Ég tók meðfylgjandi af visir.is, það verður spennandi að sjá hvað kemur útur þessu máli
Fréttablaðið, Fim. 10. jan. 11:24
Myndband af sprengjuveislunni
Lögreglan í Hafnarfirði hefur nú undir höndum myndband af gleðskapnum utan við Hjallabraut á laugardagskvöld þar sem ung kona var handtekin eftir nágrannaerjur.
Fram kom í samtali við ungu konuna í Fréttablaðinu í gær að hún hefði verið færð í járnum á lögreglustöð eftir að hafa sjálf kallað til lögreglu í því skyni að stöðva flugeldasýningu. Fór flugeldasýningin fram á lóð fjölbýlishúss í nágrenni heimili hennar. Það hafi hún ætlað að gera þar sem áliðið var orðið kvölds og eins árs gömul dóttir hennar gat ekki sofið fyrir sprengjugnýnum. Hún hefur kært handtökuna.
Kona sem var gestur í sprengjuveislunni segir að ungu móðurinni hafi ekki þurft að koma á óvart að það var hún en ekki aðrir viðstaddir sem lögreglan handtók. “Hún réðst að okkur með miklum munnsöfnuði, klóraði einn mann í andlitið og sló gleraugun af öðrum og hrækti framan í hann. Þegar lögreglan kom og ætlaði að færa hana burt barðist hún um og sló lögregluþjóninn,” segir konan, sem efast ekki um að það verði létt verk fyrir lögregluna að sanna að um lögmæta handtöku hafi verið að ræða:
“Við höfðum verið að taka flugeldasýninguna okkar upp á myndband og á því sést þessi atburður frá upphafi til enda. Lögreglan bað um afrit af myndbandinu og hefur fengið það,” segir konan, sem telur sig aldrei hafa upplifað annan eins atgang og hún varð vitni að þetta kvöld: “Ég er frá Blönduósi og hef séð ýmislegt sem lögreglan lendir í þar en það er þó aðallega að stoppa menn fyrir of hraðan akstur,” segir hún.
Maður sem einnig sem var í sprengjuveislunni segir veislugesti hafa talið að þeim væri frjálst að sprengja flugelda á þeim tíma sem um ræðir. “Við byrjuðum að sprengja klukkan tíu en gerðum fimmtán mínútna hlé áður en við byrjuðum aftur um ellefuleytið,” segir maðurinn. Að sögn mannsins var um að ræða vinahóp sem hefur sérlega gaman af flugeldum og sprengikökum. “Við verðum alltaf dálítið veikir í kring um gamlárskvöld og þrettándann,” segir hann.
Kona sem býr í umræddu húsi á Hjallabraut segist vilja koma því á framfæri að hávaði af sprengingunum hafi verið yfirgengilegur. “Ég var að því komin að hringja sjálf í lögregluna en það er kannski eins gott að ég gerði það ekki,” segir hún.