Bandaríkin og umheimurinn Ég var að skrifa ritgerð í sögu um Bandaríkin.
Og svona fyrst ég er búinn að skrifa hana þá er ágætt að leyfa henni að fljóta hingað.

NB: Þetta er skrifað fyrir tæpri viku síðan, áður en talíbanar lögðu á flótta.

Kveðja,
Ingólfur Harri

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

BANDARÍKIN OG UMHEIMURINN

Í september síðastliðnum urðu Bandaríkin fyrir áfalli…tvisvar.

11. september síðastliðinn var fjórum farþegaþotum rænt í Bandaríkjunum og breytt í fljúgandi risasprengjur. Tveimur þotum var flogið á tvíburaturnana frægu í New York, the World Trade Center (WTC) og einni á Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna í Woshington, the Pentagon.

Metnaðarfyllsta takmarkið mistókst hins vegar eins og einn fréttamaður CNN komst að orði en það var að granda flugvél forsetans. Fjórða vélin fórst eftir að farþegar reyndu að yfirbuga flugræningjana.

Þetta varð gríðarlegt áfall fyrir bandarísku þjóðinna. Engum hafði dottið það í hug að nokkur mundi gera svona lagað enda var það ekki fyrr en seinni vélin lenti á WTC að fólki varð ljóst að þetta hefði verið viljaverk.

Langflestir íbúar jarðarinnar fordæma árásirnar á WTC og fyrstu klukkutímana kepptust ráðamenn heimsins við að lýsa yfir samúð sinni með Bandaríkjamönnum.

En samúðarkveðjurnar voru varla þagnaðar er Bandaríkjamenn fengu annað áfall. Umheimurinn var farinn að velta því fyrir sér hvort utanríkisstefna Bandaríkjanna hefði ollið þessum árásum. Þetta þótti Bandaríkjamönnum, sem eru vanir því að vera góðu gæjarnir, ekki gott að heyra.



Eins dauði er annars brauð.

Bandaríkin tóku við af Evrópu sem leiðandi afl á 20. öldinni. Það voru helst heimsstyrjaldirnar sem ollu því. Evrópa, sem hafði verið ráðandi afl í byrjun aldarinnar og vagga iðnbyltingarinnar, var tvisvar lögð í rúst. Í seinna skiptið var hún svo illa farin að hún þurfti öfluga hjálp frá Bandaríkjunum til þess að rísa upp úr húsarústunum.

En um leið og Bandaríkin styrktu Evrópu með Marshal aðstoðinni þá styrktu þeir um leið sjálfan sig með því að koma koma bandarískum vörum og menningu til Evrópu.

Bandaríkin voru orðin stórveldi 20. aldarinnar. Lengi vel kepptu Sovétríkin um þann titil en var þó aldrei nálægt honum.



Bandaríkjamenn eru stoltir af landinu sínu. Þeir telja sig fánabera frelsis og lýðræðis í heiminum og eru sífellt að verja þessi gildi út um allan heim.

Raunin hefur þó verið önnur ef litið er á utanríkisstefnu þeirra. Þeirra meigin markmið eru fyrst og fremst eigin hagsmunir. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt en það sem talist getur óeðlilegt eru völd þeirra til þess að fylgja eftir þessum markmiðum.

Eftir Heimstyrjöldina síðari hafa Bandaríkin verið upptekin af því að skipta sér af stjórnun landa út um allan heim. Þar hafa frelsis- og lýðræðissjónarmið ekki endilega ráðið för eins og sjá má á þátttöku Bandaríkjanna í valdaráni Pinochets í Chile árið 1973[1].

Það má í raun segja að hvergi séu átök í heiminum þar sem Bandaríkjamenn hafa ekki valið að styrkja þann aðila sem þeir telja að geti hjálpað þeirra hagsmunum. Það er helst Afríka sem Bandaríkjamenn hafa lítinn áhuga á.

Stór hluti í ákvörðunartökunni um hvern ætti að styðja hvar réðist af kaldastríðshagsmunum. Þess vegna studdu þeir talíbana og liðsmenn Norðurbandalagsins í stríðinu við Sovétmenn[2].

En það er ekki bara Kaldastríðið sem hefur haft áhrif á stefnu Bandaríkjamanna. Það sést best á því að eftir að Kaldastríðinu lauk héldu Bandaríkjamenn áfram að styðja talíbana. Og hvers vegna gerðu þeir það? Ekki eru talíbanar þekktir fyrir að vera frjálshyggjumenn né lýðræðissinnar. Aðalástæða þess að Bandaríkjamenn studdu talíbana um miðjan 10. áratuginn voru tilraunir olíufyrirtækisins Unocal til þess að byggja olíuleiðslu sem liggja átti í gegnum yfirráðasvæði talíbana í Afganistan[3].

