Nýjasta tískuorðið í dag er tungutækni.
Þar er t.d. verið að tala um að kenna tölvum að tala og skilja íslensku.
Þetta er vissulega mikilvægt mál en er flest ekki komið í notkun ennþá.

Það sem Menntamálaráðuneytið er að gera á sviði tækninnar, sem nýtist Íslendingum í dag, er að kaupa aðgang að Britanica Online og fleiri alfræðisöfnum fyrir alla Íslendinga.
Flestar þær upplýsingar sem þar er að finna er einnig hægt að nálgast ókeypis annar staðar nema þær sem eru það sértækar að mjög fáir þarfnast þeirra.
Auk þess kunna Íslendingar ekki, eða hafa ekki áhuga á, að nýta sér þetta.
En samt sem áður er Menntamálaráðuneytið að borga þó nokkrar upphæðir í þetta.

Fyrir stuttu var opnaður vefurinn ordabok.is. Þar er að finna íslensk-enska og ensk-íslenska orðabók.
Það kom mér á óvart hvað vefurinn er vel uninn og þar er t.d. hægt að fletta upp hvernig orð eru beygð og þarna er líka æfingasíða fyrir enskar sagnir.
Þessi vefur er opinn öllum í ca. mánuð en svo mun aðgangur kosta um 2.500 kr á ári.

Íslendingar eru með duglegri þjóðum að nýta sér netið, jafnt ungir sem aldnir. Þar er vissulega heilmikið efni á íslensku en svo miklu meira á ensku. Væri ekki ráð að eyða þessum peningum, sem fara í Britanicu, í að veita Íslendingum aðgang að almennilegri orðabók svo við getum nýtt okkur allt það enska efni sem finna má á netinu til fulls, og stuðlað að því um leið að vernda tungumálið okkar.

Þótt svo að þessi vefur sé mjög vel gerður þá á ég ekki von á því að margir íslendingar nenni að standa í því að sækja um áskrift, jafnvel þótt upphæðin sé ekki há fyrir allt árið.

Það er allavega ekki góð reynsla með áskriftarvefi á Íslandi.

Skorum á Menntamálaráðuneytið að veita okkur aðgang að tungutækni sem nýtist í dag.

Kveðja,
Ingólfur Harri