Einnig birt á www.hi.is/~arnarar/hugleiding/
Líklega eru flestir sammála um að Árni Johnsen hafi stolið fé úr almanna sjóðum, líklega vegna þess að það er staðreynd. Hann sagði af sér eftir að mikill þrýstingur var settur á hann. Það hlýtur að hafa verið mjög rétt hjá honum því ef maður er sekur um að stela þá á maður ekki að gegna trúnaðarstörfum fyrir þjóðina. Maður er ekki traustsins verður.
Nýlega stal ungur, nýútskrifaður, lögfræðingur ritgerð eftir annan og setti stóran hluta hennar í sína. Hann stal og er því ekki traustsins verður ef hann fer einhverntíman á þing eða á eftir (gerir hann það kannski?) að gegna trúnaðarstörfum fyrir þjóðina. Hann er varaþingmaður. Líður fólki jafn illa yfir því að hafa varaþingmann sem stelur í vinnu hjá sér og þingmann sem stelur í starfi hjá sér? Allavega, leið fólki mjög illa yfir því síðarnefnda.
Ef pólitískri framtíð þeirra beggja er ekki lokið, þá er ég illa svikinn. Ég vona að það finnist ekki sá maður sem kýs þá til að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir þjóðina. Reyndar eru líklega flestir þingmenn þjófar, aðeins þessir tveir óheppnu sem komst upp um, en fyrst þeir voru það miklir klaufar að láta þetta komast í fjölmiðla, þá eiga þeir ekki að eiga afturkvæmt.
Samt sem áður kemur mér á óvart að það er nokkurnvegin ekkert fjölmiðlafár í kringum meintan stuld Vilhjálms Vilhjálmssonar varaþingmanns. Ég hef ekki einu sinni lesið orð um þetta á pólitísku vefmiðlunum - að Pressunni undanskilinni. Bíddu, voru það ekki vinstrimenn sem gagnrýndu harðlega að “hægri fljölmiðlar” hafi varla minnst orði á Árna? Er þetta allt í einu orðið allt annað mál? Er að stela og að stela ekki það sama? Er hann ekki ennþá varaþingmaður?
Í það minnsta verður forvitnilegt að fylgjast með þeim þjófunum í pólitíkinni í framtíðinni. Ég vona að þeir hafi það mikið vit á milli eyrnanna að þeir finni sér eitthvað annað að gera (hver vill ráða þjófa?) en að vera í pólitík. Vissulega gætu þættir eins og Silfur Egils, sem byrjar fljótlega aftur á Skjá einum, gefið þeim sinn síðasta sjens til að segja bless við pólitíkina og att þeim saman í einum þætti. Kannski væri það ekki þorandi fyrir Skjá einn því hver veit nema ein og ein myndavél eða stólar myndu hverfa?
Væri kannski við hæfi því Egill Helgason var með þátt í sumar sem fjallaði sérstaklega um boðorðið: Þú skalt ekki stela.