Góðann daginn gott fólk.

Margt misjafnt hefi ég nú heyrt í gegnum tíðina um fyrirbæri eitt og stofnun sem kallar sig L.Í.N. eða Lánasjóð Íslenskra Námsmanna og nú nýlega fengum ég og fjölskylda mín persónulega að kynnast þessu apparati, starfsháttum þeirra og viðmóti. Sannast sagna hélt ég að sögur af þurrpumpulegu og dónalegu “staffi” L.Í.N. væru ýktar að einhverju leyti en svo var þó alls ekki raunin.

Þannig er mál með vexti að ég stunda nám í Danmörku og sótti um lán fyrir haustönn 2001. Ég sótti að sjálfsögðu bara um eftir kúnstarinnar reglum og uppfyllti öll skilyrði samkvæmt reglum sjóðsins. Haustið leið við nám og störf og fer nú engum sögum af L.Í.N og heyri ég ekkert frá þeim enda átti ég nú sosum ekkert von á því. Í janúar fer að draga til tíðinda. Heima á Íslandi hafði ég beðið karl föður minn um að senda L.Í.N. öll nauðsynleg gögn. Tekjuáætlun fyrir árið 2001 ásamt ábyrgðarskuldabréfi og sendi hann þetta til L.Í.N. í kringum 20.jan Í ÁBYRGÐARPÓSTI til öryggis. Sjálfur sendi ég u.þ.b. einni og hálfri viku síðar námsárangur minn í tölvupósti til L.Í.N. en hann hafði ég ekki getað fengið fyrr í hendurnar og var það seinagangur hjá skólanum mínum. Nú leið og beið og ég var orðinn hálf óþolinmóður viku síðar að fá enga staðfestingu frá L.Í.N. um að þeim hefðu borist öll gögn í hendur og að allt væri í lagi. Ég skrifaði þeim því annan tölvupóst og óskaði eftir staðfestingu á mínum málum, að allt væri í lagi og hvenær ég fengi einhvern aur frá þeim. Ekkert svar barst. Í dag hringir svo síminn hjá mér og á hinni línunni er faðir minn og ég heyri á honum að hann hefur ekki góðar fréttir að færa mér. Mér hafði s.s. borist bréf frá L.Í.N. og í því sagði(ég hef bréfið ekki í höndunum og þetta er því ekki orðrétt) í stuttu máli að þar sem ég hefði ekki sent inn nein gögn og pappíra varðandi mín mál þá væri þeim ekki unnt að veita mér lán að þessu sinni þar sem að frestur minn til að koma öllum nauðsynlegum upplýsingum á framfæri væri liðinn! HVAÐ ÞÁ?? Það var ekki alveg laust við að kaldur sviti sprytti fram á enninu á mér….hvað er að gerast…sagði ég við pabba sem var álíka undrandi og ég? Ég bað karl föður minn um að hringja í L.Í.N. og fá nánari útskýringar á málinu sem og hann gerði í snarhasti. Eftir smá stund hringdi hann aftur og sagði farir sínar allt annað en sléttar. Hann hefði rætt við konu sem mig langar afskaplega mikið að nafngreina hér en ég ætla samt að sleppa því, og hún sagði einfaldlega að engin gögn hefðu borist þeim varðandi mig eða mín mál síðan ég sendi inn umsókn mína um námslán á sínum tíma, hvorki bréf í ábyrgð eða tölvupóstur frá mér og það var alveg sama hvernig hann tuggði það í hana að þetta hefði verið sent með ábyrgðarpósti og hvort að hún gæti ekki skoðað málið betur þá þýddi það ekkert og sagði faðir minn að hann hafi aldrei talað við aðra eins manneskju….gjörsamlega eins og vél, prógrammeruð til að segja einn hlut… “þetta hefur ekki borist okkur”

Pabbi gamli var nú ekki á þeim buxunum að gefa sig svona auðveldlega fyrir “vélkvendinu” á skrifstofu L.Í.N. og hringdi í Íslandspóst til að kanna hvort þetta væri þeirra feill og það væri þá býsna stór feill að afhenda ekki bréf sem send væru í ábyrgð. Eftir smá eftirgrennslan á skrifstofu Íslandspósts kom í ljós að bréfið hafði vissulega borist L.Í.N. og því til sönnunar hefðu þeir undir höndum undirskrift starfsmanns títtnefndrar stofnunar sem tekið hafði við bréfinu. Starfsmaður Íslandspósts bætti því svo við að það væri býsna ALGENGT með L.Í.N. að þeir NEITUÐU að hafa tekið við ÁBYRGÐARBRÉFUM og að þetta kæmi alltaf annars lagið uppá???!!! Hvað meinar fólk með þessu eiginlega?

Pabbi gamli hringdi nú aftur í L.Í.N. og nú með nafnið á dömunni sem tók við bréfinu uppá vasann. Eftir smá orðaskak við vélmennið og eftir að hafa talað yfir hausamótunum á starfsmanni þeim sem tók við bréfinu skýrðist málið. Auðvitað var bréfið þarna! Og um leið og þeir lásu tölvupóstinn sinn fundu þeir bréfið sem innihélt upplýsingar um námsárangur minn líka. Hvað hafði eiginlega skeð? Ruglaði það öllu systeminu hjá þeim að tekjuáætlunin og skuldabréfið var sett í sama umslag? Er kannski ekkert talast við á milli herbergja þarna? Ég held að þetta fólk sem þarna vinnur njóti þess ákaflega mjög að vera með þetta vald í hendi sér…þetta vald yfir einhverjum námsmanna ræflum í útlöndum og heima á klakanum sem að eiga allt sitt e.t.v. undir þeirra geðþótta komið og ef að einhver vogar sér að gagnrýna eða brigsla þeim um einhver mistök þá FORHERÐIST batterýið í valdanautn sinni og snýr bara enn meira uppá sig!

Þegar L.Í.N. staffið sá að það hafði “tapað” þessari viðureign breyttist viðmótið samt sáralítið en þó fékk pabbi að vita að þetta ætti að vera klappað og klárt. EKKI báðust menn þó afsökunar á þessum mistökum sem greinilega höfðu orðið hjá þeim né heldur útskýrðu þau hvað hafði skeð og finnst mér það toppa þetta mál….svona rúsínan í L.Í.N. endanum ef svo mætti að orði komast. Ég ákvað líka að hringja í L.Í.N. sjálfur og athuga hvort allt væri 100% í lagi. Jú jú, allt komið á beinu brautina en þrátt fyrir annað tækifæri til að biðjast afsökunar á mistökum sínum og þessu dæmalausa rugli öllu saman ákvað starfsfólk L.Í.N. að nýta sér það ekki og sýnir það enn og aftur hroka þessarar stofnunar í garð viðskiptavina sinna.

Og maður spyr sig…hvað ef að einhver hefði lent í sömu aðstöðu og ég en ekki sent sitt brét í ábyrgð ? Hefði hann bara setið í súpunni og þurft að kæra sitt mál til málskotsnefndar með tilheyrandi veseni og ófyrirséðri útkomu? Og hvað með orð starfsmanns Íslandspósts þar sem hann sagði þetta kæmi OFT fyrir hjá L.Í.N. að þeir NEITUÐU að hafa tekið við bréfum?

Er ekki allt í lagi heima hjá þeim? Eru svona vinnubrögð viðhöfð í hvívetna hjá L.Í.N.?

Ég meina, hvað gengur þessu fólki eiginlega til…..ég bara spyr?

Hafa einhverjir svipaða sögu að segja? Látiði heyra í ykkur!

Kveðja,

Rafaello.