1. Þú skalt ekki halda að þú sért eitthvað.
2. Þú skalt ekki halda að þú sért jafngóður og við.
3. Þú skalt ekki halda að þú sért gáfaðri en við.
4. Þú skalt ekki halda að þú sért betri en við.
5. Þú skalt ekki halda að þú vitir meira en við.
6. Þú skalt ekki halda að þú sért meiri en við.
7. Þú skalt ekki halda að þú sért til einhvers nýt/ur.
8. Þú skalt ekki hlæja að okkur.
9. Þú skalt ekki halda að nokkrum líki við þig.
10. Þú skalt ekki halda að þú getir kennt okkur eitthvað.
Svona hljómar „Lögmál Jante“. Kom fram í skáldsögu frá norska rithöfundinum Aksel Sandemose árið 1933 og er mjög vel þekkt í Danmörku. Þetta finnst mér vera mjög lýsandi fyrir hugsanagang dönsku þjóðarinnar í heild sinni ef draga má saman.
Danir eru ágætis fólk og Danmörk fínasta land. Ég bý sjálfur í Danmörku og líkar það mjög vel. Þó hef ég nokkrum sinnum þurft að hlusta á danska besserwissara tala um Ísland eins og kalda útgáfu af Sikiley. Einhverskonar umferðaræð fyrir illa fengið fé frá Rússlandi og hver eyrir sem kæmi frá íslenskum viðskiptamönnum væri fenginn út á svindl og svínarí. Þótt ég sé hvorki hagfræðingur né viðskiptajöfur stendur mér nú ekki á sama þegar almanna álit á Íslandi er í umræðunni. Þess vegna stóð mér ekki á sama síðasta laugardagskvöld þegar þulurinn í kvöldfréttum TV2 í Danmörku tók nokkurnveginn svona til orða:
Hefur þú flogið með Sterling? Lesið Nyhedsavisen eða verslað við Merlin og Magasin du Nord?. Þetta eru einmitt fyrirtæki sem íslenskir viðskiptamenn hafa keypt upp á síðkastið í Danmörku. Litla eyjan með hina fáu íbúa og harðneskjulega veðurfarið er allt í einu farinn að ryðja sér inn á erlenda markaði kaupandi út og suður. En hvaðan koma peningarnir? Þótt grein Ekstrablaðsins um stórsvik íslenskra viðskiptamanna komi fyrst út næsta föstudag þá hríðfellur íslenska krónan og íslenskt viðskiptalíf skelfur vegna óútkomnu greinarinnar.
Ef við horfum ekki nema 10 ár aftur í tímann þá var allt annað uppi á teningnum. Engin útrás hjá bönkunum, ekki jafn háþróað land og í dag og ekki jafn blómleg fyrirtæki og í dag. Við vorum bara litla Ísland!. Fyrir 10 árum bjó ég líka í Danmörku og þá heyrði maður aldrei minnst á Ísland nema kannski útaf landsleikjum í handbolta og umræðu um hvalveiðar. Dönum líkaði vel við Ísland því við vorum “minni”. Núna þegar íslenskt viðskiptalíf springur út og fer að hugsa stórt þá fer að koma annað hljóð í strokkinn.
Nyhedsavisen hefur valdið töluverðum usla á dönskum blaðamarkaði og stendur svona skítsæmilega við gefin loforð um gæðafréttaflutning. Sterling er varla fyrirtæki sem Dönum þykir sérstaklega vænt um og reyndar er umræðan frekar neikvæð um fyrirtækið. Merlin er þó töluvert virt raftækjaverslunakeðja og eins er Illum fín búsáhalda- og húsgagnaverslun. En þegar Íslendingar gerðust svo grófir að kaupa upp eitt af stoltum danskrar verslunarmenningar, Magasin du Nord, sem er fín, rótgróin verslunarkeðja með stórar verslanir í stærstu þéttbýliskjörnum Dana, Kaupmannahöfn, Árósum, Óðinsvéum og Álaborg, þá var danska hjartanu nóg boðið og fór að bera á ákveðnun áhrifum frá “Lögmálum Jante”. Þá fór nefnilega að kvikna ákveðin öfund og óvild í garð þeirra “ríku” frá Íslandi. Fyrst þessi litla eyja hefur fjárhagslegt bolmagn til að “spreða” svona, þá er nú skítalykt af málinu því ekki eru þeir klárari en við eða betri en við. Og það var nokkurn veginn það sem mátti lesa úr orðum Hans Engell, ritstjóra Ekstrablaðsins, þegar hann tjáði sig um það seinna í sömu frétt að þrautþjálfaðir fréttahaukar hans ætluðu svo sannarlega að fletta ofan af svínaríinu á litla Íslandi í eitt skipti fyrir öll með óyggjandi hætti, þetta hlyti einfaldlega að vera óeðlilegt og ólöglegt.
Hans Engell er umdeildur og áhugaverður maður eins og blaðið sem hann stýrir. Hann varð leiðtogi íhaldsflokksins í Danmörku árið 1993 og fyrrverandi dóms- og varnarmálaráðherra. Árið 1997 var hann tekinn fyrir ölvun við akstur og sagði af sér þingmennsku og formannsstólnum í flokknum eftir töluvert stórt hneykslismál og mikið fjaðrafok. Hann hefur undanfarin ár verið aðalritstjóri Ekstrablaðsins sem eins og kunnugt er skipar stóran sess sem slúður og sóðablað Dana, sem það var líka fyrir komu Engells.
Danir vita alveg að þeir eiga ekki að trúa öllu sem stendur í Ekstrablaðinu. Reyndar afskaplega fáu. En sú umræða sem er í gangi í Danaveldi um Ísland hefur kallað á þessa grein blaðsins. Henni er sennilega ætlað að svala þorsta hneykslisvantandi Dana sem eins og lög Jante mæla fyrir, finnst enginn vera betri eða gáfaðri en þeir. Dönsku vinum okkar er að mínu mati farið að klæja svolítið eftir alvöru Janteumræðu um einhverja sem eru sko síst af öllu betri en þeir og halda að þeir séu einhverjir stórir kallar!
Þetta mál hefur blundað í mér í þónokkurn tíma en núna þegar umræðan er farin af stað fyrir alvöru langaði mig til að athuga með viðbrögð hérna. Hvað finnst ykkur um þetta?