Mig langaði að leiðrétta smá misskilning varðandi flugþol nútima herflugvéla. Tholli talaði um að Ísland skipti ekki máli í nútíma hernaði þar sem herþotur gætu nú flogið til afghanistan alla leið frá bandaríkjunum.
Það eru einungis tvær vélar í vopnabúri bandaríkjanna sem geta gert árásir á afghanistan frá stöðvum sínum í norður ameríku. Þettu eru B2 ‘spirit’ torséða sprengjuvélin, og svo gamli jálkurinn B52 sem m.a. var notaður til árása á Norður Víetnam á sínum tíma. Þó er mjög óhagkvæmt að senda slíkar vélar til árása frá bandaríkjunum ef völ er á bækistöðvum sem nær eru. Því er öruggt að þær B52 vélar sem beitt verður til árása á afghanistan, ef til þess kemur, munu fljúga frá flugvöllum á Diego Garcia í Indlandshafi annarsvegar og í Oxfordshire í Bretlandi (Brize Norton flugvöllur).
En ef til árása kemur þá verður að beita svonefndum ‘taktískum’ sprengjuþotum. Hér er átt við F15 Eagle, F16 Falcon og F18 Hornet og Super Hornet, en sú síðastnefnda er gerð út frá flugmóðurskipum. Þessar vélar hafa mjög lítið flugþol, sérstaklega ef þær eru fullvopnaðar og því verða þær að hafa bækistöðvar nálægt skotmarkinu. Ef til vill byggist misskilningurinn á því að þær eru oft fluttar um langan veg til endurstaðsetningar. Þá eru þær óvopnaðar og með eldsnytistanka til langflugs. Þær vélar sem nú hafa verið fluttar til suður og mið asíu (svæðið umhverfis afghanistan) hafa líklegast millilent í bretlandi og ef til vill Tyrklandi (NATO ríki) og kannski víðar.
Ísland er ekki eins hernaðarlega mikilvægt og það var þegar kalda stríðið var í algleymi. En þó er keflavík mjög mikilvægur varaflugvöllur, sérstaklega þegar staðið er í svona stórfelldum flutningum á herliði. Einnig er Ísland hugsanlegt skotmark þar sem við erum meðlimir í NATO en þó er líklegast að ráðist yrði á herstöðina á suðurnesjum eða mannvirki varnarliðsins úti á landi. Ef kæmi til árása á Íslands yrði það aðallega vegna þess að hér eru afskaplega litlar varnir og lítill hópur hryðjuverkamanna gæti valdið gífurlegum usla. Eins og áður sagði á eru líkur á áras hér ekki miklar, en þó er rétt að vera á varðbergi. Árásin 11. sept var því miður byrjunin á nýrri tegund hryðjuverka. Þetta hryðjuverk, og þau sem eflaust fylgja í kjölfarið, miðar að hámarks manndrápi og sjónrænum áhrifum. Hernaðarsérfræðingar hafa þó lengi spáð mun mannskæðari hryðjuverkum þar sem beitt yrði sýkla- efna- eða kjarnavopnum og við getum átt von á slíku í framtíðinni þó að það sé ólíklegt að slíkt gerist alveg á næstu dögum. Við getum því alveg sofið róleg, en ættum að styðja stjórnvöld í aðgerðum sínum til að auka öryggi á millilandaflugvöllum, og fylgjast vel með fréttum. Atburðir næstu mánaða í mið-asíu hafa bein áhrif á líf og lífsgæði okkar.
______________________________