Nú er enn komin upp sú hugmynd að kasta Krónunni og taka upp Evruna. Það á að leysa öll okkar vandamál og færa hverjum einasta Íslendingi gæfu og hamingju.
Af hverju erum við þá ekki löngu búin að þessu?
Kannski vegna þess að til þess að taka upp Evruna verðum við að ganga í ESB. Nei takk.
Auk þess verðum við að vera með efnahagsmálin í lagi.
Við verðum sem sagt að koma efnahagsmálunum í lag áður en við getum komið þeim í lag með því að taka upp Evruna!

Við skulum athuga af hverju Krónan er í “frjálsu falli”.
Ég sé ekki betur en að ástæðan felist að stærstum hluta í uppáhalds frasa kapítalistans: “Framboð og eftirspurn.”
Við sem þjóð kaupum meira af öðrum þjóðum en við seljum þeim.
Og til þess að borga fyrir það þurfum við að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir krónur.
Vegna viðskiptahallans er meira framboð á krónum en eftirspurn.
Sumir halda að áver bjargi málunum en ég byð þá um að leita betur.
Við erum þegar komin með álver sem eru sífellt að stækka og það vita það allir hlutabréfabraskarar að það er ekki sniðugt að veðja öllu á einn hest.
Helst vil ég sjá mörg meðalstór fyrirtæki sem eru að framleiða vörur en ekki hráefnaverksmiðjur sem þurfa helst að þær stærstu í Evrópu til þess að ná hagnaði.
En þetta átti nú ekki að verða pistill um stóriðjur.

Til þess að stöðva fall krónunnar og sívaxandi verðbólgu verðum við annað hvort að kaupa minna eða selja meira, nema hvort tveggja sé.

Töfralausnir eins og að taka upp Evruna leysa þetta ekki. Við verðum að leysa þetta sjálf og þar er ég að tala um mörg svið.

Fyrst þarf að laga fiskveiðikerfið. Stofninn er sífellt að minnka. Talað hefur verið um að vísindamenn Hafró séu óhæfir, en ég sé ekki hvernig þeir ættu að geta komið með réttar tölur þegar svona stórum hluta fisks er drepinn og hennt aftur í sjóinn.

Lækka verður skuldir landsmanna. Ríkisstjórnin hefur mikið hrósað sér fyrir að hafa greitt upp stóran hluta af skuldum ríkissjóðs. Og hvernig hafa þeir gert það? Jú með því að selja gróðafyrirtæki og hagræða. Og í hverju er hagræðingin fólgin? Í því að láta aðra borga!
Á meðan hafa heildarskuldir landsmanna stóraukist.
Eru það ekki sjálfstæðismenn sem eru alltaf að tala um að taka verður skuldir heildarinnar?

Laga þarf skattamálin, STRAX!
Ég er ekki að segja að fyrirtæki eigi að vera skattpínd en mér sýnist nýjustu breytingar hellst vera til þess fallnar að umbuna þeim er standa best.
Ég hef alla vega ekki séð stórfyrirtæki í röðum til þess að komast hingað. Með þessa efnahags(ó)stjórn þá mundu þau örugglega ekki þora að koma þó svo að skattur á fyrirtækjahagnað yrði lagður niður.

Mér finnst það alla vega ekki sanngjarnt að ég þurfi að borga hærri skatta en Jónar Ólafssynir landsins. Þess vegna þarf að gjörbreyta kerfinu.

Við þurfum að mennta þá sem vilja læra svo að þeir skapi verðmætari framleiðslu. En eins eigum við ekki að “neyða” alla í gegnum stúdentspróf.

Við þurfum að skapa fjölbreytta atvinnu sem skapar verðmæti.

Við eigum að athuga vel hvort hægt sé að vetnisvæða flotann og spara með því olíuinnkaup. Eins þurfum við að reyna að nýta innlenda orkugjafa á bílaflotann okkar. Ég sé ekki að nokkuð sé að gerast í þessum málum.

Ef okkur tækist þetta tvent þá ættum við að geta aukið eitthvað álframleiðslu án þess að vera með einhver séákvæði um gróðurhúsamengun.

Ég á ekki von á því að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn fari að gera eitthvað sniðugt allt í einu núna nema kannski að “hagræða” á kostnað landsmanna. En ég veit ekki heldur hvaða flokkur geti gert þetta.
Þeir fara nefnilega flestir að hugsa um skammtímavinsældir og að tala um góðæri.

En af hverju reynum við þetta ekki. Komum þá okkar málum kannski í lag og þá loksins þegar við uppfyllum skilyrðin til þess að taka upp Evruna þá munum við ekki þurfa á því að halda.

Ég vona að ég hafi komið þessu til skila þrátt fyrir að ég er að skrifa þetta klukkan 2 að nóttu.

Kveðja,
Ingólfur Harri

P.S. Talkerz ef þú hefur ekkert að segja um þessa grein nema það sem snertir stafsetningu eða málfar þá mátt þú sleppa því að svara henni.