Það eru ekki atriði eins og frelsi, lýðræði né mannréttindi sem ráða stefnu Bandaríkjanna í Austurlöndum nær. Það eru viðskiptahagsmunir.

Það er almennt álit á vesturlöndum að Bandaríkjamenn hafi komið Kúveitum og Sádum til bjargar fyrir um 10 árum. En meðal Arabaríkja er litið svo á að Bandaríkjamenn hafi verið að bjarga kúveisku og sádiarabísku konungsfjölskyldunum[4].

Það er þessi munur sem bandaríska þjóðin er að gera sér grein fyrir núna. Þeir eru að sjá það að í augum araba eru þeir ekki þessi góða alheimslögga.

Einn bandarískur blaðamaður uppgvötaði það í umræðuþætti hjá BBC að austan hafs var þó nokkur óánægja með utanríkisstefnu Bandaríkjanna og jafnvel að hún ætti meiri sök á árásunum en bin Laden sjálfur.

Eftir þáttinn fór hann og kynnti sér afstöðu evróskra blaða og komst að því að þrátt fyrir samúð með fórnarlömbum þá gagnrýndu mörg þeirra Bandaríkin harkalega.[5]



Meira en fjárlög íslenska ríkisins

Annað atriði sem aflar Bandaríkjamönnum lítilla vinsælda í Austurlöndum nær er stuðningur þeirra við Ísrael. Á hverju ári styðja Bandaríkjamenn Ísraela um 3 milljarða bandaríkjadala, um 300 milljarða íslenskra króna, en það er hærri upphæð en velta íslenska ríkisins.

Völd gyðinga í Bandaríkjunum eru talin aðalástæða þess að Bandaríkjamenn styðja Ísrael, en það kann að breytast núna eftir árásirnar. Almenningur er í það minnsta að verða meðvitaðri um ástandið.

Sumir eru á því að vandamálið leysist ekki fyrr en Bandaríkjamenn hætti stuðningi við Ísrael. Einn hlustandi Talking Point á BBC[6] (eins konar alheimsútgáfa af Þjóðarsálinni), Cindy Lu Webber frá Seattle, sagði „Við héldum að við værum að styðja frelsi, en ég held að ég hafi ekki gert mér grein fyrir því skattpeningarnir mínir færu í það að styðja tudda.”

Gestur í sama þætti, Ghada Karmi hjá Bresk-arabíska ráðinu (Council for the Advancement of Arab British Understanding), sagði að þrátt fyrir að Bill Clinton hefði mikið reynt að koma á friði þá hafi hann alltaf verið hálf fatlaður í afstöðu sinni þar sem stjórnin studdi annan aðilann. Því hafi hann aldrei getað tekið hlutlaust á málinu.

Aðrir segja að ef Arafat vildi í rauninni frið þá væri friður fyrir löngu kominn á. Hann eigi einfaldlega að stöðva hryðjuverkin.

En ástandið er fyrir löngu komið í vítahring. Sífellt er verið að hefna fyrir aðgerðir andstæðingsins og morð Ísraelsmanna eru engu minni hryðjuverk þó þau séu framkvæmd í gegnum leyniskytturiffla úr 500 metra fjarlægð eða bandarískum þyrlum.

Það er heldur ekkert skrítið að óvild gegn Bandaríkjunum sé ríkjandi þegar þeir lesa af sprengibrotum í húsarústum „MADE IN THE USA”[7].



Engar friðarviðræður fyrr en friður kemst á

Ástæðan fyrir því að deilan um Ísrael er í hnút er auðvitað sú að báðir aðilar eru með grundvallakröfur sem hinn aðilinn getur ekki sætt sig við. Einnig gera öfgamenn í báðum fylkingum friðarviðræðum erfitt fyrir.

Fyrir mitt leiti þá styð ég Palestínuaraba. Eftir því sem ég best veit þá munu þeir sætta sig við það landsvæði sem SÞ úthlutuðu þeim við stofnun Ísraels ef að flóttamenn geta snúið úr flóttamanna búðum.

Ég held líka að það séu hagsmunur vesturlanda að leysa málið sem fyrst þar sem nú eru þarna kjöraðstæður til þess að rækta upp hatur gegn vesturlöndum, sérstaklega þegar fjöldi fólks hefur búið allt sitt líf í flóttamannabúðum og kennir vesturlöndum um það.

Það er líka eitt sameiginlegt með öðrum átakasvæðum þar sem stundaðar eru hryðjuverkaárásir en það er tregi hins ríkjandi aðila til þess að hefja friðarviðræður fyrr en friður kemst á.

