Jamm, þá hefur Rumsfeld loksins sagt af sér, og þó fyrr hefði verið. Annars þykir mér kostulegt að heyra Bush segja að „þeir hafi tekið ákvörðun saman um að það sé fyrir bestu…“ „sammála um að mikilvægt sé að fá nýtt sjónarhorn…” blababla.
Stingur eilítið í stúf við það að Bush hefur fram á síðasta dag staðið fast á því að hann vilji hafa Rumsfeld í embætti, sama hvað tautar og raular.
Hann er sumsé farinn og ekki ástæða til annars en að fagna því. Hins vegar er ég hreint ekki viss um að eftirmaður hans sé neinn til að hrópa húrra fyrir. Robert Gates, fyrrum yfirmaður CIA. Ekki beinlínis maðurinn sem ég myndi vilja bjóða í te.
Ég er annars ánægður með úrslit þingkosninganna, að demókratar urðu yfir, altént í þinginu. Það virðist óvíst með öldungaráðið, en ég vona auðvitað að þeir vinni einnig þar. Fylgdist aðeins með aðdragandanum á Stúdentakjallarnum í gær, en entist ekki til að vaka yfir þeim. Ekki það að mér þyki demókratar hafnir yfir gagnrýni, eða að gæti ekki fremur hugsað mér einhverja aðra í forrystu, en ég vil alla vega fremur hafa þá en repúblikana. Ég bað enda til guða þungarokksins að repúblikanar yrðu ekki yfir. Það mun ég einnig gera í forsetakosningunum eftir tvö ár.