Smávegins um skaðleg efni:
Amfetamín.
Einnig þekkt sem spítt. Tekið inn um nef sem duft eða gleypt í töfluformi. Stundum leyst upp og sprautað í æð. Amfetamín er mjög örvandi efni, eykur snerpu, minnkar þreytu, heldur neytanda vakandi lengi og eykur líkamsþrótt. Áhrifin af einu “skoti” vara í um 3-4 tíma. Fráhvarfseinkenni geta verið alvarleg, eru oftast ótti og stundum ofsóknaræði. Eftir nokkurra daga stöðuga neyslu getur tímabundin geðveiki gert vart við sig. Þessi einkenni geta einnig komið fram löngu eftir að neyslu lýkur. Aðrar afleiðingar mikillar neyslu eru t.d. svefnleysi og lystarleysi.
Amfetamín er ólöglegt á Íslandi.
Kanabis.
Kanabis er til í mörgum afbrigðum sem í daglegu tali eru kölluð: gras, maríúana, hampur, kvoða, hass og hassolía. Gras er reykt óblandað. Hassolían, kvoðan og hassið er oftast blandað með tóbaki í vafning (jónu) og reykt eins og sígaretta. Sumir leggja það á sig að búa til svokallaðar vatnspípur, sem með ærinni fyrirhöfn gerir sama gagn. Stundum er kanabis notað við “matargerð” og étið. Áhrifanna gætir fljótlega og getur víman varað í nokkra tíma ef miklu er neytt. Merkjanlegar persónuleikatruflanir og brenglað veruleikaskyn er sjaldgæft, en þá helst ef mikils er neytt í langan tíma. Áhrifin eru róandi og þvoglumælgi einkennandi. Fyrstu skiptin geta orsakað svokallaða “hvítu”. Þá verður viðkomandi bæði fölur og stjarfur, verður óglatt og syfjaður. Því hefur verið haldið fram að líkaminn nái ekki að hreinsa sig fullkomlega af virka efninu í kanabis, heldur helmingist það niður á ca. 7 daga fresti. Eftir langvarandi neyslu eru því líkur á sálfræðilegum kvillum, eins og t.d. skorti á einbeitingu, viljaleysi og ósjálfstæði. Einnig er hætta á öndunarerfiðleikum og krabbameini í lungum.
Kanabis er ólöglegt á Íslandi.
LSD.
Einnig þekkt sem sýra. Gleypt í ýmsu formi, eins og t.d. pappír, sem vættur hefur verið með sýru, töflum o.s.frv. Hámarksáhrif nást eftir 2-6 tíma og endast í um 12 tíma. Áhrifin eru mjög sterkt skynvilluástand. Ofskynjun og tímabundin geðveikiköst eru algeng. Svokallað flassbakk (endurtekning áhrifanna löngu síðar) er mögulegt. Eftir langvarandi notkun verða flassbökkin tíð. Stöðug flassbökk eru möguleg og þá helst hjá viðkvæmum einstaklingum. LSD er ekki vanabindandi. Eftir 3-4 daga stanslausa notkun hefur frekari neysla ekki áhrif.
LSD er ólöglegt á Íslandi.
Alsæla.
Efnafræðilega nefnt methylenedioxymethamphetamine, eða MDMA. Alsæla sameinar áhrif LSD og amfetamíns og er flokkað sem örvandi skynvillulyf. Tekið inn í töfluformi. Útþandir augasteinar, stífni í kjálka, vottur af ógleði, sviti, þurr háls og munnur, hár blóðþrýstingur, ör hjartsláttur og lystarleysi eru helstu einkenni alsælu. Jafnvel löngu eftir neyslu getur það verið hættulegt að aka bíl eða vinna við vélar, því samhæfing getur bjagast svo erfitt getur reynst að hafa vald á hreyfingum. Orsökin er sögð stafa af taugaendum sem skemmast við neyslu og ná ekki að endurnýjast með eðlilegum hætti. Þessi skaði er talin varanlegur. Lítil neysla alsælu framkallar milda og skjóta gleðitilfinningu og síðan upphafna ró og kæruleysi sem endar oftast með reiði og fjandskap. Alsæla virðist örva huglæg tengsl á milli neytenda en hinsvegar er talið að neysla alsælu dragi úr kynorku og áhuga á kynlífi. Neysla alsælu getur hindrað fullnægingu beggja kynja og komið í veg fyrir holdris karlmanna. Eftir nokkurra daga neyslu geta flassbökk átt sér stað.
Alsæla er ólöglegt á Íslandi.
Kókaín.
Er einnig til sem krakk. Kókaín er duft sem annaðhvort er tekið í nös eða leyst upp og sprautað í æð. Krakk er reykt. Mjög örvandi, líkt og amfetamín, en áhrifin endast aðeins í 15-30 mínútur. Síendurtekin neysla marga tíma í senn getur valdið mjög mikilli geðshræringu, sjúklegri tortryggni, ofsóknaræði og varanlegum heilaskemmdum. Dauði af völdum öndunarstopps er líklegt, sérstaklega ef heróín, eða önnur slakandi lyf, er notað samhliða. Þegar krakk er reykt verða áhrifin ennþá öflugri og fljótvirkari, en endast skemur. Eftir langvarandi notkun fer að bera á öfgakenndum geðsveiflum og brenglun á matarvenjum . Ofsóknaræði og skert veruleikaskyn eru talin einkenni. Sé kókaín sniffað í nös getur það skemmt slímhúð í nefi og öndunarfæri. Sé krakk reykt getur það valdið öndunartruflunum.
Kókaín er ólöglegt á Íslandi.
Heróín.
