annar eftir eigin höfði en hinn eftir fyrirskipun æðra valds. Ég er þá frekar á þeirri skoðun að menn eigi að afplána fangavist, það er í flestum tilfellum nægileg refsing að láta mann sitja inni lokaðan og þurfa að lifa með því sem hann hefur gert. Það eru fá dæmi þess a.m.k. hér á landi að menn hafi komið út eftir að hafa setið af sér morð og fremja annað morð, þó eru til dæmi um slíkt.
Það sem ég er að meina með þessu er að við fáum litlu áorkað með því að deyða þann mann sem fremur ódæði, í reynd erum við þá að mínu mati ekkert betri en sá maður.
Ég sé ekki hvernig dauðarefsing getur verið nauðsynleg, a.m.k. ekki miða við þá glæpi sem við þekkjum hér á landi. Ég ætla ekki að leggja mat á dauðarefsingar í öðrum löndum, enda siðferðisvitund fólks mjög misjöfn eftir samfélögum. Það sem okkur þykir eðlilegt getur öðrum þótt fáránlegt, því ætla ég ekki að hætta mér út í slíkar pælingar. Það er nokkuð víst að margir hér myndu segja að maður sem hefði drepið fjögur börn eftir að hafa nauðgað þeim, ætti ekkert annað skilið en að verða drepin. Þetta myndi ég telja hefndarþorsta og bræði, þarna verður að lýta á það hvað lág að baka þessum verkum, en þó myndi ég ætla að fyrir slíkt brot fengi maður aldrei annað en ævilangt fangelsi.
Þannig að þessu sögðu þá hef ég svarað flestum spurningum sem fram komu í þessum þræði sem ég nefni hér í upphafi. Nema auðvita þeirri spurningu hver mér finnist vera besta leiðin til þess að framfylgja dauðarefsingu. Þar sem ég er augljóslega á móti þeim þá get ég ekki sagt að mér finnist nein leið góð, en ætli besta leiðin væri ekki að sprauta viðkomandi, það myndi ég telja bestu leiðina til að vanvirða ekki lík og dánarstund viðkomandi. T.d. með hengingu og rafmagnsstól þá sér á líkinu á eftir. Sprautan skilur minnst eftir sig. Eins og ég segi þá eru þessir valkostir allir jafn slæmir og um margar aðrar leiðir að ræða.
Þegar ég hef aðeins farið í þá hluti sem fram komu í marg nefndum þræði þá hef ég hugsað mér að fara út fyrri efnið og skoða tvo hluti sem tengjast þessari pælingu. Annars vegar ætla ég í örstuttu máli að rifja upp síðustu dauðarefsingu sem framkvæmd var á Íslandi. Einnig hef ég hugsað mér að velta aðeins þeim möguleika fyrir mér hvort hægt væri í reynd að lögleiða dauðarefsingar aftur á Íslandi.
Agnes og Friðrik – síðasta dauðarefsing á Íslandi
Síðasta dómur sem féll þess efnis að viðkomandi væri dæmdur til dauða féll árið 1930 ef ég man rétt, en þeim dómi var þó aldrei framfylgt. Síðasta skiptið sem dómi þess efnis að taka ætti fólk af lífi var framfylgt á Íslandi var árið 1830 (12. janúar), en það var hið víðfræga mál Agnesar og Friðriks. Þau voru bæði hálshöggvin og má sjá höggstokkinn sem notaður var til verksins í Þjóðminjasafni Íslands.
Til aukins fróðleiks þá læt ég brot um þennan atburð fylgja með:
Við rannsókn brunans kom í ljós að ekki var allt með felldu því fjöldi stungusára fannst á líkum þeirra og þá fannst einnig blóð á fötum þeirra sem ekki fórust með bænum. Agnes og Sigríður Guðmundsdóttir, 16 ára vinnukona voru leiddar fyrir sýslumann Björn Blöndal og réttað yfir þeim 22. mars. Fljótlega viðurkenndu þær að hafa átt þátt í dauða mannanna en verknaðinn hefði Friðrik Sigurðsson, 17 ára bóndasonur frá Katadal á Vatnsleysuströnd, framið. Friðrik var því tekinn höndum. Hann neitaði í fyrstu öllum sakargiftum, en eftir fortölur prestsins á Tjörn viðurkenndi hann sök sína í málinu.
Réttarhöld yfir sakborningum voru umfangsmikil og fóru öll fram í héraði og stóðu frá júlí sama ár og fram til 25. júní 1829. Er lokadómur var kveðinn upp í Hæstarétti. Friðrik og Agnes skyldu hálfshöggvin og höfuð þeirra sett á stengur en Sigríður sem áður hafði einnig verið dæmd til dauða var náðuð af konungi og dæmd til ævilangrar þrælkunarvinnu.
En aftakan fór fram 12. janúar 1830 og var Guðmundur Ketilssson bróðir Natans fengin til að höggva sakborningana. Til verksins var flutt inn sérstök exi frá Danmörku ásamt höggstokk.
Er möguleiki á að dauðarefsingar verði settar í lög?
Svarið við þessari spurningu er bæði já og nei. Eins og staðan er í dag, er ekki mögulegt að kveða á um dauðarefsingar í hegningarlöggjöf Íslands og stafar það af 2. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar (lög nr. 33/1944) en þar segir orðrétt "Í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu”.
Þetta útilokar þó ekki þann möguleika að með breyttir siðferðisvitund og skoðunum fólks að dauðarefsingar verði í lögleiddar, en til þess þarf að breyta stjórnarskránni, eftir þeim reglum sem um það gilda. Samkvæmt þeim reglum sem eru töluvert strangari en almennt gerist með önnur lög, þá má ætla að til þess að slík breytinga á lögum næði fram að ganga þyrfti að vera mikil sátt um breytinguna. Þannig getur ekki einn flokkur tekið það upp hjá sjálfum sér að knýja þetta í gegn, jafn vel þótt hann hefði meirihluta þings með sér. Þetta gerir það næstum því ómögulegt að koma á dauðarefsingum. Eins og ég segi hér á undan að þá getur þessu þó verið breytt ef siðferðislegt mat til dauðarefsinga breytist verulega. Slíkar breytingar taka þó oft langan tíma og ekki líkleg að við upplifum slíkar breytingar.
Þessi grein er nú aðallega hugsuð til þess að koma mínum vangaveltum um þetta málefni í heilsteypt form og leyfa öðrum að gangrýna mínar skoðanir og hugmyndir um þetta málefni.