Nú er RÚV endanlega búið að skíta á sig. Eftir að hafa hlustað á tónleikana frá því í fyrra, þegar Bubbi kallaði Hannes Hólmstein homma eða hvað það nú var, tók skipuleggjandi tónlistarviðburðarins það upp með sjálfum sér að loka fyrir tónleikana. Reyndar eftir viðtal við lögfræðing rúv. Hefð sem búin er að standa í fleiri ár er þannig að engu orðin. Þetta hefði maður kannski skilið ef Hannes sjálfur hefði kvartað en svo var ekki. Hann sagði ekki orð yfir þessu og í viðtali við sjónvarpið lét hann hafa það eftir sér að honum væri með þessu enginn greiði gerður. Að sjálfsögðu ekki! Hann vill ekki vera fávitinn sem köttar á beina útsendingu frá tónleikunum bara af því að hann er hörundssár. Og ennfremur, núna þegar útsendingin hefur verið blásin af þá hugsar fólk náttúrulega með sér að hann hljóti að hafa kippt í einhverja spotta. Hann græðir nákvæmlega ekkert á því, tapar heldur almenningsáliti ef eitthvað.
Nú ætla ég ekki að halda alfarið með Bubba í málinu þar sem það er alger óþarfi að ráðast svona persónulega á fólk, skoðanir Hannesar eru allt annað mál og í góðu lagi að gagnrýna þær. En að koma fram núna, örfáum vikum fyrir útsendinguna og klippa á hana er bara rugl. Bubbi er búinn að halda þessa tónleika í mörg ár og hefur aldrei legið á skoðunum sínum, ég er þess meira að segja fullviss að hann hafi oft verið með meiri kjaft en þetta en aldrei hafa orðið nein vandræði fyrr en nú. Og það eru ekki einu sinni vandræði því sá sem um ræðir hafði ekkert um málið að segja! Ef rúv vildi endilega hætta við útsendinguna þá áttu þeir að gera það fljótlega eftir síðustu tónleika en ekki núna.
Ég skora því á forráðamenn ríkisútvarpsins að taka í taumana og halda þessari ágætu jólatónleikahefð áfram, að minnsta kosti þangað til þeir sem eiga hlut að máli opna munninn.