Einelti eftir sambúðarslit.

Ég lenti í einelti eftir sambúðaslit fyrir 9 árum
síðan og það er einhver ferlegasta reynsla sem ég
hef lent í um ævina. Við vorum búin að vera saman
í vel rúm 4 ár og þetta var mín fyrsta sambúð.
Þannig var að við vorum alltaf að hætta og byrja
saman og svo loks vildi ég endanlega slíta þessu.
Minn var ekki lengi að ná sér í aðra, en hélt engu
að síður áfram að reyna að ná í mig aftur. Og loks
þegar hann fattaði að það yrði aldrei aftur þá byrjar
hann.
Símhringingar, bíl-skemmdir, hótanir, lygar, ofbeldi
og málaferli.
Dag og nótt hringir hann (oftast úr símanum hennar)
og ef hann skellti ekki strax á þá kom annaðhvort
“Ég elska þig” eða “ég ætla að rústa lífi þínu”
og stundum kom “ég ætla að drepa þig.”
Ég reyndi að tala við konuna sem hann var byrjaður með,
en hún trúði náttúrulega ekki einu einasta orði sem ég
sagði svo ég gafst upp á því.
Ég fór að sjálfsögðu að kæra þetta símaónæði til lögreglu,
fékk skýrslur hjá símanum með óteljandi hringingum, en
hann laug þá bara og sagði að ég væri alltaf að hringja í
hann, en hann gat engum skýrslum framvísað með mínum
númerum. Hann hringdi að jafnaði 30 sinnum á dag í mig.
Alltaf nokkrum sinnum í vinnuna og oftar heim á kvöldin
því hann VISSI að hann væri búnað ná að loka mig inni af
hræðslu. Hér eru nokkur dæmi um það sem ég náði uppá
teip þegar hann var að hringja;
1)“Ég hélt þér þætti vænt um pabba þinn”… (eftir að hann
hótaði honum)
2)“Ég verð á Glaumbar um helgina vinan, ég veit þú verður
þar”
(staðurinn sem ég stundaði áður en þetta byrjar)..
og auðvitað þorði ég ekki þangað oftar !
3)“Ég á næsta leik vinan, við skulum sjá hvað skeður núna”
… (vegna kæru)
4)“Nú drep ég þig!”(afþví ég var farin að kæra af krafti!)

Alltaf skellti hann á þegar hann var búnað hóta einhverju.
Svo byrjaði hann á því að keyra fyrir utan húsið mitt
eða vinnunna mína ALLAVEGA einusinni á dag á jeppanum
sínum og gefandi í svo ég myndi heyra í honum, og síðan
fór hann að ráðast á bílinn minn rispa hann útumallt og
hellandi sýru á húddið og reyna brjóta rúðurnar og fleira,
og total upphæð vegna skemmda á bílnum varð rúmlega 500þús.
Og ég kærði það líka til lögreglu en hann var oftast á bak
og burt þegar löggan kom, en í eitt skipti náðu þeir honum
fyrir utan heima hjá mér, en stóðu hann reyndar ekki að
verki og tóku hann niður á stöð í yfirheyrslu. En hann
er svona “smoothtalker” og sneri sig alltaf útúr öllu.
Í eitt skipti lánaði lögreglan mér videocameru sem ég
gæti notað á næturna til að vakta bílinn minn, en hún fór
bara í gang ef eitthvað hreyfðist. En auðvitað kom hann
ekki þá…. !
Bróðir mínum varð það einusinni á að ansa í símann heima
þegar hann hringdi og fór eitthvað að reyna að ræða við
hann, en x-ið mitt skellti á hann og fór svo um kvöldið
og skemmdi bílinn hans !!! Reyndar lítið, en nóg samt!
Á aðfangadagskvöld þá hringdi hann svona 10x heim til
systur minnar og skellti á, hann vissi að ég væri alltaf
þar á þessu kvöldi.
Þegar þarna er komið er ég hætt að geta sofið á nóttinni,
eða það hefði mátt segja að ég svæfi með annað augað opið.
Og á þessu tímabili tók ég mína fyrstu svefnpillu. Ég var
orðin það hrædd (líka afþví að hann átti það til að sýna
mér ofbeldi í sambúðinni) og uppgefin á þessu öllu saman
að dagarnir liðu þannig; vakna, fara í vinnuna,
fara beint heim, horfa á tv, og svo hálfsofa á næturnar.


Svona gekk þetta í 18mán. Hann ætlaði bara ekki að
gefast upp. Ég var farin að kenna mér um þetta alltsaman
og halda að ég ætti þetta skilið.

Á afmælisdaginn minn, þegar eineltið er búið að vera í
ca.10mán þá fæ ég símsendingu og það er kort frá honum
sem í stóð;
“Til hamingju með daginn ástin mín."
P.S. Kysstu pabba þinn frá mér. “
Hann hafði nefnilega hótað pabba eitt skiptið í símanum;
“ ef ég myndi hitta þig í húsasundi…”
Og hann vissi að ég elskaði pabba útaf lífinu.

Málaferli; Hann fékk vitni til að ljúga fyrir sig, uppá
mig að ég væri að skemma bílinn hans, en dómarinn sá í
gegnum hann og ég vann málið þannig að ég þurfti ekki
einusinni að borga lögfræðingnum sem ég réði mér
persónulega!
Dómarinn hefur kanski fattað þetta þegar ég leyfði honum
að hlusta á upptökurnar með hótununum sem ég hafði náð
af x-inu. Röddin í x-inu er nefnilega svolítið spes, auðþekkjanleg.

Það var með herkjum að ég þyrði út á djammið með vinum
mínum af hræðslu við að hitta hann, og ég hef farið mest
4x á djammið á þessum tíma (ég djammaði hverja helgi áður
en eineltið byrjaði en nú þorði ég ekki út) og í tvö af
þeim skiptum fann hann mig og í eitt skiptið barði hann vin
minn í klessu og í hitt hljóp hann á eftir mér og hellti
yfir mig bjór og sagði mér að hypja mig heim til mín. Ég náttúrulega dauðhrædd hljóp hágrátandi inní leigara og
beinustu leið heim.
Þegar ég svo hringdi í vin minn og vildi fá hann til að
kæra líkamsárás þá sagði hann eitt stórt NEI! Vinurinn
var drulluhræddur (rifbeinsbrotinn)og það svakalega að
hann vildi ekki hitta mig oftar.


Svo leið lífið,… í góðu,… eineltið hætt….
2 árum síðar, er ég að hlusta á símsvarann minn, þá er
hann á honum og segjist endilega vilja tala við mig því
hann þurfi að biðja mig afsökunar. Ég hringdi ekki tilbaka,
og hann heldur áfram að reyna að ná í mig nokkrum sinnum
í viðbót þar til loks ég ansa, og hann baðst fyrirgefningar
og ég spurði hann; hver gefur þér leyfi til þess að
haga þér svona og koma svona fram við aðra manneskju?
Hann sagði, enginn, fyrirgefðu, kanski vildi ég bara
ekki missa þig!

Þetta ER sönn saga, en ekki úr einhverri bandarískri
bíómynd sem margir gætu haldið.