Íslendingar virðast eiga í erfiðleikum. Vonlaust er að losna við hátt setta embættismenn úr ýmsum stöðum, og ber þar hæst á gómi ástkæran seðlabankastjórann okkar.
Hann hefur ekki gefið svar til ríkisstjórnarinnar um hvort hægt er að semja við hann, og því lýtur út fyrir að örþrifaráð séu nauðsynleg.
Hann er jú með 5 ár í viðbót innan samnings, og á þeim tíma mun hann sko alls ekki láta undan einhverju vinstra pakki sem er í ríkisstjórn bara tímabundið, og hananú!
En er ekkert hægt að gera? Sitjum við uppi með veruleikafirrta tímasprengju í seðlabankanum? Þurfum við að kefla og binda hann og kjöldraga manninn, eða þarf ríkið að fara út í öfgar og láta taka hann af lífi?
Ef þið hafið enga lausn, og eruð farin að örvænta eru hér nokkrar aðferðir sem er hægt að framkvæma.
Lausn nr. 1:
Stofnaður verður “Hin íslenzka fjárhirsla” og mun hún umsvifalaust taka yfir alla starfsemi Seðlabanka Íslands. Þar verður eitt stykki faglærður Fjárhirslustjóri sem sér um öll peningamál sem seðlabankastjóri sá áður um.
Starfslýsingu Seðlabankastjóra verður breytt í “að sjá um þrif og viðhald á fjárhirslunni” og svo er bara að láta Davíð fá skúringafötuna og sjá hvað það líður langur tími þar til hann segir af sér.
Einkun lausnar (frá einum upp í tíu)
Einfaldleiki: tveir (þetta er jú smá vesen í pappír og þingskjölum)
Hagkvæmni: sex (ekkert gífurlega dýrt)
Skemmtanagildi: níu (hver vill ekki sjá Davíð skúra)
Nú og ef Davíð kvartar undan nýju starfslýsingunni, þá getum við einfaldlega spurt hann hvort honum finnist almennar verkamannavinnur ekki samboðnar sér.
Hinsvegar er spurning hvort hann er hæfur í starfið, frekar en önnur störf.
Lausn nr. 2:
Seðlabankastjórum er fækkað niður í tvo, annar í reykjavík og hinn á,… seyðisfirði. Davíð er umsvifalaust fluttur til að vera yfirmaður seyðisfjarðarútibúsins og verksvið hans verður fjármálastefnan þar á bæ. Að sjálfsögðu verður sett upp stimpilklukka, og hann skikkaður til að vera átta tíma á dag í vinnunni, matartími ekki innifalinn. Ef hann mætir of oft seint, þá fær hann áminningu, og ef hann bregst of oft verður hann rekinn.
Sem auka bónus þá verður hægt að einangra hann anzi vel, og allir verða fegnir að losna við hann úr höfuðborginni(nema greyi seyðisfirðingarnir, en það geta víst ekki allir verið ánægðir)
Einkun lausnar:
Einfaldleiki: Sjö, það eina sem þarf er leigubílstjóri sem þolir návist Davíðs alla leiðina til Seyðisfjarðar.
Hagkvæmni: Átta, fyrir utan mögulegann bónus ef fjölmiðlabann verður lagt á Seyðisfjörð, þá getur Davíð ekki skemmt fyrir í fjölmiðlum heldur.
Skemmtanagildi: Þrír, því miður ekkert allt of skemmtilegt að framkvæma, en á björtu hliðina losnum við við Davíð úr borginni og mögulega sem lengst frá fréttum og myndavélum.
Lausn nr. 3:
Fjölda seðlabankastjóra verður breytt í um 50. Síðan eru valdir 49 harðir anarkistar og socialistar, og hlutverki þeirra breytt í að velja Framkvæmdastjóra Seðlabankans. Framkvæmdastjórinn fer með völd bankans, en seðlabankastjórar verða látnir tala saman og íhuga lífið og tilverunar alla daga.
Það er hætt við að Davíð eigi eftir að springa úr gremju eftir nokkra daga eftir að hlusta á endalausa fyrirlestra um af hverju ríkisvæðing er jákvæð, hvernig peningakerfið er gallað og hvað auðmenn séu mikið krabbamein á þjóðfélaginu.
Nú ef hann gefst ekki upp, getum við farið að sjónvarpa þessu sem hágæða raunveruleikaþætti. (Gott nafn gæti td. verið "Davíðsölið, eða Last Neo-Liberalist standing)
Einkun lausnar:
Einfaldleiki: Átta, mínus þrír ef nauðsynlegt er að setja upp raunveruleikaþáttinn.
Hagkvæmni: Sex, fer eftir hvað þarf að greiða þessum 49 seðlabankastjórum í kaup.
Skemmtanagildi: Átta, og jafnvel hægt að sjónvarpa þessu í útlöndum.
Lausn nr 4:
Síðasta lausnin hjá mér í bili er að leggja kvíabryggju umsvifalaust niður, flytja fangana í seðlabankann, læsa hurðunum utanfrá og leyfa þeim síðan bara að vera þarna inni. Húsið er hvort sem er byggt eins og virki, og þá eru allir glæponarnir á sama stað. Einfallt og þægilegt.
Síðan er bara að klára menningarhúsið og flytja starfsemi seðlabankans þangað.
Einkun lausnar:
Einfaldleiki: Níu, fyrir utan vesenið við að færa seðlabankann.
Hagkvæmni: Sjö, losnar um fangelsispláss, sparar okkur réttarhöld yfir Dabba, og við finnum not fyrir menningarhúsið.
Skemmtanagildi: Einn, Davíð væri ennþá í borginni.
Þá er bara að vona að einhver í pólitíkinni lesi þetta og noti lausnirnar.
Ég stal þessu af facebook-inu hjá félaga mínum og ákvað að pósta þessu hér. Sumt af þessu eru bara nokkuð góðar hugmyndir;)