Þetta var upphaflega sent inn sem þráður en vegna nokkurra áskoranna hef ég sent þetta inn sem grein og bætt við nokkrum athugasemdum inn á milli.
Hef lengi velt þessum hugmyndum fyrir mér og ákvað nú að fá smá álit frá huga samfélaginu í sambandi við þessa þjóðaríþrótt sem við köllum slagsmál.
Þannig er það nú að fyrir ótilgreindum tíma var ráðist á náskyldan frænda minn þegar hann var að stunda skemmtanalífið í bænum. Árásin virtist vera tilefnislaus þar sem ráðist var á hann af mörgum gerendum og tekið mjög illa á honum.
Ég stoppa hérna þar sem tilgangur þessa þráðs er nú ekki að fara mikið út í verknaðinn sjálfan heldur þá sem stóðu að honum.
En áður en ég helli mér út í það þá er komið að annarri sögu af svipuðum toga.
Ég ásamt nokkrum vinum mínum vorum að skemmta okkur ásamt mörgum öðrum og erum tiltölulega nýbúnir að færa okkur niður í bæ þegar ég fæ símtal um að ráðist hafi verið á góðan vin minn sem “var í dyrunum”. Það er að segja hann var einn af þeim sem sá um að hverjum sem er væri ekki hleypt inn í húsið þar sem um var að ræða hverfispartý. Sagan var nú ekki lengri en það að það hafði komið hópur af strákum sem höfðu lítið að gera á umræddum stað þar sem þeir þekktu engan þarna inni og voru bara að leita sér að partý-i til að komast í. Að sjálfsögðu fengu þeir ekki aðgang og var þeim sagt þetta í góðu þar sem strákurinn sem var í dyrunum er mesta gæðablóð og enginn slagsmálahundur.
Boðflennurnar ætluðu ekki að sætta sig við þetta og tóku upp á því að ráðast á hann á mjög grófan hátt. Þetta var nokkuð stór hópur, um það bil 8-10 manns sem réðust á hann og fóru mjög illa með hann. Það var lítið um hjálp frá fólkinu sem var með stráknum í partý-inu þar sem það var einfaldlega of hrætt og hefði líklega lítið getað gert.
(Þess má geta að þetta var að sjálfsögðu kært eins og á að gera í svona málum. Nema það að greyið er kært á móti með einhverjum falsásökunum. Sýnir einfaldlega fram á það að þegar vanir slagsmálahundar lenda í vandræðum vita þeir nákvæmlega hvernig á að leika á þetta íslenska réttarkerfi, en það er efni í aðra grein.)
Nóg með það. Ég gæti talið upp ótal svona sögur í viðbót þar sem ráðist er á kunningja, félaga eða vini mína af stórum hópum en ég held að tvær dæmisögur séu nóg til að styðja framhaldið.
Það sem ég vil einblína á eru gerendurnir í þessum málum sem og fleirum af sama toga.
Garðbæingar.
Svo virðist sem garðbæingar séu landsþekktir fyrir að stunda þetta reglulega. Ég veit nú þegar að margir eru sammála mér í þessu en langaði að bera þetta undir aðeins stærra samfélag vegna þess að þetta er nokkuð áhugavert mál.
Til þess að hljóma ekki ósanngjarn þá þekki ég fólk sem býr í umræddu bæjarfélagi og sem betur fer tekur það ekki þátt í svona löguðu eða gerir það að minnsta kosti ekki lengur.
Það sem fékk mig til þess að setja hugsanir mínar á blað var samtal við vin minn í sambandi við þetta. Hann stóð í ströngu í svona málum en stundar þá iðju ekki lengur.
Kenningin er sú að Garðabær, er ekki þekktur fyrir neina “fátækt”. Það er að segja, upp til hópa er þetta fólk í milli eða efri stéttum sem er með eitthvað á milli handanna og þarf ekki að hafa áhyggjur af peningamálum.
