Ræða sem ég hélt á 17. júní.
Góðan dag, ágætu sveitungar, ég bið ykkur velkomin hingað til þess að fagna 65. afmæli lýðveldi Íslands.
Ísland hefur verið byggt í yfir tólfhundruð ár,og lengur en það líklega. Í um sjö hundruð af hinum tólf hundruð hefur landið lotið stjórn annarra landa, og nú þegar við höfum verið sjálfstæð í um 65 ár er staðan þessi: á barmi taugaáfalls. Kannski var ekki svo snjallt að heimtufrekja þetta sjálfstæði, kannski voru Jón og félagar eins og sautján ára gelgjur að rífast í foreldrum sínum. Við áttum allt til þess að búa hér til sjálfstætt land, og eigum enn, þó við höfum brugðist sjálfum okkur síðustu misserin.
Hvers vegna? spyrja sumir. Ég segi að við höfum verið of trúgjörn. Landnámsmenn okkar trúðu á æsi og ásynjur, nokkrum áratugum síðar var það neytt af þeim og kaþólska tekin upp. Varla gátu liðið um 600 ár áður en kaþólskan var bæld niður hérlendis og lútherstrú settist hér að. En við fengum ekki að vera í friði það lengi því 400 árum síðar dofnaði kristnin og tilbeiðsla á póstmódernískriáhættufjármagnsstýringu tröllréð öllu. Við átum allt ofan í okkur þangað til núna að vísitölurnar flúðu okkur og anarkismi virðist vera að spretta upp ómeðvitað í hjörtum okkar.
Þegar hér er komið sjáum við ryk vígvallarins setjast og eyðileggingin blasir við. Allt á rúi og stúi, hvort sem það er Oslóartré eða Breskar innistæður. En hvað misstum við í raun? Við sáum að peningar eru hverfulir og enginn getur stjórnað þeim, en hvað eru þessir peningar? Bara ljós á tölvuskjá og blek á blaði. Húsin standa enn óhreyfð, loftið jafnt ferskt og vatnið ómengað. Við höfum allt til þess að koma í staðinn fyrir þessi ljós og þetta blek. Gleymum gjaldeyrinum, hann er ekki til! Blaðsnifsi getur aldrei orðið verðmætara en matur eða húsaskjól.
En þetta vatn og loft er ég talaði um sem ómengað og ferskt, það gæti orðið gleymd minning. Margt mikilvægara en efnahagsmál steðja að okkur, framtíð fleiri tegunda og kynslóða en manna er í húfi ef við spornum ekki við vorum versta óvini: græðgi okkar sjálfra. Við arðrænum jörðina og hleypum út herskörum hættulegra efna sem setjast að á himni okkar og einu hlíf og eyðileggja hana til frambúðar. Sem betur fer höfum við Íslendingar lítið gert til þess að eyðileggja ósonlagið, en slæmt að ekki er nóg gert í til þess að stöðva þessa þróun. Ef við upplýsum okkur og vinnum einörð að því að rækta upp heiminn á ný, gætum við stöðvað veraldarkreppu er myndi standa í yfir þúsund ár. Taka rafmagnstæki úr sambandi, nota þvottasnúrur í stað þurrkara og sparperur er eitt því mörgu er við getum gert í okkar daglega lífi til þess að berja gróðurhúsaáhrifin á bak aftur.
En þrátt fyrir þessar hörmungar getum við séð bjartar hliðar. Almenningur, hvort sem börn eður fullorðnir, dökkir eður hvítir, kristnir eður íslam, fjármagnseigendur eða skuldarar, öll erum við að verða meðvitaðri um ástand heimsins og hvað er í raun að gerast. Verum ekki hrædd við að spyrja spurninga, ekki óttast að lyfta tjaldinu, lyftum upp húddinu og sjáum vélina að verki. Það hefur sýnt sig og sannað að við spyrjum ekki nóg. Lítum upp til Ara hins átta ára trítils og fylgjum hans fordæmi, lærum og hugsum áður en gengið er til verks. Og leyf mér að segja ykkur eitt, þrátt fyrir veðsetningu landsins, þrátt fyrir veðsetningu á mér og tugþúsundum öðrum, þá veit ég að Íslendingar geta komið sér upp úr þessum pytti. Hvað er ég búinn að telja upp? Við höfum lært að trúa ekki öllu sem sagt er, við höfum séð hina raunverulegu hlið peninga, við eigum hreinustu auðlindir jarðar hvort sem er til neyslu eður orku og ég veit að þetta getum við sameinað og notfært okkur til þess að öðlast aftur sjálfstæði okkar, stolt og virðingu.
Ég kveð nú áhlýðendur, og minni á að einstaklingur getur breytt öllu, oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.
Jú, jú, örugglega margt ýkt þarna en hvað finnst fólki?