—
Hafnfirsk móðir kærir lögreglu fyrir árás
22 ára hafnfirsk, móðir búsett á Víðivangi, hyggst kæra lögregluna í Hafnarfirði fyrir líkamsárás. Hún var handtekin á laugardaginn eftir að hafa hringt í lögregluna um klukkan 23 til að kvarta vegna hávaða frá flugeldum en dóttir hennar, sem er eins árs, gat ekki sofið vegna látanna.
Lögreglan vill ekkert tjá sig um málið. Konan sagðist í samtali við Fréttablaðið hafa verið í boði annars staðar þegar systir hennar, sem hefði verið að passa dóttur hennar, hefði hringt og sagt að litla stelpan gæti ekki sofið þar sem nágrannarnir væru að skjóta upp flugeldum. Linda sagðist hafa ákveðið að fara heim til að reyna að svæfa dóttur sína en það hefði ekki gengið vegna mikils hávaða frá skoteldunum.
“Það endaði með því að ég hringdi í lögregluna,” sagði konan. “Ég fór síðan yfir til að tala við nágrannanna og bað þá vinsamlegast að hætta en þetta var fullorðið fólk og átt að vita betur en að vera að skjóta upp flugeldum svona seint - enda hvorki gamlárskvöld né þrettándinn.” Að sögn konunnar var fólkið við blokk við Hjallabraut en flugeldunum var skotið upp í garði við blokkina sem er nálægt húsinu þar sem Linda býr. Hún sagði að fólkið hefði greinilega verið í samkvæmi því úti á svölum hefðu nokkrir verið fylgjast með “flugeldasýningunni”. “Þegar lögreglan kom var ég eitthvað að rífast við fólkið. Í fyrstu var ég fegin því ég hafði hringt í hana.
Lögreglumennirnir gengu hins vegar beint til mín, handtóku mig og færðu mig inn í lögreglubíl. Ég var járnuð á höndum og fótum og fæturnir á mér bundnir. Ég reyndi að útskýra málið og sagðist vera með ungbarn heima en mennirnir hlustuðu ekkert á mig heldur sneru mig niður og settu hnéð í bakið á mér en ég er mjög lítil manneskja og það þarf ekki mikið til að halda mér niðri.”
Konan sagði að farið hefði verið með hana upp á lögreglustöð þar sem hún hefði verið yfirheyrð. Lögreglan hefði ekki getað fært nein rök fyrir handtökunni og að eftir um tuttugu mínútur hefði henni verið sleppt. Hún sagðist hafa farið til læknis og fengið áverkavottorð þar sem hún hefði bæði verið með áverka á úlnliðum og fótum. “Ég fór í gær (mánudag) niður á lögreglustöð og gaf skýrslu og kærði lögregluna fyrir þetta. Mér finnst bara ekki hægt að hún skuli koma svona fram við fólk. Þeir gengu bara að mér, handtóku mig og spurðu einskis. Ég hugsa mig tvisvar um áður en ég hringi í lögregluna aftur.”
Ólafur Emilsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar í Hafnarfirði, sagðist ekkert vilja tjá sig um málið. Hann staðfesti að Linda væri búin að leggja fram kæru og að málið færi núna til ríkissaksóknara sem myndi síðan vísa því til einhvers annars umdæmis í rannsókn
—
Nú spyr ég, eru lögreglumenn í Hafnarfirði á valdníðslufylleríi þessa dagana? Af þessari grein sér maður hvergi ástæðu þess að lögreglan þurfi að ráðast á konuna og hlekkja á höndum og fótum með þessum hætti. Svona hátterni ríkisstarfsmanna er ofbeldi af verstu sort ef þessi grein er ekki bull.
—–