Mér finnst einstaklega skrýtið hvernig húsnæðismarkaðskerfið hefur þróast á örfáum árum, 2- 3 árum.

Fyrir hina stóru sápukúlubólu, áður en bankarnir hófu að lána, þá var Íbúðalánasjóður að bjóða 75% lán upp að 14-15 milljónum. Þetta fyrirkomulag hélt í raun niðri húsnæðisverði, þannig að um meðal 90fm 3ja herbergja íbúð á ágætum stað kostaði um 13 milljónir fyrir 4 árum síðan.

25% af 13 milljónum eru 3,5 milljónir. Og byrjendur þurftu þá að útvega sér það með ýmsu móti, t.d. með lífeyrissjóðsláni, safna sér, bankaláni o.fl.

Eftir húsnæðislánafylleríið mikla, 2004-2006, þá eru lánveitendur byrjaðir að draga saman seglin, lækka hámarkslánin, lækka lánahlutfallið og hækka vexti. Nú stefnir allt í að húsnæðisverð lækki aftur, en eitt er víst, það mun sennilega aldrei fara í það sem það var fyrir.

Þeir sem hafa keypt húsnæði núna undanfarið, eða síðustu misseri, hafa sennilega keypt á allra versta tíma. Húsnæðisverð hefur aldrei verið eins hátt, lánakjör aldrei eins góð. En þetta hefur afleiðingar, afborgarnir hafa aldrei verið eins háar, vextir bankanna munu hækka (sjá klausu um endurskoðun vaxta á 5 ára fresti), verðbólgan er að hækka o.fl.


Nú spyr ég, þurftum við virkilega á þessu að halda? Hefði ekki verið betra að bankarnir hefðu ekki komið inn á þennan markað, og leyft ríkinu að halda utan um hann, og haldið niðri verðinu?

Reyndar held ég að það hafi ekki verið mistök að hleypta bönkunum inn á þennan markað, en það voru stór mistök hvernig það var staðið að því. Strax var byrjað að bjóða upp á gríðarlega góð lánakjör, og kapphlaupið mikla hófst með tilheyrandi verðhækkunum á fasteignum.


Afleiðingarnar? Núna stöndum við uppi með gríðarlega hátt fasteignaverð, 3ja herbergja íbúðin sem ég talaði um fyrr í þessari grein kostar ekki lengur 13 milljónir, hún kostar a.m.k. 23 milljónir, ef ekki 26 milljónir. Íbúðaverðið hefur verið margfaldað með tveimur.

Laun fólks áður en bankarnir komu á þennan markað hafa ekki verið margfölduð með tveimur, því er ljóst að þeir sem eru á lægstu töxtunum eru núna að borga miklu meira hlutfallslega fyrir íbúð sína.

Bankarnir hafa dregið úr lánshlutfalli sínu, það er komið niður í 75%, 80% hjá íbúðalánasjóði…en var áður 90-100%.

Þetta þýðir að í staðinn fyrir að þurfa redda sér 3,5 milljónum upp í íbúð (miðað við þessa 3ja herbergja íbúð), þá þarf fólk núna að útvega sér 6,5 milljónir.

- Meira en tvöfalt hærri útborgun í íbúð
- Meira en tvöfaldar mánaðarlegar afborganir í jafnlangan tíma
…miðað við það sem var fyrir 3-4 árum síðan.


Þetta eru ekki einu afleiðingarnar. Þar sem ljóst er að lánsframboð hefur minnkað mikið, mun eftirspurn minnka einnig. Þetta þýðir að húsnæðisverð mun lækka, og það þýðir að eign fólks sem hefur keypt húsnæði á þessu uppsveiflutímabili mun rýrna, og það mun verða hlutfallslegra skuldsettara.

Erfiðara verður fyrir fólk að selja eignir sínar, ef það getur ekki staðið við afborgarnir af nýkeyptum eignum sínum. Þar sem erfiðara verður fyrir kaupendur að kaupa svona dýrar eignir. Fólk mun neyðast til að selja eignir ódýrara en það keypti það, og þarf að sætta sig við mikið tap, milljónir hugsanlega.

Það eru ekki einungis kaupendur sem verða fyrir óþægindum, nýjir kaupendur, ungar fjölskyldur og pör, einstaklingar og láglaunafólk mun lenda í MIKLUM erfiðleikum með að fóta sig á þessum markaði. Þar sem húsnæðisverðið hefur hækkað mikið, og lánskjör hafa versnað mikið.


Nú stefnir allt í að Ísland verði einsog Ítalía. Fólk mun vera heima hjá foreldrum sínum fram til þrítugs, fertugs, og ekki hafa ráð á að festa kaup á sínu eigin húsnæði.

Það er frekar skondið þar sem nóg landrými er á Íslandi, og kjör almennt góð.