“Loftárásir hafnar á Afganistan
Flugskeytum skotið frá herskipum og kafbátum á sex til sjö skotmörk í Afganistan. Upphaf samræmdrar herferðar, sagði Bush í sjónvarpsávarpi. Bin Laden segir að Ameríka verði aldrei örugg fyrr en múhameðstrúarmenn finni til öryggis í okkar löndum og í Palestínu. Engar fréttir hafa borist af mannfalli og óljósar af tjóni á mannvirkjum. Bandaríkjamenn og Bretar hófu loftárásir á sex eða sjö staði í Afganistan síðdegis í dag. Cruise-flugskeytum var skotið frá bandarískum herskipum og breskum kafbáti, auk þess sem hermt var að árásir hefðu verið gerðar með F-16 sprengjuflugvélum.
”Árásunum er ætlað að koma í veg fyrir að Afganistan sé notað sem aðsetur hryðjuverkasamtaka og jafnframt að draga úr hernaðarmætti Talibanastjórnarinnar,“ sagði George W. Bush, bandaríkjaforseti í sjónvarpsávarpi síðdegis í gær. Hann sagði Talibana hafa daufheyrst við öllum kröfum um framsal hryðjuverkamanna. ”Nú taka þeir afleiðingunum,“ sagði forsetinn. ”Í þessu stríði er enginn hlutlaus.“ Hann sagði að árásunum yrði fylgt eftir með samræmdum, fjölþjóðlegum aðgerðum.
Árásanna varð fyrst vart í Kabúl þegar sprengingar heyrðust í borginni klukkan 16.27. að íslenskum tíma. Fyrstu árásum var beint að loftvarnarstöðvum og miðstöðvum Talibana í grennd við höfuðborgina Kabúl og borgina Kandahar, miðstöð Talibana, að því er CNN hafði eftir heimildarmönnum í Pentagon. BBC greindi einnig frá sprengingum í borginni Jalalabad.
Sendiherra Talibana í Pakistan brást við fregnum af árásunum með því að lýsa því yfir að Talibanar mundu berjast til síðasta blóðdropa. BBC greindi frá því að trúarleiðtogar í Pakistan hefðu fordæmt árásirnar og sagt þær grimmúðlegar og tilefnislausar. Þeir lýstu stuðningi við Talibana og heilagt stríð við Bandaríkin. Engar fregnir höfðu í gærkvöldi borist af mannfalli og litlar og mótsagnakenndar fregnir af tjóni á mannvirkjum. BBC greindi frá því að í viðtölum við íbúa í Kandahar hefðu þeir sagst hafa heyrt þrjár sprengingar í nokkurri fjarlægð og töldu sprengjunum hafa verið varpað í grennd við flugvöllinn, sem er nokkru utan borgarinnar. Dregið var í efa að höfuðstöðvar Talibana við flugvöllinn hefðu orðið fyrir skemmdum því þangað náðist símsamband við menn sem sögðust engar sprengjur hefðu fallið þar.
Osama bin Laden kom fram í beinni sjónvarpsútsendingu á sjónvarpsstöðinni Al Jaazera í Qatar í gærdag, skömmu fyrir árásirnar og sagði að Bandaríkjamenn mundi ekki finna til öryggis í sínu landi fyrr en múhameðstrúarmenn fyndu til öryggis í sínum löndum.”
Sölvi Páll Ásgeirsson