Ég fór á djammið í gær. Ég fór á það djamm, andstætt því sem ég hafði fyrirhugað. Hélt reyndar í það að verða ekki of ölvaður, drakk bara minn Guinness í dós og reyndar einn bjór sem ég plataði sjálfan mig til að kaupa á stað sem heitir… 101.
Í dag fór ég svo í bíltúr og Kolaportsráp með félaga mínum, og fer hann að röfla um “the American diner”. Hann vildi meina að litla húsið sem er búið að vera eins og bílskúr með gluggum niðri við höfn, sé meiningin að breyta í… lítinn sætan “diner”, með Bandarískum brag.
Og hann slær í stýrið og fær varla upp úr sér orð af hneykslun, yfir því að menn haldi að ef það væri mögulegt fyrir Reykvíkinga að mynda Bandaríska “diner-fílinginn”, þá væri það ekki löngu búið að gerast.
Sem hann vildi meina að væri tilfellið, eins langt og það kæmist. Minntist á að BSÍ væri sú litla vonarglæta sem við hefðum til þess að gera þetta menningarfyrirbæri að veruleika… “people on the road”.
Í kjölfar þess að ég ældi næstum því inni á þessum blessaða stað þarna í gær af andstyggð á þessari tegund staða, fór ég að hugsa betur út í það sem maður hefur auðvitað vitað mjög lengi, allir hafa vitað, en færri nennt að gera veður vegna. Ég sé að í kjölfar hugsanlegra hagsveiflna í framtíðinni sé þó alveg vert að menn sem hafi áhuga á þessu, lesi sér til um það, og ræði það sín á milli. Hvað það er, sem þeir vilja.
Það er hin hægt og bítandi, deyjandi efnishyggja Íslendinga. Íslendingar virðast bara vilja fá “fílinginn” af hlutunum, en helst vilja þeir sleppa við það sem bjó til fílinginn til að byrja með. Besta dæmið er líklega 101-dýrkunin sem núna er í gangi. 101 Reykjavík hefur alltaf verið hálf sérstakt svæði, vegna þess að upp til hópa er þar gamalt, og/eða fátækt, og/eða kolruglað fólk. Ég tala með fullri virðingu fyrir 101-fólki, þar sem ég bý og kann best við mig, einmitt á umræddu svæði. Það sem pirrar mig, er þegar fólk fer að reyna að selja þetta. Þessa… “menningu”.
Kaffihúsin sem menn vilja fá fílinginn af, eru kaffihús þar sem fólk með litla peninga og stórar sálir fara á, vegna þess að fyrir mörgum árum eða jafnvel áratugum, komst 101 markaðurinn að því að það væri ódýrasta kaffihúsið, miðað við gæði kaffisins. Síðan koma fyrirbæri eins og Vegamót, Kaffi List og 101, kaffihús og/eða djammstaðir sem eru að miða á hinn betur stadda markhóp… en þó á 101 svæðinu. Staðir sem miða á að vera, það sem við köllum í hugbúnaðar/margmiðlunargeiranum, “hip & cool”.
Gallinn við að markaðssetja þessa menningu, er að með því fylgja vinsældir, og með því fylgir hærra verð, og með því fylgir andstæðan af þeim markhóp sem bjó til upprunalega fílinginn, og þar með, andstæðan við upprunalega fílinginn.
Ég ætla að fara varlega út í að gagnrýna sérstaka staði eða hópa, þó að ég minnist á mínar eigin persónulegu skoðanir, sem ég hvet engan til að hafa eftir mér. Þetta er bara umræða sem mér finnst eiga skilið að vera til, og það sérstaklega á tímum þar sem efnahagsspár eru mjög umdeildar, bæði á meðal sérfræðinga og almúgans. Helst þá, tel ég, vegna þess að fólk er kannski meira að hugsa um sitt eigið, raunverulega verðmætamat.
Ég get ekki ímyndað mér að það sé óhollt, hvorki fyrir menninguna né efnahagslífið, að menn fari að spá aðeins meira í verði hlutanna, en allra helst meiningu þeirra. Ég sé satt best að segja ekki hvers vegna nýir staðir þurfa alltaf að vera innréttaðir með hlutum úr stáli, ljósleiðara og eins óþægilegum stólum og hægt er að kaupa með peningum (á meðan þeir líta bara nógu fjári undarlega út). Sjálfvirk klósett og stórt, opið rými sem er ómögulegt að hafa samræður í, sökum bergmáls eða ofmats á tónlistardýrkun fólks. Ég er kannski að misskilja menninguna. Reyndar skal ég fúslega viðurkenna að ég skil þetta ekki.
Ég trúi því ekki, að hægt sé að kaupa menningu. Það má kannski leigja hana til skemmri tíma, eða húkka far með henni og þar með spara sér þann kostnað sem þarf til þess að byggja ósvikna menningu á “heilbrigðan” máta, sem mér sýnist vera nákvæmlega það sem við erum að upplifa á 101 svæðinu í dag. Menning leigð, fátækt keypt.