Öll erum við að díla við afleiðingar á kerfishruni í fjármálageiranum. Öll fjármálafyrirtæki sama hvaða „starfsheiti“ þau bera hafa tekið á sig brotsjó og raunin er sú að þessi flaggskip eins stærsta atvinnuvegar á Íslandi voru engin flutningaskip. Skítt með kapteininn, stýrimanninn, vélstjórann og hásetana í áhöfnum þessara skipa, þau voru að flytja farþega.
Í dag eru sum þessara skipa sokkin, önnur eru í sama ástandi og Titanic seinasta klukkutímann af bíómyndinni, búin að fá náðarhöggið en ekki sokkin enn.
Að líkja ástandinu á Íslandi við þessa ágætu bíómynd er bara ekkert svo galið.
Með Titanic var það eigandi skipasmíðastöðvarinanr (ef ég man rétt) sem pressaði á skipstjórann að halda fullri ferð svo að loforðið um að komast frá UK til USA á viku mundi standast.
Skipstjórinn vissi hvaða áhætta fylgdi þessu og mótmælti en hafði ekki taugar og/eða þor til að standa í hárinu á eigandanum, þó svo að það er alltaf skipstjórinn sem tekur ákvarðanirnar og ber ábyrgðina.
Svipaða sögu má segja um fjármálaheiminn á Íslandi undanfarin ár. Það var varað við hættunum og bent á „viðskiptasóðaskapinn“ en alltaf vissi einhver málsmetandi betur. Það sem verra er er að það keyptu allir þá skýringu sem hentaði þeim sjálfum best. Það er einfaldlega miklu skemmtilegra að geta fengið lán og keypt það sem mann langar í. Kreppur og vesen er einfaldlega svo leiðinlegt og ekki vænlegt til „pólitísks árangurs“.
En aftur að seinasta klukkutímanum í Titanic.
Munaðurinn á efri hæðunum og svitakompur á þeim neðri. Þegar „slysið“ gerist er svo allt kapp lagt á að læsa fólk fast á neðri hæðunum, almenninginn. Á meðan hirða auðmennirnir og áhöfnin sitt hafurtask og drífa sig í björgunarbátana.
Svo er það sorglega í myndinni, Leonardo… Hann er svo góður gæji. Hann gerir eins og hann getur en deyr úr kulda. Hélst á floti frosinn við einhverja spítu.
Mér líður eins og ég sé að frjósa fastur við einhverja spítu út á ballarhafi og einhver hafi troðið flautu upp í mig til að reyna að róa mig niður.