Undanfarna mánuði hafa afleiðingar rangra ákvarðana stjórnmála- embættismanna og stjórnenda bankanna leikið efnahag landsmanna grátt. Við höfum öll fundið fyrir þessum afleiðingum og rökrætt á kaffistofum, á spjallsvæðum internetsins, í fjölmiðlum og á heimilum okkar hvað fór svona skelfilega úrskeiðis. Einna verst er að ætla sér að útskýra fyrir börnunum sínum hvað er að gerast og afhverju því þau spurja einföldustu spurningarinnar „af hverju“ og við henni hefur maður ekkert alvöru svar.

Ef maður rekur sig í gegnum þær upplýsingar sem liggja fyrir þá er niðurstaðan í raun mjög einföld. Ef það voru engir peningar til í bönkunum þrátt fyrir að allt þetta fólk hefði sett þá inná reikningana sína, þá hlítur einfaldlega einhver annar að hafa tekið þá út án þess að hafa átt innistæðu fyrir þeim.

En hvernig tekur maður út peninga í banka án þess að eiga innistæðu fyrir þeim?

Jú, maður fær lánaða peninga. Hlutabréf, skuldabréf og öll önnur verðbréf eru lán. Lán sem greiða á til baka að uppfylltum einhverjum skilyrðum. Sbr. vexti skuldabréfa, hlutdeild í hagnaði fyrirtækja vegna hlutabréfaeignar og skuldatrygging greiðir út ef skuldari fer í þrot áður en skuld er að fullu greidd. Svo eru reglur um hvaða verðbréf njóti forgangs ef fyrirtæki fara í þrot, greiða skal skuldabréfaskuldir áður en eignum er skipt á milli hluthafa.

Í tilfelli bankana þá eru innistæður efst í forgangsröðinni svo líklega skuldabréf og aðrar skuldir en hluthafar neðstir þar sem þeir gátu keypt og selt hvenær sem var og þá gefið öðrum um leið tækifæri til að komast með puttana í rekstur fyrirtækisins og snúa rekstrinum til betri vegar. Að halda í bréfin og tryggja sér starf eða völd kostar einfaldlega peninga ef fyrirtækið fer svo í þrot.

Bankarnir okkar lánuðu alla peningana sína og greiddu út arð af hagnaði sínum til hluthafa. Þeir voru svo gráðugir í að græða meira að þrátt fyrir hrakspár þá tóku stjórnendur þeirra ákvarðanir sem miðuðu að því að taka meiri lán til að greiða fyrir önnur lán sem þeir höfðu tekið.

Þeir tóku á móti innlánum til að greiða af skuldabréfum og til að greiða hluthöfum sínum arð. Með þessum gjörningi bankana fór ábyrgð tryggingasjóðs sífellt vaxandi sem hlutfall af heildarskuldum bankana. Raunin var sú að aðrir lánadrottnar sáu hvað var að gerast og hættu að lána þeim. Því voru þeir nauðbeygðir til að velja á milli þess að fara í gjaldþrot eða fara í markaðssókn þar sem þeir voru með starfsstöðvar erlendis í þeim tilgangi að sækja peninga að láni til sparifjáreigenda.

Á þessum tímapunkti hefði stjórnvöldum átt að vera ljóst í hvað stefndi og það voru jú einhverjir sem bentu á hvað væri að gerast og hvað væri í þann mund að gerast en enginn trúði þeim.

En það versta er að þetta var meðvituð ákvörðun stjórnenda bankana. Það er engin tilviljun að farið var af stað með Icesave í Hollandi á þessum tíma, það er engin tilviljun að Kaupthing EDGE sótti í sig veðrið í Þýskalandi úr skúffu einhverrar skrifstofubyggingarinnar, það er engin tilviljun að erlendis voru eftirlitsstofnanir farnar að vera varar um sig og það er engin tilviljun að lánshæfismat bankana fór hratt lækkandi.

