Mér flaug allt í einu í hug í kjölfar þess að undursamlega fagrir tónar One með MetallicA, hljómuðu undir lok fréttatímans í sjónvarpi allra landsmanna að ég ætti ekkert lag með þeirri annars ágætu hljómsveit á .mp3 formi.
Ég staldraði aðeins við þessa hugsun eins og mín er von og vísa, og komst þá að þeirri niðurstöðu að einhverntímann hafði ég nú átt eitthvað slíkt. Og ennfremur komst ég að því að ég hef ekki keypt eina einustu plötu eða nokkuð annað með þessari stórgóðu hljómsveit síðan að þeir fóru að rella út af tónlistarstuldi netverja.
JúJú, það stemmir. En ekki hef ég verið að minnka kaup á hljómplötum eða?
NeiNei, ef eitthvað er þá hafa þau aukist. Ég held nefninlega að óhætt sé að fullyrða að ég sé með söfnunnaráráttu.
En af hverju hef ég þá ekki náð mér í tónlist á netinu með MetallicA og eða keypt með þeim neinar hljómplötur?
Jú, svarið við því liggur í augum uppi. Hvað gerir maður þegar eitthvað fer í taugarnar á manni? Nú, maður sniðgengur það aðvitað.
Og það er einmitt það sem ég hef gert, ég hef sniðgengið þessa annars ágætu hljómsveit MetallicA og snúið mér að öðrum sem hafa einmitt uppgötvað snilli .mp3 formsins og/eða internetsins. Eða alltént hafa ekki farið hamförum í að ásaka netverja um að þeir séu ótýndir þjófar sem draga eigi fyrir rétt og helst hengja í gálga öðrum slíkum til aðvörunnar.
Ástæðan fyrir því að ég minnist hérna á MetallicA en ekki aðrar hljómsveitir sem séð hafa ofsjónum yfir .mp3 væðingu heimsbyggðarinnar er einfaldlega sú að hún er mér minnisstæð fyrir þær sakir hve gersamlega álit mitt á þeim góðu mönnum breyttist hérna u.þ.b. árið 2000 þegar þeir stóðu upp og réðust á Napster og vini hans.
Það er reyndar önnur góð hljómsveit sem ég hef uppgötgvað sem mig langar að taka minnast á. Nefninlega GYBE, eða Godspeed You Black Emperor, hún er að koma til landsins í næsta mánuði og þykir mér vera kominn tími til. Hérna er á ferðinni hljómsveit sem ekki einungis inniheldur sanna listamenn, sem er skítsama um peninga heldur líka hljómsveit sem hefur farið þvert á stefnu meistaranna í MetallicA og hreinlega gefið hungruðum aðdáendum sínum allt sitt efni á .mp3 formi, heil átta komma fimm gígabæti af því. (Þó aðdáendur þurfi nú að hafa fyrir því að finna það)
Takk fyrir okkur, elsku snillingar í GYBE, Smashing Pumpkins og öðrum mætum hljómsveitum sem skilja aðdáendur sína og vilja gefa þeim til baka af kökunni. Því jú, án aðdáendanna væru þeir ekki neitt. Hinir vitleysingjarnir líta á okkur aðdáendurnar sem blóðmerar sem eiga ekkert betra skilið en að verða blóðmjólkaðir í markaðsvarningi, vellystinga þeirra til handa. Og því fer einmitt fjarri að ég sem neytandi góðrar tónlistar fari ekki út í búð og kippi eins og einum hljómdiski með GYBE eða einhverri annarri hljómsveit að kassanum og svo heim þar sem ég get notið þess að fara höndum og eyrum um gripinn vitandi að ég er að styrkja sanna listamenn.