Ég var að spá í að taka mér spólu í kvöld. Þar sem myndin sem að mig langaði að sjá var ekki inni á videoleigunni sem að ég versla venjulega við þá ákvað ég að fara í Videoheima í Lágmúla og athuga þar. Var hvort eð er að fara að versla eitt og annað fyrir konuna í 10-11.
Viti menn myndin mín var inni. Ég hef ekki verslað í Videoheimum frá því að ég flutti úr Háaleitishverfinu fyrir 7 árum síðan. Ég var því ekki viss hvort að ég væri skráður í tölvukerfi þeirra.
Ég byrja á því að velja slatta af góðgæti til að háma í mig á meðan ég horfði á myndina. Þegar kemur að því að leigja myndina þá er ég spurður um kennitölu og læt konuna sem var að afgreiða mig fá hana. Þá kemur í ljós að ég skulda 300kr (þrjúhundruð) frá árinu 1997.
Ég er ekki tilbúinn að samþykkja það og bið um að fá að sjá hvar ég hef samþykkt þessa skuld og hvort að þau eru viss um að ég hafi í raun tekið spólu hjá þeim 1997. OK ég veit að ég er erfiður viðskiptavinur en svona er það, þetta var líka meira í gríni sagt en hitt. Ég meina að skulda 300 kall frá 1997 er nú bara djók. Ég spyr konuna hvort að ekki sé hægt að fella þetta niður því að ég væri nú að versla fyrir umtalsvert meira en 300 kr og ég hefði ekki hugsað mér að borga þessa skuld. Hún sagði við mig að allar skuldir væru gildar og ég fengi ekki að taka spólu án þess að borga þessar skitnu 300 kr (nú var farið að fjúka í mig). Í stað þess að rífast eitthvað frekar í henni þá þakkaði ég bara pent fyrir mig og gekk út. Án þess að taka spólu og án þess að kaupa nokkuð af því sælgæti sem að ég var búinn að taka saman. Ég hreinlega skildi allt eftir á borðinu og labbaði út.
Nú spyr ég: Eru viðskiptin sem að ég var að koma með núna ekki meira virði en 300 kr? Ef að ég hefði tekið spólu þarna í kvöld, er ekki hægt að bóka það að ég kem þarna inn í það minnsta einu sinni aftur? (til að skila spólunni þá) og ef að mér hefði líkað leigan og þjónustan þá hefði getað verið að ég hefði komið þarna aftur og aftur.
Ég veit að ég er ekki skemmtilegasti kúnni í heimi þegar það kemur að þjónustu. Ég vill fá þjónustu og ef að það er gengið á minn hlut eða mér finnst það, þá get ég verið hundleiðinlegur. En hvað var manneskjan að pæla. Ég mun aldrei, ALDREI, stíga svo mikið sem fæti inní þessa leigu aftur. Allt útaf 300 kalli.
Hvað finnst ykkur um þetta?
Nóg í bili…
Xavier
P.S. Ég er heima núna spólulaus að láta alla vita hvað ég upplifði í kvöld í VIDEOHEIMUM í Lágmúla í stað þess að njóta þess að horfa á Brother. Næst nota ég www.netvideo.is (verst að þeir eru búnir að loka núna, loka víst klukkan 24:00)