Þetta er auðvitað fáránleg krafa þar sem friðarviðræður eru óþarfar þar sem friður ríkir.



Áttu Bandaríkin þetta skilið?

Það á ekkert land skilið að ráðist skuli á óbreytta borgara þess. Alveg sama hvað stjórn þess hefur gert af sér.

Árásin á WTS hefur haft áhrif á alla heimsbyggðina og magnað upp þá kreppu sem er að skella á hin vestræna heim. Samúð jarðarbúa er með fölskyldum fórnarlambanna.

Það breytir því samt ekki að Bandaríkjastjórn hefur hagað sér illa í alþjóðastjórnmálum og er ekki hötuð af ósekju.

Þó svo bandaríska þjóðin sé nú að vakna upp við vondan draum og gera sér grein fyrir ástandinu þá er stjórnin enn söm við sig og heldur áfram að leika alheimslöggu með sitt tvöfalda siðferði.



Öryggi óbreyttra borgara.

Maður hefur lært það af bandarískum kvikmyndum að mannslíf eru metin á mismunandi hátt. Þegar gíslar eru teknir þá er skýr flokkun á mannslífum. Ef gíslarnir eru hugsanlega í hættu þá er glæpamaðurinn umsvifalaust skotinn við fyrsta tækifæri. Líf gíslanna er metið hærra en líf lögreglumanns. Það er (samkvæmt boðskap bíómynda og væntanlega almennings) „skárra” að lögreglumaður láti lífið við skildu sína en að óbreyttur borgari, sem lendir óvart í þessum aðstæðum, látist.

En þegar staðan er heimfærð upp á hryðjuverkamenn í þriðja heiminum þá virðist stefnan vera sú að kasta handsprengju inn í herbergið og vona að gíslarnir bjargist.

Líf bandarísk hermanns er hvað mest virði þessa dagana.



Alheimslöggan

Eins og áður segir þá hafa Bandaríkin tekið að sér hlutverk alheimslöggu. Þeir hafa krafist sjálfdæmis og ætla sjálfir að framfylgja dómnum. Það skrítna er að enginn mótmælir þessari stefnu frægasta réttarríki heims.

Jafnvel þegar George W. Bush tekur sér það vald að geta fyrirskipað morð á hverjum sem er þá heyrist ekki múkk frá hinum siðaða heimi.

Það lítur út fyrir að það þori enginn að mótmæla honum. Enda sagði hann að þjóðir heims væru annað hvort með honum eða með hryðjuverkum.



Hvar stend ég

Mér hefur aldrei líkað vel við Bush en vegna viðbragða sinna við árásunum á WTC þá hefur álit mitt á honum snarversnað.

Hann hefur nefnilega fengið mig til þess að vorkenna þeim sem ég hef hina mestu viðurstyggð á, talíbönum.



Ég tel mig skilja af hverju bin Laden hatar Bandaríkin en hvorki það né nokkuð annað réttlætir árásirnar á WTC. Viðbrögð Bandaríkjastjórnar eru hins vegar röng. Og tvö röng gera ekki eitt rétt. Aðgerðir gegn hryðjuverkum hefðu þurft að fara í gegnum SÞ og inn í þeim aðgerðum hefði þurft að taka á öllum hryðjuverkum. Líka þeim sem framin eru í Ísrael, Írlandi og Spáni.

Svo ætti að breyta lögum um stríðsglæpadómstólinn í Haag svo hann gæti tekið á hryðjuverkamönnum, en það mundi Bush líklega aldrei sætta sig við.







——————————————————————————–

Heimildaskrá:



[1] Encarta: Chile: U.S. Releases Once-Secret Documents on Pinochet Regime

http://encarta.msn.com/find/UpdateMax.asp?pg=5&idx=1086500581

12.11.2001



[2] Encarta: Afghanistan

http://encarta.msn.com/find/Concise.asp?z=1&pg=2&ti=761569370&cid=97#p97

12.11.2001



[3] The Sydney Morning Herald: Control of Central Asia's oil is the real goal

http://www.smh.com.au/news/0110/25/world/world9.html

12.11.2001



[4] Newsweek - U.S. Edition: The Politics of Rage: Why Do They Hate Us?

eftir Fareed Zakaria

15.10.2001



[5] Newsweek - Newsweek Web Exclusive: American Beat: Blaming a Victim

eftir Gersh Kuntzman

http://archives1.newsbank.com/newsweek

17.10.2001



[6] Talking Point

BBC World Service

11.11.2001

http://news.bbc.co.uk/hi/english/talking_point/newsid_1630000/1630866.stm



[7] Newsweek - Atlantic Edition: Made in the USA, Used in The West Bank and Gaza

eftir Fareed Zakaria

13.08.2001