Þann 1. Ágúst, 2001, fóru í gildi lög um breytingar á tóbaksvörnum.
Í 6. gr. lið B, er tekið fram að í fjölmiðlum má ekki fjalla um einstakar vörutegundir tóbaksgeirans (sem eru skilgreindar annars staðar í breytingatillögunni), nema til þess eins að vara við skaðsemi tóbaksneyslu.
Nú veit ég ekki hvort Hugi telst sem fjölmiðill, en teljist hann sem fjölmiðill, ætla ég hér með að brjóta lög með því að lýsa einlægri, og raunverulegri skoðun minni á einstökum tóbaksvörum… þ.e.a.s. sígarettum.
Ég hef tekið eftir því að Salem Lights er með hvítum filter. Það hefur mér alltaf fundist ferlega undarlegt. Þá finnst manni sígarettan vera lengri. Mér finnst það nú skömminni skárra að hafa filterinn augljósan, eins og til dæmis á Camel Filters.
Camel Filters eru einmitt í umbúðum sem mér þykir bara beinlínis svalar. Einföld og áhrifarík litasamsetningin finnst mér benda til fágunar, á meðan t.d. nýju Gold Coast pakkarnir einkennast af einfaldri, en leiðinlegri litasamsetningu. Þ.e.a.s., rauður og hvítur, í því mynstri sem maður myndi búast við að sjá á heimasíðu. Á móti kemur að Gold Coast var ekkert vinsæll fyrir breytinguna, og neytendur virðast upp til hópa ánægðir með breytinguna.
Sígarettur finnst mér reyndar yfirhöfuð dálítið asnalegar. Tvímælalaust fylgir því þægileg, líkamleg nautn þegar maður reykir, sé maður fíkill, því verður ekki neitað. Reykingar hafa tvímælalaust *eitthvað* félagslegt gildi eins og hver einasti reykingamaður veit. Svo er það auðvitað almennt álit að það sé ekki kostnaðarins virði, þ.e.a.s. heilsunnar og peninganna. Mjah… ef menn vilja borga 435 krónur á dag fyrir það eitt að fara út og samskipta við aðra manneskju… þá sé ég svosem ekki ástæðu til þess að gagnrýna viðkomandi. Við borgum mun meira til að gera mun leiðinlegri hluti en að spjalla við skemmtilegt fólk, en ég læt það eftir reykingamönnum að ákveða þetta fyrir sig, svosem. Sjálfur myndi ég a.m.k. ekki borga þetta fyrir smávægilegt, félagslegt gildi sem ég get alveg eins öðlast með öðrum, ódýrari og heilsusamlegri hætti.
Ég biðst velvirðingar á þessu innihaldslausa þvaðri, en það taldi ég mikilvægt í tilraun minni til þess að vísvitandi brjóta lög, og það á grimmilegan hátt. Hér minnist ég einstaka sinnum á neikvæði þætti þess að vera reykingamaður, en það verður ekki með nokkru móti sagt, að ég sé sérstaklega að vara við skaðsemi eins eða neins.
Ég geri þetta af hreinni kaldhæðni. Mér finnst þessi lög fyndin. Þau pirra mig ekkert. Ég hef enga trú á því að nokkur maður eigi eftir að kæra mig fyrir brot mitt (þó ekki mega gleyma því að skilgreininaratriði sé hvort Hugi sé fjölmiðill eða ekki), vegna þess einfaldlega að fólk virðist finnast það mjög sjálfsagður þáttur í daglegu lífi, að brjóta alveg slatta af lögum, fullkomlega vísvitandi. Til dæmis hafa menn gert gys að umferðarlögum með því að reyna að fara algerlega eftir þeim í einn dag… og ég sjálfur hef a.m.k. aldrei séð það gerast.
Þetta ákvæði laganna, finnst mér vera fullkomið dæmi um tilhneygingu stjórnvalda Íslands, til þess að setja boð og bönn um vandamál sem eru ekki til, hafa aldrei verið til, og verða mjög augljóslega aldrei til. Ennfremur finnst mér fyndið hve fréttafrelsi er í raun takmarkað á Íslandi, þótt að æsifréttablöð eins og Séð & Heyrt og DV fari léttilega í kringum einhvern lagaramma þar á bæ.
En allavega… mér fannst rétt að tjá mig um reykingar til að brjóta alveg örugglega í bága við Íslensk lög. Megi enginn maður þurfa að upplifa það á Íslandi, að vera neyddur til að fara eftir lögum í einu og öllu. Frekar væri að gera þeim manni greiða, og læsa hann inni á Litla Hrauni, heldur en að pína hann með þeirri freistingu, að fara út úr húsi án þess að brjóta lög.