Í Ástralíu fóru í dag fram þingkosningar þar sem flokkur John Howards vann með þó nokkrum mun. Flokkur þessa manns var valdur því að neita flóttafólki um búsetu í landinu fyrir nokkrum mánuðum vegna þess að almenningur vildi ekki fá fleiri innflytjendur inn í landið frá Asíu! Flokkurinn vildi ekki tapa fylgi fólksins og neitaði því þessu flóttafólki um mannréttindi sín. Það er ekki ásættanlegt að fólk skuli hugsa svona en hins vegar er það nokkuð sem má bæta með opinni umræðu um þessi mál. Asíubúar hafa að mér vitandi ekki gert nokkuð slæmt í Ástralíu og er líklegt að hægt sé að kenna flokknum Einni Þjóð um þetta hatur Ástrala á fólki af öðrum uppruna en sá ómyndarflokkur var á síðasta kjörtímabili þriðji stærsti flokkur Ástralíu.
Flokkurinn Ein Þjóð hefur alið á hatri á lituðum og haldið uppi asnalegum áróðri gegn þeim t.d. var stofnandi One Nation Party einnig stofnandi Ku Klux Klan í Ástralíu. Hann þó rekinn úr Einni Þjóð eftir að það komst upp að hann hefði stofnað Ku Klux Klan í Ástralíu, það var hins vegar aðeins gert til þess að koma til móts við fjölmiðla sem annars hefðu tengt flokkinn við fjöldamorð Ku Klux Klan á blökkumönnum í Bandaríkjunum, fyrr á þessari öld.
Í fréttum þetta kvöldið mátti sjá John Howard forsætisráðherra brosa út að eyrum fyrir að hafa unnið þessar kosningar, kosningar sem unnust á því að neita fólki um mannréttindi vegna uppruna þeirra og sendi hann margt af þessu fólki aftur út í opinn dauðann í Afganistan með þessu framtaki sínu. Talibanastjórnin í Afganistan hefur sennilega líflátið þann hluta fólksins sem var sent aftur til þeirra í refsingarskyni fyrir að flýja landið. Nýja-Sjáland og Jólaeyja tóku reyndar við helmingnum af þessum flóttamönnum eftir mikið þras og leiðindi en bara helmingnum og varla það!
Í Danmörku er einnig sami óþverri að rísa upp. Margir flokkar þar í landi vilja skerða réttindi innflytjenda á einhvern hátt og ætla að notfæra sér málefni innflytjenda til þess að vinna í kosningunum sem framundan eru þar í landi, þvílíkt og annað eins! Það er auðsjáanlegt að litið er á innflytjendur sem einhverskonar dýr sem hægt er að ráðskast með og nota þá til þess að vinna atkvæði í kosningum. Ég hef ekki vitað til þess að t.d. málefni dökkhærðra séu notuð til þess að vinna kosningar eða þá að augnalitur fólks ákveði hvort það megi koma til landsins eða ekki.
Það sem skapar svona rasisma eru oftar en ekki stjórnmálaflokkar sem þykjast vera að verja landið og vilji því allt hið besta en þegar á hólminn er komið er þetta fólk sjaldan annað en rasistar í dulargervi sem hafa sett upp dulargervið til þess að láta sjálft sig líta vel út í augum almennings þótt að á bak við grímu þessa fólks séu í raun ekkert annað en glæpamenn sem nýta sér fávisku fólks til þess að blekkja það. Fólk sem kýs svona flokka er oft það fólk sem er hrætt um sig og sína og hugsar ekki um annað en að hafa það sjálft gott á kostnað allra annara.
Langbesta leiðin til að berjast á móti þessum flokkum er sú að reyna að komast að hinu sanna um flokkana og sýna fólki fram á að hér sé ekki um neina friðelskandi föðurlandssinna að ræða heldur hreinræktaða kynþáttahatara og friðarþjófa sem kunna betur en allir aðrir að koma af stað leiðindum á milli mismunandi þjóðhópa, menningarbrota, trúarhópa og kynþátta.
Hatursáróður og óþverinn honum tengdur veldur engu nema leiðindum og upplausn samfélaga ef að hann nær til fólks og því er nauðsynlegt að byrja að vinna í því undir eins að tryggja með lýðræðislegum aðferðum að svona áróður nái ekki að breyta friðsælum samfélögum okkar í samfélög þar sem mannhatur mun ríkja. Tryggja þarf að gagnkvæm virðing ríki meðal fólks í samfélögum okkar og að allir menn njóti sömu kjara og réttinda án tilits til þjóðhóps, menningarbrots, trúarhóps eða kynþáttar.