Það gæti verið að ég sé að sleppa einhverjum smáatriðum sökum þess að ég man hlutina ekki alveg. Margt er búið að gerast síðan þessi vandamál byrjuðu en aðalatriðin eru öll í þessari grein.



Ég keypti mér fartölvu síðastliðið haust. Þessi ferðatölva er af gerðinni hewlett pakkard og ég keypti hana í tölvubúðinni Stefnu á Akureyri. Ég þekki mann sem vann þarna og ákvað að versla af honum, fékk gefins tösku undir tölvuna og fékk góða þjónustu að öllu leiti. Þessa fartölvu hafði ég ætlað mér að nota í skólanum.

Allt gekk vel með tölvuna þangað til 1 – 2 mánuðum fyrir jól. Þá bilaði tölvan. Bilunin fólst í því að það kom oft hávaði í henni þegar ég kveikti á henni. Þessi hávaði var ekki venjulegur þannig að ég fór með tölvuna niður í Stefnu og bað þá um að gera við hana. Þessi tölva er í tveggja ára ábyrgð. Þeir skoða hana og ákveða að senda hana suður þar sem að það er ekki viðgerðaraðstaða hérna. Gaurinn sagði meðal annars að þeir mættu ekki opna hana á Akureyri. Ég er alveg sáttur með það alveg þangað til einhver kall fyrir sunnan hringir í mig og segir mér að hann finni ekkert að tölvunni, hann hafi rykhreinsað hana og uppfært reklana í henni. Þetta fannst mér hálf heimskulegt þar sem að reklarnir gátu ekki komið þessu við og tölvan gat ekki verið búin að safna svona miklu ryki frá því um haustið.

Nokkrum dögum frá því að ég fæ tölvuna til baka kveiki ég á henni og fæ þetta hljóð aftur. Ég fer með tölvuna aftur niður í Stefnu og segi að hljóðið hafi komið aftur. Þeir segja að það komi ekkert hljóð þegar þeir kveiki á henni(kom ekki alltaf) en senda hana samt aftur suður. Þeir fyrir sunnan halda því líka fram að þeir heyri ekkert athuavert hljóð úr tölvunni og senda hana aftur hingað til Akureyrar. Þegar Stefnukallinn fær tölvuna aftur kveikir hann á henni og til allrar lukku heyrir hann hljóðið í henni og sendir hana aftur suður. Þeir fyrir sunnan gera við tölvuna og ég fæ hana loksins aftur í lagi. Ég fékk enga skýringu á því hvað var að eða hvað þeir höfðu gert við tölvuna.

Núna dáldið fyrir páska lendi ég í öðru veseni með þessa blessuðu ferðatölvu. Þetta vandamál fólst í því að þegar ég kveiki á tölvunni þá kemur aðeins svartur skjár og það er eins og tölvan kveiki á sér en slekkur strax á sér aftur, reynir svo að kveikja aftur. Þetta endurtekur sig nokkrum sinnum þangað til ekkert gerist. Á þessum tímapunkti er Stefna búin að færa sig í nýtt húsnæði og búið að breyta búðinni frá því að vera að versla með einstaka viðskiptavini í að vera með viðskipti við fyrirtæki. Ég fer í Stefnu og skýri þeim frá vandamálum mínum. Strákurinn sem tekur á móti mér þar fær ábyrgðarskýrteinið mitt og segir að þeir muni gera við tölvuna. Einnig segir hann mér að þeir sendi ferðatölvur nánast aldrei suður. Þó er mín búin að fara þrisvar þegar þetta samtal á sér stað. Stuttu eftir þetta hringir Stefna í mig og segir að þeir geti ekkert gert, þeir þurfi að senda tölvuna aftur suður. Ég neyðist til að samþykkja þetta. Það sem ég vissi ekki var að þeir sendu ábyrgðarskýrteinið líka suður þannig að ég hef það ekki lengur. Ég viðurkenni reyndar að það voru mín mistök að ljósritað það ekki en mér datt bara ekki í hug að þeir myndu senda það suður með tölvunni.

Núna í dag er tölvan mín ennþá fyrir sunnan. Þeir komust að því að það vantar nýtt móðurborð í hana, þeir pöntuðu það frá útlöndum en það er ekki til. Mér er lofað að hún verði tilbúin fyrir einhvern ákveðin dag en þegar ég hringi þá eru þeir ekki byrjaðir að gera við hana. Viku eftir það hringi ég aftur en ekkert hafði gerst.
Ég fór með bróður mínum í Stefnu og hann las yfir þeim. Fyrir vikið fékk ég lánstölvu svo að ég geti allavega reynt að halda utan um námið í skólanum þar sem að ég ætlaði minni eigin tölvu það hlutverk þegar ég keypti hana. Þess má til gamans geta að þetta er vinnutölva gaursins sem við höfum verið að tala við þannig að Opin Kerfi hafa greinilega ekki sent honum aðra tölvu til að lána mér á meðan. Fyrir síðustu helgi fór bróðir minn aftur niður í Stefnu. Hann sagði þeim að ef að tölvan væri ekki tilbúin að miðvikudaginn færi hann í neytendasamtökin. Síðasta miðvikudag fór hann aftur í Stefnu og ekkert hafði gerst. Núna er ég að bíða þangað til við komumst í neytendasamtökin en ég komst ekki í dag vegna þess að ég var í skólanum og bróðir minn var veikur.

Alveg frá því að þeir fluttu í þetta nýja húsnæði og hættu að vera með þjónustu fyrir fólk eins og mig og byrjðu að þjónusta fyrirtæki hafa þeir afsakað sig með því að segja að þeir beri ekki ábyrgð á þessu lengur heldur eru það Opin Kerfi í Reykjavík sem sjá um umboð Hewlett Pakkard á Íslandi. Það virkar ekkert að hringja þangað og þeir eru ekki einu sinni með skrifstofu hérna á Akureyri.


Þetta kalla ég mjög lélega þjónustu bæði hjá Stefnu og Opnum Kerfum. Hvað finnst ykkur?