Þessar umræður um sölu bjórs og léttvíns í matvörubúðum, lækkun áfengisaldurins og reykingar á skemmtistöðum eru búnar að vera í samfélaginu nú í nokkurn tíma, og hef ég verið að fylgjast með þeim eiginlega frá upphafi. Þá aðallega vegna þess að þær hafa það allar sameiginlegt að ná til mín og minna jafnaldra.
Svo við byrjum á áfengisaldrinum, þá er það einn af mínum hinstu draumum að þessi aldur lækki um 2 ár. Þá á ég við að fullorðinn 18 ára einstaklingur, sem hefur fullt sjálfstæði um hvort hann giftist, stofni fyrirtæki, kaupi 300 hestafla Mustang af eBay eða flytji úr landi, eigi rétt á því að kaupa sér léttvín eða bjór fyrir giftingaveisluna sína. Annað er ekkert nema kjánalegt. Ef 18 ára einstakling langar að fá sér bjór yfir fótboltanum eða í grillveislu með vinum sínum, lætur hann ekki þetta 20 ára aldurstakmark stoppa sig.
Ég er ekki að tala um að heimila 18 ára manni að kaupa sér íslenskt brennivín, vodka eða viskí, heldur einungis léttvín og bjór. Það er satt hvað Lýðheilsustöð hefur til málana að leggja í sambandi við þroska lifrinar á þessum aldri. Þess vegna held ég að það sé í raun jafnvel hollt að byggja sig upp að tvítugsafmælinu og æfa líkamann með léttu áfengi áður en haldið er í sterkara áfengi. (Það getur verið að þetta sé kjaftæði í mér, en mér finnst þetta einhvern veginn meika sens.)
Hvers vegna að heimila ekki sölu áfengis í matvörubúðum? Auðveldar aðgengi ungmenna? Nei, því aðgengið hefur alltaf verið til staðar. Unglingar geta alveg farið inn í ríkið og skoðað sig um, án þess þó að geta keypt. Með því að fara með þetta í matvörubúðirnar finnst mér það skilyrði að starfsmaður sem er allavega 20 ára starfi á kassa fyrir áfengið. Hvað bendir til þess að starfsmenn ríkisins séu eitthvað óábyrgari en starfsmenn matvörubúða? ÁTVR mundi ennþá starfa sem sérhæfð vínbúð með meira úrvali og sterkt áfengi, svo það er enginn að tala um að einhver missi vinnuna sína, svo ég get ekki fundið neitt neikvætt við þessa breytingu.
Er það þitt val að fara inn á skemmtistaði? Jú, mjög svo. Hvað varð um frelsi til? Eiga ekki eigendur skemmtistaða sinn ákvörðunarrétt um hvort sér reykt á sinni eign eða ekki? Að takmarka rétt eigenda svona finnst mér fáránlegt. Til að koma til marks við þá sem vilja vera í reyklausu umhverfi er hægt að láta skemmtistaði setja skilti út í gluggann, “ Hér eru reykingar heimilaðar” eða “Hér eru reykingar bannaðar”. Þannig er valið fært til þín og það er þitt val hvort þú ferð inn eða ekki. Ef þú vilt ekki óbeinar reykingar, vertu úti. Ef þú vilt reykja, farðu á stað sem heimila reykingar.
Það má kannski lesa úr þessu að ég sé frjálslyndur, sem er nákvæmlega það sem ég er. Takk fyrir.