Jæja, ég var að svara skoðanakönnun hérna rétt í þessu, einmitt um hvort það ætti að afnema skylduáskriftina. Ég, ásamt 14% þeirra sem hafa svarað, segi nei.
Af hverju? Jú, RÚV gegnir mikilvægu hlutverki sem almannavarnaflauta, þ.e. þegar það þarf að almannavarna eitthvað þá sér RÚV um það. Þótt þeir, að mínu mati, sýndu fram á vanhæfni sína í verki á lýðveldisdeginum sjálfum, 17. júní, fyrir nokkru. Hvað sem því líður þá geri ég ráð fyrir því að ráðamenn RÚV hunskist til þess að líta í eigin barm og hætti að sýna fótboltaleiki þegar alþjóð vill vita hvort einhver hafi slasast í náttúruhamförum.
Annað mál á dagskrá, reglugerðir um RÚV. RÚV þarf að eyða minnst skvilljón krónum á ári í innlenda dagskrágerð til þess að vernda “íslenska tungu” og stuðla að einhverju kjaftæði sem allir eru búnir að gleyma hvað er. Ég held að málið sé miklu frekar að slaka á þessum reglugerðum, eyða minni peningum í lélegt innlennt efni og nýta peningana þess í stað til þess að kaupa efni frá erlendum stöðvum. BBC er ein virtasta sjónvarpsstöðin í Bretlandi og það geta allir tekið undir það að þeir eru með snilldar þætti. Hvað er BBC annað en breska ríkissjónvarpið? Ekkert. Málið er ekki að RÚV vilji vera leiðinleg stöð og angra íslendinga með lélegum unglingaþáttum og menningarþáttum á borð við maður er nefndur. Lögin banna RÚV að vera skemmtileg og þar af leiðandi eru ráðamenn stöðvarinnar tilneyddir til þess að vera leiðinlegir. Sorrí, en svona er þetta.
Því vil ég frekar skora á alþingismenn til að endurskoða reglugerðina um RÚV og sjá til þess að við fáum nú eitthvað í staðinn fyrir peningana sem við erum jú neydd til að borga.
Sjálfur er ég áskrifandi að stöð 2 og ég horfi nánast einungis á hana. Ef ég er ekki að horfa á stöð 2 er ég að horfa á jay leno á skjá einum. Kennið alþingismönnum um, það eru þeir sem eru vitleysingjarnir, litlu lömbin sem vita ekki hvað er þjóðinni fyrir beztu.