Eins og flestir vita eru Ísraelsmenn búnir að standa í hernaðaraðgerðum í Líbanon seinustu daga, skotmarkið er fyrst og fremst Hezbollah. En hverskonar samtök eru þetta? Hezbollah eru hryðjuverkasamtök í suður-Líbanon og eru talin hafa þúsundir meðlima og hundruð starfandi hryðjuverkamanna. Meðlimir eru fyrst og fremst Shiita múslimar, sem eru minnihluti múslima en þó meirihluti Írana. Samtökin voru stofnuð árið 1982 til þess að berjast gegn hernámi Ísraelsmanna í suður-Líbanon, en því lauk fyrir 6 árum síðan eða árið 2000. Einnig veitti islamska byltingin í Íran þeim innblástur og varð það opinber stefna samtakanna að berjast fyrir útrýmingu Ísraels. Hezbollah er einnig starfandi sem stjórnmálaflokkur í Líbanon og hefur 11% fylgi þjóðarinnar eða 14 af 128 sætum. Þrátt fyrir brottflutning Ísraelsmanna frá Líbanon og ályktun Sameinuðu Þjóðanna um að öll erlend heröfl skuli yfirgefa landið (meðal annars Hezbollah), þá hefur það ekki komið í veg fyrir starfsemi og hryðjuverkaáætlanir Hesbollah við landamæri Ísraels. Stjórnvöld í Líbanon hafa verið beitt alþjóðlegum þrýstingi seinustu árin til þess að afvopna Hezbollah en þau hafa en þá daginn í dag ekki brugðist við þeirri beiðni. Hezbollah eru aðallega styrkt af Sýrlendingum og Írönum sem útvega þeim mannsafla, þjálfun, fjármagn og vopn. En bæði ríkin hafa almennt verið fylgjandi hryðjuverkaárásum gegn Ísrael, meðal annars í gegnum Hamas samtökin í Palestínu. Hezbollah eða Hezb'Allah þýðir “Flokkur Guðs” og leiðtogi þeirra heitir Sheik Hassan Nasrallah. En Ísraelsmenn eru ekki þeir einu sem hafa fundið fyrir hryðjuverkum Hezbollah. Eftirfarandi listi er yfir hryðjuverkaárásir og atburði sem tengjast Hezbollah…
* Frömdu sjálfsmorðsárás í Beirút árið 1983 en þá féllu 241 Bandaríkjamenn og 58 Frakkar, einnig 63 manns sama ár þegar sprengja sprakk í Bandaríska sendiráðinu (þó voru aðeins 17 þeirra Bandarískir ríkisborgarar).
* 19 féllu í sprengjuárás þeirra í Sádí-Arabíu árið 1996.
* Árið 2004 sömdu þeir um skipti við Ísraelsmenn eftir 3 ára viðræður. Ísraelsmenn fengu einn gísl og 3 lík hermanna á móti 400 föngum og 59 lík árásarmanna.
* Á 9.áratugnum skipulögðu þeir regluleg mannrán á vesturlandabúum í Líbanon.
* Árið 1994 framkvæmdu þeir sprengjuárás í gyðingahverfi í Argentínu, 85 manns létu lífið.
Ekki má gleyma því að Hezbollah rændu tveimur Ísraelskum hermönnum og hófu árásir á Ísrael af fyrra bragði. Stjórnvöld í Líbanon hafa einnig en þá engan vilja til þess afvopna Hezbollah, sem gerir þau meðsek í árásum frá þeirra landsvæði. Stefna Ísraelsmanna í núverandi átökum er mjög skýr, að útrýma Hezbollah eða að minnsta kosti halda þeim frá landamærunum. Hófsamar aðgerðir og vopnahlé mun aðeins fresta vandanum um nokkur ár, þetta er eitthvað sem Ísraelsmenn hafa lært af eigin reynslu í samskiptum við Hezbollah. Nú eru 6 ár síðan þeir yfirgáfu svæðið og hafa þeir hingað til verið á sömu nótum og alþjóðasamfélagið þegar kemur að Líbanon, ólíkt Hezbollah sem héldu áfram starfsemi sinni þrátt fyrir ályktun frá Sameinuðu Þjóðunum sem bannaði slíkt. Er ekki kominn tími til þess að heimsbyggðin átti sig á því að það sé ekki hægt að semja við þá? Hvernig er hægt að semja við þá sem viðurkenna ekki ríki Ísraelsmanna og vilja útrýma því? Besta lausnin í stöðunni væri auðvitað sú að fá stjórnvöld í Líbanon til að taka ábyrgð á eigin landamærum og koma í veg fyrir árásir gegn Ísrael, næstbesta lausnin væri að fá alþjóðasamfélagið til þess að gera það í stað þess að spjalla saman um óraunhæft vopnahlé. Á meðan hvorugt er í boði er eðlilegt að Ísraelsmenn taki málin í eigin hendur og verji ríkið sitt. Þeir eru ekki í hefndaraðgerðum gegn Líbönsku þjóðinni heldur eru þeir í hernaðarlegum aðgerðum gegn Hezbollah og gera sitt besta til þess að takmarka dauðsföll almennra borgara. Svo má spyrja sig í lokin, hefðu önnur hernaðarríki verið hófsamari en Ísraelsmenn? Hvernig hefðu Bandaríkjamenn brugðist við ef hrundruðum flugskeytum hefði verið skotið þangað frá Mexíkó? Alþjóðasamfélagið hefði fagnað því ef aðgerðir þeirra hefðu verið svo hófsamar að aðeins nokkur hundruð féllu í þeim. Sama má segja um flest hernaðarríki sem myndu lenda í sömu stöðu og Ísraelsmenn eru í núna.