Lögreglan
Saving Iceland hefur upp á síðkastið haldið fjölda ráðstefna, kynningarfunda, mótmælaganga og annarra atburða til að vekja athygli á þeim framkvæmdum sem ríkisstjórnin telur nauðsynlegar fyrir Ísland. Lögreglan hefur brugðist hart við og beitt einkar sniðugum aðferðum við að gera málsstað þeirra ótrúverðugan. Því er haldið fram að fólkið hafi látið ófriðlega og það rökstutt með handtökum. Ef einhver var handtekinn, þá hefur hann jú verið að gera eitthvað ólöglegt, ekki satt?

Fjölmiðlar
Það er nefninlega þannig að fólk trúir flestu því sem ákveðnir aðilar segja þeim. Þessir aðilar eru fjölmiðlar, lögreglan og ríkisstjórnin (með hjálp fjölmiðla). Ef fréttin segir “til lukku slösuðust aðeins fimm manns” er fólki léttara um hjartað en ef það les “fimm manns liggja á gjörgæslu, illa haldnir”. Ef lögreglan segir að fólkið “lét öllum illum látum og ekki var um annað að velja en að taka 3 höndum til að koma í veg fyrir uppþot” hljómar það öllu betur en ef því er haldið fram að “fólkið mótmælti friðsamlega þegar lögreglan birtist og barði niður þrjá mótmælendur án sjáanlegrar ástæðu”. Það skiptir ekki máli hve ótrúleg sagan er, ef hún kemur frá rétta aðilanum.
Steingrímur J. Sigfússon varð illa fyrir barðinu á þessu lögmáli þegar hann, grunlaus um afleiðingarnar, sagði að hann væri fylgjandi auknu eftirliti með barnaklámi hjá íslenskum hýsingaraðilum á netinu. Þegar Egill spurði hann hvort þessi eftirlitssveit yrði einhvers konar netlögregla jánkaði Steingrímur. Hann hafði vart sleppt orðinu þegar ruslahaugurinn visir.is, sem þekktur er fyrir einart hatur á Vinstri-Grænum, hafði slegið upp fréttinni “Netlögregla Steingríms”, þar sem var skrifað (tvisvar, hvernig sem á því stóð) að Steingrímur myndi stofna netlögreglu um leið og hann yrði kosinn. Fólk svaraði fréttinni í offorsi, þetta voru ógurlegar fréttir. Það var ekki að furða, netverjar eru hræddir um frelsi sitt og verja það sem augastein sinn. Enda ekki að furða: í öllu hjalinu um netlögreglu í fréttinni hafði gleymst að minnast á hvað hafði raunverulega átt sér stað. Þessi heilaþvottur fjölmiðla sást best á frétt sem birtist skömmu síðar um menn sem höfðu verið handteknir fyrir vörslu barnakláms og birtingu þess á íslenskum vefsíðum. Þar var lögreglu hrósað í hástert. Allt gleymt um hina ógnvænlegu netlögreglu.

Ríkisstjórnin
Nokkrar fullyrðingar hafa gloprast úr forsvarsmönnum þjóðarinnar síðustu vikur, mánuði og ár, sumar lygar, sumar í mótsögn við fyrri fullyrðingar. Það er áhugavert að sjá hvað hefur verið sagt og hvað gert, og hver er sannleikurinn á bak við fullyrðingarnar.

“Við þurfum álver.”
“Við styðjum við bakið á nýsköpun.”
“Við viljum efla íslenskt atvinnulíf.”
“Umhverfissinnar skapa ekki störf.”