Heróín er unnið úr virku efni ópíumjurtarinnar. Oftast er það leyst upp og sprautað í æð, en einnig sniffað í nös og reykt. Heróín er mjög sterkt og neytandinn verður háður neyslu þess nánast strax. Það smýgur auðveldlega inn í heilann, eins og t.d. morfín, og gefur því vímu nær samstundis. (Morfín er t.d. notað sem staðdeyfilyf í bráðatilfellum við lækningar). Margir fíklar kjósa sér heróín fram yfir önnur fíkniefni. Skynjun og verkir dofna og kvíðatilfinning hverfur. Áhrifin vara í um 3-6 tíma og eftirköstunum fylgir mikil sælutilfinning, sem dofnar þó eftir langvarandi notkun. Fráhvarfseinkenni geta verið mjög kvalafull og geta varað í marga daga og verða neytendur heróíns oft þrælar þess.
Heróín er ólöglegt á Íslandi.
Sniff.
Sniff er ekki lyf heldur athöfn, þegar viðkomandi þefar af ýmsum efnum, eins og t.d. lími og gasi. Áhrifin vara í um 15-45 mínútur og finna sniffarar oft fyrir miklum svima, dofa og rofnum hugmyndatengslum. Veruleikaskyn brenglast og ofskynjun er möguleg. Hætta er á köfnun og hjartakvillum. Langvarandi sniff getur skaðað heilastarfsemi og líffæri, jafnvel löngu eftir neyslu. Dæmi eru um lömun eftir litla neyslu.
Ekki eru til lög um sniff á Íslandi, enda ekki gert ráð fyrir að fólk sé svo vitlaust að anda að sér eitruðum lofttegundum án þess að vera þvingað til þess. En þar sem ekki er til þekking hefst fiktið.
Áfengi.
Áfengi er róandi lyf. Það slakar á spennu og kvíða, getur skaðað heilastarfsemi, minnkar sjálfstjórn og getur valdið þunglyndi. Áhrifin geta varað í nokkra tíma, miðað við “hæfilegt” magn. Áhrifin aukast ef áfengi er drukkið óblandað og /eða á fastandi maga. Lítið glas af bjór og léttu víni (hvítvíni/rauðvíni…) samsvarar einum einföldum af sterku víni (vodka/vískí…). Hófleg drykkja er talin vera 2-3 einfaldir á dag. Drykkja umfram það slævir dómgreind í réttu hlutfalli við magn. Mjög mikil drykkja er talin auka líkurnar á hjartaáfalli, lifrarsjúkdómum, háum blóðþrýstingi, ófrjósemi og taugasjúkdómum. Fíkn er einnig talin fylgifiskur mikillar drykkju. Fráhvarfseinkenni, eftir mjög mikla drykkju, geta undir vissum kringumstæðum verið banvæn, en orsaka oftast óráð og/eða æðisköst sökum mikilla geðsveiflna. Sé drukkið reglulega á meðgöngu getur það valdið varanlegum skaða á fóstri.
Svokölluð timburmenni eru að hluta til afleiðing eitrunar og að hluta til vökvataps og lágs blóðsykurs. Efni þau er valda eitrun eru til staðar í öllum áfengum drykkjum en í meiri mæli í dökkum drykkjum, eins og t.d. brandý og rauðvíni. Vökvatap (dehydration - þornun líkamsvefja) á sér stað vegna þess að áfengi er þvagörvandi. Áfengi örvar einnig framleiðslu insúlíns (stjórnar nýtingu líkamans á sykri og öðrum kolvetnum) sem gerir það að verkum að magn blóðsykurs minnkar. Lítið blóðsykurmagn getur orsakað vanmátt, skjálfta, yfirlið, syfju og svengd. Sýrumagn ýmissa drykkja getur valdið pirringi í maga. Sumir drekka vatn við timburmönnum, en þó er ekki til nein alvöru lækning. Slíkt ástand varir oftast í 1-2 sólarhringa.
Áfengi er löglegt á Íslandi.
Nikótín.
Nikótín er einstaklega sterkt lyf. Finnst í tóbaki sem unnið er úr jurtum af ættkvísl einærra hitabeltisplantna, “Nicotiana”. Rannsóknir staðfesta að nikótín er álíka vanabindandi og heróín og kókaín. 60mg af hreinu nikótíni, sem komið væri fyrir á tungu viðkomandi, myndi valda dauða á örfáum mínútum. Þegar kveikt er á sígarettu breytist nikótínið í gufu sem viðkomandi andar að sér. Líkaminn vinnur mjög hratt úr gufunni og nær nikótínið til heilans á innan við 7 sekúndum. Það örvar miðtaugakerfið, eykur hjartslátt, hækkar blóðþrýsting og eykur súrefnisþörf líkamans. Eftir reglulega neyslu finnst flestum þessi áhrif vera róandi. Strax eftir að sígaretta hefur verið reykt finnur neytandinn fyrir fráhvarfseinkennum. Þeir sem reykja í fyrsta skipti finna fyrir flökurleika og svima. Afleiðingar langvarandi reykinga geta verið öndunartruflanir, lungnakrabbamein, hjartakvillar, truflanir á blóðstreymi o.s.frv. Sé reykt á meðgöngu getur það haft áhrif á vöxt og þroska fósturs og í sumum tilfellum orsakað ótímabæra fæðingu. Nikótín getur verið mjög vanabindandi. Miklar reykingar valda því að blóðkorn ná ekki að flytja nema um 85% af eðlilegri súrefnisþörf líkamans. Óbeinar reykingar geta einnig haft svipuð áhrif.
Nikótín er löglegt á Íslandi.
LadyGay