ég ætla að setja inn hérna smá grein sem ég gerði út af því að það var nú einu sinni fegðurðarsamkeppni hérna seinasta föstudag…
Fegurð er almennt talin afstæð og því er í rauninni ekki hægt að skilgreina hana til hlítar. Hvernig er þá hægt að dæma eina manneskju til þess að vera sú fegursta á Jörðinni? Fyrir utan þá staðreynd að hver og einn tekur ekki þátt í keppninni er ekki hægt að mæla fegurðarmagn hverrar manneskju. Ef til vill er því óraunhæft að segja til um hver sé fallegri en annar og þar af leiðandi ekki hægt að velja fegurstu manneskju í heimi.
Því til mótmælis segja sumir að verið sé að gefa þátttakendunum góða reynslu, nýja félaga og námskeið í mannlegum samskiptum. Námskeið þessi drepa á allt að því hvernig staðið er til þess hvernig mataræði er haft, stofnanir eru heimsóttar og líkamsrækt er stunduð. Meira að segja er oft kennsla í dansi, sérstaklega í fegurðarsamkeppnum kvenna. Gott er því að fá tækifæri til þess að taka þátt í námskeiði sem þessu, sérstaklega þegar þau fást frítt. Þær flíkur sem þarf að sýna og nota í keppninni fást þó ekki frítt en t.d. kjóla má taka á leigu og þá er kostnaðurinn minni. Því er mjög gott fyrir ákveðna aðila að fá kost á þátttöku í keppnum að þessu tagi þar sem það getur styrkt sjálfstraust og sjálfsímynd viðkomenda. En komast allir í fegurðarsamkeppnir?
Þeir sem standa fyrir og halda fegurðarsamkeppnir halda því fram að ekki sé dæmt eftir útlitinu heldur innrætinu. Hvers vegna eru þá almennt myndarlegar manneskjur í keppnum af þessu tagi? Tekið er fram að stúlkur þurfa að vera 1,65 m á hæð og óhreyfihamlaðar svo eitthvað sé nefnt. Er þá ekki í rauninni verið að dæma af útlitinu, vegna þess að heimsins besta manneskja gæti verið í hjólastól eða afmynduð eftir bílslys. Talsmenn fegurðarsamkeppna þyrftu því að finna sér eitthvað annað til þess að skýla sér á bak við því raunin er alls ekki sú að verið sé að dæma eftir innri fegurð. Raunin er hins vegar að verið er að stilla karlmönnum og konum upp, vigta þau og mæla og dæma þau síðan eftir fallegustu beinabyggingu hvers tíðaranda.
Þegar manneskja nær langt í fegurðarsamkeppni, öðlast hún virðingu, fær vegleg verðlaun og ýmis tækifæri. Tækifæri á borð við auglýsingar og framkomur á árshátíðum bjóðast sérstaklega titilhafa unfrú Íslands. Auk þess er auðveldara að „kippa í nokkra spotta“ fyrir fögur fljóð og fagra sveina. Af þessu má sjá að til einhvers er að vinna og því ekki einskis vert að láta á það reyna að komast áfram.
Nýlega heyrðist í samtali við ungfrú heim 2005 að hún væri orðin þreytt. Hún sagði það erfitt að þurfa sífellt að vera í góðu skapi og fín til fara. Einnig væri þrýst á hana til þess að mæta á samkomur sem hún hafði lítinn áhuga á að fara á. Þetta segir okkur ekkert annað en að spilað sé með þá manneskju sem þarf að starfa sem staðalímynd ungs fólks. Ef svo er ekki, hvers vegna er Unnur Birna Vilhjálmsdóttir þá að kvarta undan því að þurfa að mæta í matarboð sem hún vill ekki mæta í? Hún mætir þrýstingi þeirra sem vilja halda því uppi hversu mikilfenglegt er að bera titil á borð við ungfrú Ísland og heimur. Unnur Birna er staðalímynd allra ungra kvenna í heiminum og því má hún í rauninni ekki fara út af laginu því hún er best í öllum heiminum.
Flestar stelpur vilja vera fagrar og vilja því líkjast henni að öllu leyti því hún er jú best eins og áður sagði. Vill ungrú heimur hafa þessa ábyrgð á öxlum sínum og er í rauninni hægt að leggja þessa ábyrgð á einhvern? Ekki er hægt að kenna neinum sérstaklega um það þegar t.d. einhverjum ungum pilti líður illa vegna þess að hann passar ekki inn í rammann sem fegurðarsamkeppnir hafa m.a. gert. E.t.v. væri best að keppnir á borð við .is og herra Ísland væru lagðar niður því fátt gott hlíst af þeim. Einungis fáir af þátttakendunum hljóta einhverjar viðurkenningar og peningunum sem varið er í þær væri hægt að nota í margt annað betra, t.d. við byggingu bókasafna eða til að viðhalda spítala. Fólkið í heiminum er að öllum líkindum sammála um að heilsa er mikilvægari en útlit og því gætu allir sem einn tekið sig saman og lagt það mikið af mörkum til fátækra þjóða sem búið var að leggja í fegurðarsamkeppnir.