Það er ekkert leyndarmál að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru hallir að stórum bandarískum álframleiðendum, alveg eins og þeir eru hallir að stórum bandarískum ríkisstjórnum. Talsmenn flokkanna eru augsýnilega tilbúnir að gera ýmislegt til að fá þá hingað til lands, og planta niður nýjum afkvæmum á ólíklegustu stöðum. Þeir gætu jafnvel logið að fólkinu sem skipaði þeim í embætti.
Við þurfum ekki álver. Það er ekki atvinnuleysi á Íslandi. Það eina sem við höfum hér er þensla. Úr henni þarf að draga, og í hana bætist þegar álver eru byggð. Stefnan sem viðskiptalífið á Íslandi tekur ber með sér sama mynstur og viðskiptalífið í Bandaríkjunum rétt áður en kreppan hófst. Og atvinnuleysi? Ekki aldeilis. Á Íslandi er ekki atvinnuleysi, og það sést best á þjóðerni þeirra sem eru fengnir til að smíða virkjanir og álver, sem áttu að vera hinn mikli bjargvættur hinna atvinnulausu Austfirðinga.
Bæjarfógeti Ísafjarðar hélt því nýlega fram í Blaðinu að umhverfissinnar skapa ekki störf. Þetta er ekki lygi, en þetta er ekki satt heldur. Umhverfissinnar hafa bent á ótal fyrirtæki sem Ísland gæti byggt afkomu sína á. Það hafa Vinstri-Grænir einnig gert þegar þeir gagnrýna stóriðjustefnu. Íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem hefur fundið upp blöndunga sem ganga við hvaða farartæki og eldsneyti sem er og minnka mengun þess um allt að 80% er að flytja úr landi vegna slæmra skilyrða hér á landi fyrir þess lags starfsemi. Samningur um framleiðslu tugþúsunda blöndunga liggur fyrir undirritaður, en gróðinn sem hlýst af honum verður íslenskum efnahag ekki til góðs ef fyrirtækið flyst út. CCP, framleiðendur EVE-Online hafa einnig leitað til erlendra ríkisstjórna vegna mögulegra flutninga. Sá hroki íslenskra stjórnvalda að segja að nýsköpun sé framtíðin og að umhverfissinnar skapi ekki störf er óskiljanlegur.

Og ef fólk vill meina að Samfylkingin hafi áform um að draga úr stóriðju þá er auðvelt að færa sönnur á andstæðuna. Össur Skarphéðinsson sagði í útvarpsviðtali fyrir skömmu að lausnin við samdrætti þorskveiða væri að smíða fleiri álver.

Landsvirkjun
Inni á kaffistofu starfsmanna sumarvinnu Landsvirkjunar í Búrfelli hangir spjald sem á stendur “Umhverfisstefna Landsvirkjunar”. Það er erfitt að leggja allan textann á minnið, en sé hann lesinn yfir er augljóst að þetta plagg var eingöngu samið í yfirhylmingarskyni, rétt eins og umhverfismat fyrir virkjanir.
Eftir mútumálið í Flóahreppi, þegar átti að neita Landsvirkjun um Urriðafossvirkjun, kom annað óhuggulegt mál upp á yfirborðið.

Við vesturbakka Þjórsár í Flóahreppi, rétt fyrir ofan Urriðafoss, er 60 hektara jörð. Fyrir nokkrum árum keyptu hana þýsk hjón. Þá þegar var Landsvirkjun með virkjunina á prjónunum, þótt minna hafi borið á henni í fjölmiðlum en núna. Landsvirkjun fer nefninlega þannig að að virkjanir eru skipulagðar í 30 ár án afskipta almennings, svo eru þær í flýti byggðar áður en nokkur fær tækifæri til að mótmæla framkvæmdunum. Hvað sem því líður, þá keyptu hjónin jörðina, óafvitandi af yfirvofandi framkvæmdum. Einn góðan veðurdag, skömmu eftir að þau höfðu flust þangað, kom til þeirra lögfræðingur sem sagðist geta hjálpað þeim í þeirri lagaflækju sem fælist í öllum leyfisveitingum fyrir jarðborunum og athugunum og svo seinna vatnsréttindasölu á landinu, og öllu þar að lútandi. Þetta land, auk hússins þeirra á landinu, er nefninlega í þeirri sérstöðu að hafa ekki selt vatnsréttindi sín, og það er eina húsið sem fer undir vatn verði fossinn stíflaður.
Lögfræðingurinn sagði þeim að Íslendingar væru á einu máli að þessa virkjun ætti að byggja. Þeirra andstaða yrði ekki vel séð. Þau sáu sig nauðbeygð til að vera samvinnuþýð við Landsvirkjun.
Fyrir nokkrum vikum síðan kom svo allur sannleikurinn á yfirborðið. Íslendingar voru hreint ekki allir fylgjandi þessum virkjunum, íbúar í Flóahreppi voru hreint ekki ánægðir með þær og síðast en ekki síst, lögfræðingurinn sem hafði sagt þeim allar lygarnar var ekkert annað en launaður starfsmaður Landsvirkjunar.

Hjónin áætla nú að höfða skaðabótamál á hendur Landsvirkjun fyrir landrask, og er nú verið að athuga hverju þau höfðu gengið að áður en þau komust að hinu sanna.

Sannleikurinn
Það er augljóst að ríkisstjórnin hefur engan áhuga á að upplýsa almenning um sannleikann að baki eigin hugmyndafræði, aðgerðum ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar og lögreglunnar. Íslensk dagblöð eru engu líklegri til að segja okkur eitthvað af viti. Viljum við vita sannleikann þurfum við að komast að honum á eigin rammleik.