Ég, líkt og margir, hef verið að spá í þeim atburðum sem áttu sér stað í Bandaríkjunum síðastliðinn þriðjudag og eftirmála þeirra.
Það virðingarleysi fyrir mannslífum og hatur sem fyrirfinnst í nútíma samfélagi virðist vera stigið skrefi lengra með þessum aðgerðum… ég segi virðist því að þetta hefur alveg viðgengist fyrir þriðjudaginn 11.september 2001, það hefur bara aldrei komist svona nálægt okkar vestræna samfélagi líkt og það gerði nú fyrr í vikunni.
Það er alveg nokkuð augljóst að fórnarlömbin í þessu tilviki voru Bandaríkjamenn, en hversu oft hafa aðrar þjóðir eða þjóðarbrot orðið fórnarlömb óréttlætis og ofbeldis? Ekki sjaldan, og höfum við vestrænu ríkin, sem höfum það almennt betra fjárhagslega og lífsgæðalega rokið til daginn eftir og boðið aðstoð okkar og mannafla?
Það sem gerðist í Bandaríkjunum var auðvitað harmleikur og það sem mér persónulega þótti sorglegast við fréttaflutninginn frá þessum atburðum var þegar sýnt var frá Vesturbakkanum, og fólk á öllum aldri hafði safnast saman út á götu til þess að fagna… afhverju var fólkið að fagna? Jú því að þetta er veruleikinn sem þau þurfa að búa við dag eftir dag og þeim hefur þótt vera kominn tími til að einhverjir aðrir fengju að finna fyrir þessum veruleika líka, og hverjir aðrir en Bandaríkjamenn áttu þetta meira skilið (að þeirra mati) þjóðin sem er búin að styðja ísraela í átökunum á Vesturbakkanum.
Ísraelar voru ekki lengi að notafæra sér ástandið til þess að sækja lengra fram í víglínunni, með sín vopn og herafla, án þess að nokkur af þjóðarleiðtogum hinna vestrænu ríkja skipti sér af, og afhverju? Jú því að Palestínumenn þóttu líklegir til að hafa framkvæmt þessi voðaverk, afhverju? Því að Bandaríkjamenn eru stærstu stuðningsmenn Ísraelsstjórnar í átökunum á Vesturbakkanum, hvað segir það okkur um það sem Bandaríkjamenn eru að gera á milli þess sem þeir njóta hylli og samúðar? Þeir eru að styrkja ríkisstjórn Ariel Sharons í Ísrael sem að hefur orðið fyrir nokkrum sjálfsmorðsárásum það sem af er af þessu ári, og sama þótt að Hamas eða Jahid eða einhver önnur af þessum múslimsku hryðjuverkasamtökum hafi játað ábyrgð á verknaðinum þá eru viðbrögð Ísraela oftast á þá leið að skjóta eldflaugum á Palestínumenn með þeim afleiðingum að óbreyttir borgarar og lögreglumenn látast.
Þetta er svo út í hött, að refsa Palestínumönnum fyrir eitthvað sem þeir kannski gleðjast, en eiga enga sök á…
Þeir hafa einnig brugðið á það ráð að sprengja upp byggingar í eigu Fatah-hreyfingarinnar sem eru stjórnmálasamtök Yasser Arafats, sem eiga engan þátt í þessum sjálfsmorðsárásum!
Þetta fær mann til þess að hugsa til þess hversu langt það er síðan Gyðingar áttu undir högg að sækja fyrr á öldinni og voru á víð og dreif um allan heim, rétt rúm fimmtíu ár, og þeir eru núna komnir með sitt eigið lýðræðisríki, sinn eiginn her og farnir að ofsækja aðrar þjóðir. Þetta er kannski heldur mikil einföldun, en þetta er mitt sjónarmið á þessi máli, ég hreinlega bíð eftir því að Sharon verði tekinn á teppið af öðrum þjóðarleiðtogum, og ég er ekki langt frá því að hann eigi eftir að segjast þurfa smá “olnbogarými”…
- Pixie
P.S. Tilgangurinn með þessari grein er ALLS EKKI til þess að reyna að réttlæta hryðjuverkin í Bandaríkjunum á nokkurn hátt.