Þar (að mínu mati) á hundurinn að liggja grafinn.
Ungt fólk í þessu bæjarfélagi og í þessu tilfelli sérstaklega ungir strákar/menn, þekkja engan skort. Ef að þeir hafast eitthvað að sem að telst á einhvern hátt ekki rétt eða gera eitthvað rangt af sér þá þurfa þeir yfirleitt ekki að líða fyrir það. Foreldrar þeirra einfaldlega láta það hverfa. Hvað gerist þá? Þeir læra aldrei af reynslunni. Missa einfaldlega af einum verðmætasta lærdóm sem “venjulegt” fólk upplifir í æsku. Þann lærdóm að maður getur ekki og á ekki að komast upp með það sem maður vill.
Annað góður punktur í þessari upptalningu miðast einnig út frá því að Garðabær geymi þessar “efri stéttir” okkar Íslendinga.
Unga fólkið fer í ákveðinn uppreisnarhug vegna þess að þeir búa í þessari “paradís” ef svo má að orði komast. Þeir fá löngun til að brjóta af sér á einhvern hátt. Gera eitthvað sem má ekki. Það ætlar enginn að segja mér að “ríkir” krakkar sem fá allt upp í hendurnar fái ekki löngun/langanir til þess að gera eitthvað öðruvísi sem vekur athygli á sér ef að alla tíð upplifa þau æskuna þannig að sama hvað þau geri þá laga mamma og pabbi allt með peningum eða áhrifum.
Aðalpunkturinn í þessu er að ef þessi atriði eru til staðar þá eykst löngun fólks til að brjóta af sér einfaldlega til þess að sjá hve langt og hve mikið þau komast upp með.
Það þarf ekki annað en að líta yfir dagblöðin dagsins eða fortíðarinnar til þess að sjá allann þann fjölda líkamsárása og hrottalegra gjörða sem rekja má til garðbæinga. DV, sá sorableðill hefur verið sérstaklega virkur við að benda á þetta í gegnum tíðina þó að lítið beri á því núna. Enda alveg að gefa upp öndina.
Það áhugaverða í þessu er, (að mínu mati) að oftar er að ræða um garðbæinga en tildæmis fólk úr Breiðholtinu. Það er að segja úr hinu “Íslenska Gettói” eins og margir kalla Breiðholt. Enda algjör andstæða við Garðabæ. Breiðholtið er þekkt sem “fátækrarhverfi Íslands” þó að þvert í móti sé það ekki rétt í mörgum tilfellum. Breiðholtið skiptist í mörg undirhverfi bæði flott hús sem niðurnídd. Fólk kemst ekki hjá því að viðurkenna það að það vill frekar labba í gegnum ákveðna parta af breiðholtinu heldur en aðra. En ég er ekki að einblína á Breiðholtið hérna heldur Garðabæ.
Nú spyr ég þá sem hafa nennt að lesa þennan texta yfir. Finnst ykkur ekkert vera til í þessu? Er þetta ekki nokkuð rétt ályktað hjá mér og fleirum í kringum mig að garðbæingar séu þeir sem maður forðast að “messa við” eða abbast upp á. Einfaldlega vegna orðspors garðbæinga í heildina.
Mér finnst þetta vera stórt vandamál á Íslandi í dag þar sem að mér persónulega finnst að svona lagað eigi ekki að vera liðið. Það þarf að taka á þessu á ákveðinn hátt og það hefur ekki verið gert hingað til.
Í lokin vil ég nú minnast á að þetta eru einungis pælingar hjá mér, ég hef ekkert á móti Garðarbæ í heild sína en þetta er eitthvað sem mér finnst að hafi ekki fengið nóga umræðu í gegnum tíðina.
Vona að þetta nái að vekja upp ákveðna umræðu og ég hvet garðbæinga sérstaklega til þess að ræða þetta hér að neðan. Hlakka til að sjá álit ykkar.