www.framfarir.net
Þjóðverjar hafa nú bæst í hóp þeirra Evrópulanda sem hafa að undanförnu hert innflytjendalöggjafir sínar eða viðrað hugmyndir um slíkt. Var lagafrumvarp þess efnis samþykkt í neðri deild þýska þingsins 1. mars sl. og er megintilgangur þess að takmarka mjög aðgang annarra innflytjenda að landinu en þeirra sem eru menntaðir á einhverju sviði. Umrædd lög eru þau fyrstu sem sett eru um innflytjendur í Þýskalandi eftir lok Síðari heimstyrjaldar.
Það eru jafnaðarmenn sem standa fyrir þessu frumvarpi og var það samþykkt með 321 atkvæði stjórnarflokkanna á móti 225 atkvæðum hægri flokkanna. Búist er við hörðum átökum um frumvarpið í efri deild þingsins en andstaða hægriflokkanna byggist á því að þeir vilja ganga miklu lengra í að draga úr aðflutningi útlendinga til Þýskalands.
Sem fyrr segir hefur Þýskaland þar með bæst í hóp Evrópulanda sem hafa að undanförnu hert innflytjendalöggjafir sínar eða sem hafa í hyggju að gera það. Hin löndin eru Danmörk, Noregur, Bretland, Spánn, Ítalía og Austurríki. Einnig má nefna að Ástralía hefur hert sína löggjöf verulega auk þess sem lönd eins og Kanada og Bandaríkin hafa lengi haft mjög strangar innflytjendalöggjafir. Það gildir þó um öll þessi lönd að betur má ef duga skal.
Heimild:
“Tekist á um innflytjendalög” - Morgunblaðið 2. mars 2002.
Hjörtur J.
Með kveðju,