Jæja, nú er mál með vexti & vona ég að þessi hugmynd fái einhverja gagnrýni og eða samþykki hér á þessu spjallborði, að ég og bróðir minn vorum að spjalla um daginn.
Nú teljum við okkur báða vera trúleysingja, og erum við alfarið á móti trúarbrögðum. Við erum mjög samstíga í skoðunum okkar en við virðum samt alltaf trú einstaklingsins þó við teljum hana vera byggða á rökleysu, uppeldi og oftar en ekki menntun.
En sem betur fer er þetta að breytast, við erum fyrst núna (við sem mannkynið) farið að sjá í stórum hópum hversu röng og röklaus trúarbrögð eru og hvað margt illt hlotnast af þeim frekar en gott.
En nóg um það, við komum upp með hugmynd. Kannski langdregin og óraunhæf en samt sem áður góð hugmynd.
Kannski ég byrji á byrjunni og úr hverju hugmyndin æxlaðist.
Við byrjuðum á að fara upp í Þjóðskrá í Borgartúni til að skrá okkur úr Þjóðkirkjunni okkar því okkur leist betur á að peningurinn okkar rynni til HÍ. (Þessi tvö % eða hvað sem það nú er af okkar skatti)
Stoltir á svip löbbuðum við út í sólskinið og vorum sáttir með okkur, höfðum lengi ætlað okkur þetta og loksins kláruðum við dæmið.
Svo eftir svefn stoltra drauma hringir brói í mig og kveðst hafa fréttir að færa, ég fer og hitti hann og hann útskýrir fyrir mér að skatturinn sem maður borgar til þjóðkirkjunnar áður en maður skráir sig úr henni fer í Guðfræðideild HÍ eftir að maður skráir sig úr henni.
Afhverju ? Spurði ég. Og hækkaði róminn “Afhverju í ósköpunum?”
Við vorum hissa, reiðir og fannst við hafa verið teknir ósmurt í bossann af stjórnvöldum.
Allt í einu poppaði hugmynd upp í loftið. Afhverju ekki að stofna nýtt trúfélag ? Þar sem fólk sem í staðinn fyrir að skrá sig úr þjóðkirkjunni getur skráð sig í það, og þar með fer skatturinn til þess. S.s. okkar.
Við hugsuðum þetta vitanlega ekki í gróðaskyni heldur var hugmyndin að þá gætum við persónulega séð til þess og vitanlega gert það opinberlega að þessi 2% af sköttum rynnu beint til góðgerðamála óskertur.
Það er hugmyndin, stofna trúarbrögð sem fólk getur skráð sig í. T.d. “Trúleysingjafélagið”. Þar með greitt skattinn sinn beint í góðgerðamál í staðinn fyrir að annaðhvort mennta presta og eða borga prestum til þess að predika yfir fimm sálum nokkra sunnudaga á ári og láta fólk byðja fyrir fólki sem á bágt. Frekar gera eitthvað beint til að hjálpa fólki með peningum sem er eina raunsæja hjálpin sem almenningur getur veitt bágstöddu fólki.
En svo þar sem við erum tímafrekir menn og virðumst ekki enn hafa komið þessu í verk þá ákvað ég að biðla til netverja, hér og annarstaðar til að koma þessari hugmynd í verk. Því það skiptir ekki máli hver gerir það, Bara að það verði gert !
Takk fyrir,
Kveðja Unnar Geirdal.