Á undanförnum vikum í kjölfar lokunar á istorrent og öðrum íslenskum torrent síðum, hefur átt sér stað mikil umræða um istorrent, torrent tæknina og internetið yfirhöfuð sem miðil fyrir afþreyingarefni. Auk þess hefur það verið mikið á milli tannana á fólki hvort þessi dreifing sé ólögleg eður ei, en oftar en ekki fellur þetta á hið margfræga gráa svæði innan lagasafna hinna ýmsu ríkja.
Eftir að istorrent lokaði spruttu upp nýjar torrent síður eins og gorkúlur en var lokað jafnóðum, yfirleitt því eigendur þeirra voru ungir og þurfti ekki meira til en eitt símtal frá SmáÍs til foreldra þeirra og síðan var komin niður klukkustund síðar. Ágætis framtak en fremur ræfilslegt með fullri virðingu fyrir þeim ungu aðilum sem reyndu sitt besta á þessu sviði, það er dýrt og erfitt að ætla sér að standa í SmáÍs jafnlengi og Svavar Lúthersson gerði.
Álit mitt er að þegar öllu er á botninn hvolft í þessari torrent umræðu, og almennt í þessari umræðu um notkun netsins sem dreifingarleið fyrir bíómyndir, tónlist og sjónvarpsþætti, þá er notkun almennings á þessari tilteknu tækni kall eftir betri dreifingarháttum þeirra sem raunverulega eiga höfundarréttinn á afþreyingarefninu sem við Íslendingar höfum verið að ná í af hvort öðru með hjálp isTorrent, DCi.is og annarra aðila.
SmáÍs eru óhræddir við að segja okkur frá nýjum frumvörpum gegn skráarskiptum og dómum sem hafa fallið erlendis þar sem eigendur torrent síðna eru dæmdir til að greiða háar sektir osvfr. Eftir lestur á slíkum pistlum frá Snæbirni sem oftar en ekki væri auðvelt að flokka sem áróður (sem er kannski eðlilegt enda SmáÍs allt annað en hlutlaus aðili), þá finnst manni oft eins og peer2peer tæknin eigi undir högg að sækja og þessi skráarskipta ‘bylting’ muni brátt líða undir lok. Lokun Smáíss á öllum þeim nýju torrent síðum sem hafa birst okkur eftir lokun isTorrent kristallar kannski þessa tilfinningu.
En aðrir eru annarrar skoðunar, og hafa haldið því hart fram að peer2peer (torrenttæknin þar innifalin), sé komin til að vera og þótt að höfundarréttarsamtökum takist að loka einhverjum ákveðnum síðum hér og þar þá séu slíkar aðgerðir aðeins lítill dropi í hafi hins stóra skráarskiptaheims. Það vill svo til að í dag opnaði enn ein íslensk torrent síða, og um leið og ég heyrði af fregnunum hugsaði ég með mér “oh hún lokar eftir tvo sólarhringa”.
Síðan heitir TheVikingBay, http://www.thevikingbay.org, og þegar ég las forsíðuna þá var þessi hugsun mín á bak og burt, því þar stendur orðrétt:
“Við viljum taka fram að vefurinn er hýstur erlendis í þrem löndum, ef gripið er til aðgerða þá verður vefurinn ávalt uppi, vefurinn er hýstur í Svíþjóð, Rússlandi, og Hollandi.”
Að þessu leyti sker TheVikingBay sig úr hópi fyrri íslenskra torrent síðna, því hér eru greinilega engin unglömb á ferðinni og það verður hægara sagt en gert fyrir Smáís að loka þessari skráarskiptasíðu.
Er þetta ekki bara fullkomið dæmi um það sem þeir eiga við sem eru þeirrar skoðunar að þessi torrent tækni sé komin til að vera? Hvað finnst þér?
—–
Athugið að ég kem ekki með neinum hætti að opnun þessarar nýju torrentsíðu og þessari grein er aðeins ætlað að hvetja til umræðna um spurninguna sem greinarhöfundur ber upp í titli greinarinnar.