Allir sem heyra vilja hafa nú heyrt af skyndilegri skoðanabreytingu sveitarstjórnar Flóahrepps eftir fund með Landsvirkjun 16. júní. Margs kyns samsæriskenningar hafa þróast í kringum þetta mál síðan.
Fyrir þá sem ekki vita um hvað málið fjallar, þá hafði sveitarstjórn Flóahrepps samþykkt drög að aðalskipulagi 13. júní síðastliðinn þar sem ekki var gert ráð fyrir Urriðafossvirkjun, þ. e. a. s. virkjun í Þjórsá þar sem Urriðafoss yrði þurrkaður upp. Landsvirkjun rauk upp til handa og fóta og kallaði Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, sveitarstjórnina á fund strax á föstudeginum. Eftir fundinn hafði sveitarstjórnin skyndilega skipt um skoðun: tvær tillögur skyldu kynntar á íbúafundi, önnur gerði ráð fyrir virkjuninni, hin ekki. Hvers vegna, eftir að hafa lýst því yfir að virkjunin væri sveitarfélaginu ekki til góða, ætti sveitarstjórnin að skipta svo skyndilega um skoðun?
Margrét Sigurðardóttir, sveitarstjóri í Flóahreppi, sagði að Landsvirkjun hefði á þeim fundi reifað alla þá hluti sem þeir gætu gert ef sveitarstjórn yrði þeim ekki hliðholl.
Ástæða þess að virkjunin var ekki álitin Flóahreppi hagkvæm í fyrsta lagi var sú að Flóahreppur er ekki á “gróðahlið” árinnar, það er þeirri hlið þar sem mannvirki henni tengd eru staðsett. Byggingarnar verða á austurbakka árinnar, eins og á við um Hvammsvirkjun, þá efstu af hinum 3 virkjunum sem skipulagðar eru.
Annað dularfullt dæmi um eftirlátssemi sveitarstjórna er í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, þar sem Hvammsvirkjun skal byggð, en byggingar verða þar sem sagt “hinum megin” við ána. Samt er hreppsnefnd hinna sameinuðu hreppa þögul sem gröfin um álit sitt á virkjuninni, en mótmæli hennar við baráttufund gegn virkjunum í Neðri-Þjórsá segja allt sem segja þarf. Landsvirkjun hefur nú þegar reist Búrfellsvirkjun ofar í Þjórsá, og tekjur hreppsins af henni eru verulegar. Þar hefur Skeiða- og Gnúpverjahreppur miklu að tapa.
Ef þessar þrjár virkjanir verða byggðar mun maður varla komast upp með Þjórsá frá neðstu brúnni yfir hana og upp með henni alla leið til Búrfells án þess að sjá lónið frá síðustu og næstu virkjun blasa við. Yfirlitsmynd af hinum nýju þremur virkjunum er hér. Búrfellsvirkjun er svo þar fyrir ofan.
Eins og sjá má á þessari mynd þarf að leggja nýjan þjóðveg yfir fjöllin fyrir ofan lón Hvammsvirkjunar, vegna hins nýja gulleggs Landsvirkjunar. Að þessum staðreyndum gefnum sé ég aðeins eina útskýringu á vilyrðum forráðamanna sveitafélaganna fyrir þessum framkvæmdum, og ég ætla ekki að þegja yfir þeim eins og alþingismenn, sveitarstjórnarmenn, hreppsnefndarmenn og forstjórar: hótanir og mútur.
Svo er bara að velta fyrir sér hvort maður treysti þessu fyrirtæki fyrir Íslandi.
Megi íslensk náttúra blómstra á rotnum viðskiptaháttum Landsvirkjunar.