Þessi áhrifaríka mynd er eftir Naji al-‘Ali, frægasta myndasöguhöfund Palestínu. Strákinn á myndinni kallaði hann Hanthala (hef einnig séð það ritað Hanzala og Handala). Nafnið mun merkja “lítill bitur eyðimerkurrunni”. Hanthala er táknrænn, ekki aðeins fyrir höfundinn sjálfan, sem var flóttamaður tíu ára gamall og lifði í flóttamannabúðum í Líbanon, Palestínumenn og palestínska æsku, hann er einnig táknrænn fyrir okkur, sjónarvotta sögunnar og virkar sem rödd samviskunnar. Á mörgum myndum horfir Hanthala á atburði, gleðilega eða tregafulla, þögull með hendur fyrir aftan bak og snýr baki í lesandann. Á sumum myndum býður hann ofureflinu birgin, eins og sést á þessari.
Naji al-'Ali var óhræddur við að gagnrýna og hæða, ekki aðeins stjórnvöld í Ísrael heldur einnig Bandaríkin sem studdi Ísraelsríki og stjórnvöld í Mið-Austurlöndum. Þó er vonin ekki langt undan í verkum hans. Þrátt fyrir frægð og vinsældir aflaði hann sér margra óvina og hatursherferð óx gegn honum. Hann var skotinn í höfuðið í London árið 1987. Ekki er ljóst hver bar ábyrgð á dauða hans. Myndirnar lifa hins vegar áfram.
Ég vissi fyrst af al-‘Ali í gegn um bókina I Saw Ramallah eftir palestínska ljóðskáldið Mourid Bharghouti, en hann fjallar um kynni sín af Al-‘Ali í bókinni. Ég hef ekki lesið bókina ennþá, en gluggað í hana hér og þar. Hún lofar góðu. Í bókinni segir Bharghouti að með daglegum myndum sínum hafi al-‘Ali komið heimsmynd betur til skila en nokkur stjórnálaskýrandi hafi nokkurn tíma gert og taldi hann hugrakkasta listamann í sögu Palestínu.
Ég varpa hlekkjum á þrjár síður, fyrsta er til heiðurs honum, önnur er umfjöllun á wikipedia og þriðja hefur að geyma safn af myndum eftir hann. Margar eru “þöglar” en sumar hafa texta á arabísku. Því miður kann ég ekki arabísku og sá sem póstaði þeim hafði ekki fyrir því að birta neina þýðingu. En jafnvel á þeim myndum sem hafa texta sem maður skilur ekki, nær maður oftast inntaki myndarinnar. Ég leyfi því myndunum að tala sínu máli.
http://www.sphrconcordia.org/naji/index.html
http://www.sphrconcordia.org/naji/copp/index.php
http://en.wikipedia.org/wiki/Naji_Salim_al-Ali