Ég hef eins og aðrir fylgst með fréttum af atburðum í Líbanon og verð að segja að ég skil ekki hvers vegna umheimurinn bregst ekki við þeim hræðilegu atburðum sem þar eru að gerast. Ég skil ekki hvers vegna Ísraelsmenn eru að sprengja allt Líbanon í tætlur vegna þess að skæruliðar eru við landamærin. Hvað hefur varnarlaus almenningur í Beirút gert til að verðskulda það að vera sprengdur í hundraðatali? Allt hófst þetta út af því að tveim ísraelskum hermönnum var rænt eða er það bara tylliástæða? Það grunar mig.


Bandaríkjamenn styðja Ísraelsmenn beint og vopnin sem Ísrael beitir eru bandarísk. Bandaríkjamenn eru meira að segja að flýta afhendingu á háþróuðum sprengjum, nákvæmissprengjum til þeirra. Háþróuð, tölvustýrð hátæknivopn gegn varnarlausum íbúum Líbanons. Hvað hefur þetta fólk gert til að verðskulda þetta? Ég ætla ekki að lýsa því hvernig mér er innanbrjóst yfir þessu. Ég veit ekki hvernig ég á orða það en mér finnst Bandaríkin vera að komast í flokk ríkja sem við Íslendingar ættum ekki að binda trúss okkar við. Ég tek fram að ég er flokksbundinn sjálfstæðismaður, hef alltaf verið hlynntur Nato aðild Íslands og metið Bandaríkin að verðleikum en eins og framferði þeirra er núorðið finnst mér það vera nánast guðs blessun að þeir skuli vera að fara héðan af landi brott með sitt hafurtask í september.

Annað sem vekur mér furðu er lynka Evrópuþjóða í að stöðva þetta. Ísrael setur hafnbann á Líbanon og sprengir allar undirstöður nútímasamfélags til helvítis. Vegi, raforkuver, fjarskiptakerfi. Allt. Þeir eyðileggja sjálfstætt ríki, skipa íbúum þeirra á brott og núna eru um 800 000 Líbanir á vergangi, heimilslausir og matarlausir. Líbanon er umburðaríkt ríki og hefur verið að byggjast upp í friði. Hvað ætla leiðtogar Evrópuríkja að bíða lengi með að segja hingað og ekki lengra. Bandaríkin eru ekki það sterk að þau þoli það að Rússland og Vestur Evrópuþjóðir segi stopp. Eina sem getur stöðvað Ísraelsmenn er algjör stefnubreyting umheimsins gagnvart þeim. Umburðarlindið gagnvart þessu ofbeldisríki þarf að taka enda. Lönd eins og Þýskaland, Frakkland og Bretland eiga að setja Bandaríkjamönnum einfalda kosti: stöðvið þetta eða leiðir skilja. Bandaríkin þola það ekki. Þau eru risaveldi á brauðfótum og ég varla ímyndað mér að þau myndu láta Ísrael verða það verð sem setti þau endanlega í einangrun í samfélagi þjóðanna. Við Íslendingar höfum undanfarið kynnst nýju andliti Bandaríkjanna, einhliða ákvaraðnir og einleikur. Við ætlum, þið gerið, það er það sem Bandaríkin segja. Þessi fyrrum útvörður lýðræðis sem varði okkur gegn ógnum kommúnismans. Illa er komið fyrir honum núna og einn daginn mun hann gjalda gjörðir sínar háu verði. Það munu Ísraelsmenn líka gera. Það kemur sú stund að þeir munu mæta örlögum sínum. Þeir sá hatri allt í kringum sig og hatur mun verða þeirra banabiti einn daginn. Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær. Og ég verð að segja að lokum, að þegar sá dagur rennur upp mun ég enga samúð hafa með Ísraelsríki. þEIR MUNU GETA SJÁLFUM SÉR UM KENNT.