Ég ætla að miðla áhyggjum mínum með hugum, nú á þessum síðustu og verstu.
Þegar þetta er ritað er Landsvirkjun í óða önn að skipuleggja byggingu þriggja virkjana við byggð svæði í Þjórsá. Eftir að hafa sloppið með skrekkinn þegar Landsvirkjun fékkst, eftir hörð mótmæli og mótbárur hlutaðeigandi sveitafélaga, til að hætta við byggingu Norðlingaölduveitu, hafa þau strax ræst áætlun B. Norðlingaölduveita var listilega upp fundið orð yfir virkjun sem byggja átti í miðjum Þjórsárverum. Stærsta heiðagæsavarpi heims hefði þá verið sökkt undir lón sem gegndi þeim tilgangi einum að inna raforkueftirspurn álvera á Suðurlandi. Maður getur rétt hugsað sér hvað Íslendingar framtíðarinnar hefðu hugsað með sér um stolt og reisn okkar. “Og þetta er svo umhverfisráðherrann sem varð valdur að stærstu umhverfisspjöllum íslandssögunnar, og öllum var sama.”
En þessi draumsýn Landsvirkjunar var afskráð, og var því að þakka hörðum mótmælum íbúa þáverandi Gnúpverjahrepps. Skiljanlega er Landsvirkjun ekki ánægð með þetta, enda höfðu þeir veitt miklu fjármagni í kynningu Þjórsárvera sem “sandauðnar” og “nokkurra nástráa”. Sem betur fer eru Íslendingar ekki jafn heimskir og Landsvirkjun vill halda. Enn fyrirfinnst sjálfstæður vilji meðal Íslendinga, og þótt lýðveldið sé 63 ára muna sumir þeirra enn hvað lýðræði er.
Í Hafnarfirði fer senn fram kosning um þrefalda stækkun álversins í Straumsvík, en sú stækkun er forsenda byggingu fyrrnefndra virkjana. Setji Hafnfirðingar sig á móti henni sér hver hálfviti að ENGIN ástæða er fyrir byggingu virkjananna, enda vilja Hafnfirðingar ekki álverið og íbúar Suðurlandsundirlendis vilja ekki virkjanirnar. Þetta mun þó ekki standa í vegi vitgrannra ráðamanna né gróðafíkinna virkjanasinna, sem hafa þegar lýst því yfir að þá verði leitað á ný mið fyrir kaupendur orkunnar sem engin þörf er fyrir.
Nú má spyrja sig, fer einhvers konar hugsun fram í höfðum ráðamanna? Var fyrrverandi umhverfisráðherra á eiturlyfjum þegar hann felldi úrskurð skipulagsstofnunar úr gildi, sem mælti mót byggingu Kárahnjúkavirkjunar? Þá ráðamenn mútufé? Hvers vegna fá Íslendingar, sem eiga Landsvirkjun, ekki að vita neitt sem þar fer fram, hvorki um söluverð raforkunnar né ákvarðanatöku um næstu virkjanir? Hvers vegna fá eigendur Landsvirkjunar, þjóðin sjálf, ekki neitunarvald þegar taka á frá þeim náttúruauðlindirnar?
Hvorki Landsvirkjun né ríkisstjórnin hafa svarað þessum spurningum, enda ekki að furða. Sú hneykslan og brjálun í garð þeirra yrði svo yfirgengileg að enginn aðili sem ákvarðanir hefur tekið fylgjandi virkjununum fengi aftur stjórnunarstöður, hvað þá ráðherraembætti.
Þetta eru þeirra hagsmunir. Hvar eru hagsmunir okkar?