En á sama tíma fóru að gerast stórmerkilegir hlutir. Stjórnendur bankana fóru að sanka að sér raunverulegum eigindlegum eignum en færa verðbréf og aðrar pappírseignir í einkahluta- eða eignarhaldsfélög. Þeir fóru að minnka sína persónulegu áhættu. Þetta gerðu þeir til að tryggja að þeir hefðu aðgang að öllum hagnaði eða ábata sem þessar pappírs eignir gáfu af sér en ekki áhættunni sem í þeim var fólgin.
Þeir voru því farnir að vinna fyrir sjálfa sig en ekki fyrir bankann sinn.

Til að kaupa sér tíma notuðu þeir því innistæður erlenda sparifjáreigenda tryggðar af íslenska tryggingasjóðnum. Innistæður sem allir lansmenn eru nú að fá reikninginn fyrir að hafi verið sólundað á örstuttum tíma í braski verðbréfasnáðana.

En ég vil samt aftur benda á að ef einhver leggur inn peninga í bankann þá eru þeir í bankanum þar til einhver annar tekur þá út eða fær þá lánaða gegn afhendingu skuldabréfs, hlutabréfs eða einhverju álika.
Hvert fóru því peningarnir? Hverjir fengu lánaða peningana?
Ef starfsmenn KB fengu lán til að kaupa bréf í bankanum þá spyr maður sig – af hverjum voru bréfin keypt?

Ef bankinn var að selja bréf í sinni eigu og með hagnaði þá má leiða líkur að því að upphæðin hafi svo verið greidd út sem arður.

Getur verið að hluthafar KB hafi fengið EDGE peningana í vasann sinn?

Hvað þá með Icesave peningana? Hver fékk þá lánaða frá bankanum og er ekki að standa í skilum?
Ég vil benda á að bankar eiga ekki að vera að sanka að sér eignum nema þá í hlutabréfasjóði en fólk keupir sig inn í slíka sjóði og því eru þeir eingöngu að litlu leiti fjármagnaðir af bankanum sjálfum, fólk hlítur að þurfa borga fyrir sínar eign í sjóðnum.

Það er sama hvernig ég velti þessu dæmi fyrir mér, ég sé ekki fyrir mér að þessir peningar hafi verið notaðir í neitt annað en að greiða skuldir sem hvíldu á bönkunum fyrir áður en þeir byrjuðu að safna innistæðum erlendis og það hafi verið meðvituð ákvörðun stjórnenda bankana að færa ábyrgð af þessum lánum/skuldum yfir á íslensku þjóðina.

Getur verið að þetta hafi verið pólitískur leikur?

En þessi skýring segir mér bara eitt… Einhversstaðar úti í heimi er banki sem er MJÖG heppinn að hafa fengið lánið sitt greitt til baka.

Bankarnir hefðu átt að fara í þrot miklu fyrr og áður en öll þessi ábyrgð myndaðist á íslenska tryggingasjóðnum.

Það fer kannski fyrir brjóstið á fólki að ég segi að þessar ákvarðanir hafi verið teknar meðvitað en ég vil benda á að bankarnir auglýstu erlendis að innistæður væru tryggðar af íslensa ríkinu. Þeim var ljóst hvað þeir voru að gera og í hvað stefndi og þeir bara héldu því áfram.

Ef íslensk stjórnvöld og eftirlitsstofnanir sáu þetta ekki fyrir þrátt fyrir að eiga að stýra þessu umhverfi þá er um ótakmarkað vanhæfi um að ræða. Ef eftirlitsstofnanir sáu þetta fyrir gerðu viðvart og viðbrögðin voru svo engin, þá þarf að finna hver það var sem gerði ekki neitt.

Vil svo hvetja fólk til að kynna sér eftirfarandi svo það sjái nú í gegnum rök pólitíkusana.

http://www.nizkor.org/features/fallacies/

(það er til mun flottari svona síða en ég man ekki hvar)