Sumarið er heilmikill umbreytingatími og mér hefur alltaf fundist sem lok sumars væru nokkurs konar áramót og september ársbyrjun. Í september fær maður þennan dýrindispóst frá öllum líkamsræktarstöðvunum sem halda því fram að nákvæmlega núna sé tíminn til að taka til hendinni, fara í megrun og komast í flott form. En það er ekki bara það að við förum í ljós og líkó, hjá skólafólki breytist lífið alltaf mest í september. Sumarið er tíminn sem við fáum til að hlaða batteríin og það er oftar en ekki eitt heljarinnar partý. Við vinnum eins og skepnur í þrjá mánuði og verðum rík því við borgum enga skatta og búum enn hjá pabba og mömmu. Svo kemur september og nýtt líf byrjar, nýr skóli, bekkur, fólk og seinna meir það óumflýjanlega…enginn skóli, fullorðinslíf og áframhaldandi vinna. Að sækja um vinnu eftir skóla er allt annað en að sækja um sumarvinnu og það er ýmislegt sem hafa þarf í huga þegar farið er í atvinnuviðtal.
Ég er þessi fáránlega bjartsýna og jákvæða týpa; ef ég sæki um vinnu er ég svona nokkurn veginn viss um að fá hana. En svo stóð ég mig að því fyrir nokkru að sækja um þónokkur störf en fá engin svör. Hvað var að? Lét ég frá mér vitlaust símanúmer? Á sama tíma fór vinkona mín í álíka mörg viðtöl og það var bókstaflega barist um hana. Allir hringdu hundrað sinnum og það var meira að segja boðið í hana. Ókei, hún var í MR en ég bara í MS og hún er kannski aðeins sætari en það hlaut að vera eitthvað meira en það og ekki hafði hún neina útskýringu fram að færa. Mér varð náttúrulega um og ó og ákvað að fara á Netið til að finna út hvernig maður á að bera sig að í atvinnuviðtölum. Milljón síður eru um málefnið en það sem hér stendur er nokkurn veginn innihald þeirra allra í hnotskurn.
Fyrstu áhrifin gilda
Hvernig þú kemur fyrir sjónir í byrjun viðtals ræður úrslitum um hvort þú færð vinnuna eða ekki. Sérfræðingar segja að ákvörðun um ráðningu eða neitun sé yfirleitt tekin innan 30 sekúndna, þetta þýðir að við getum ekki gert lítið úr slæmri byrjun. (Þannig að ef þú dettur á leiðinni inn á skrifstofuna getur þú verið viss um að fá ekki starfið.) Það sem við segjum skiptir ótrúlega litlu máli, það skiptir frekar máli hvernig við segjum hlutina og ef við hugsum ekki um líkamstjáninguna á meðan við tölum, getum við rústað viðtalinu. Þeir sem taka viðtölin heyra hvort sem er sömu rulluna allt of oft; stundvís, dugleg, ýkt sæt….blablabla, þess vegna skiptir öllu máli hvernig við berum okkur í viðtali sem þessu, jafnvel þótt við séum að segja eitthvað rosalega merkilegt að okkar mati.
Hvernig á maður ekki að haga sér?
Hegðunin skiptir eins og áður sagði mestu máli þegar sá sem tekur viðtalið er að meta þig. Ef þú lítur út fyrir að vera stressaður, með krepptan hnefa eða titrandi rödd gefur þú til kynna að þér líði ekkert sérstaklega vel. Ef þú heldur í stólinn sem þú situr á eða krossleggur hendur og fætur ertu í lokaðri stöðu sem segir að þú hleypir engum nærri og það gefur til kynna að þig skortir sjálfstraust. Ef þú starir á einhvern einn hlut allt viðtalið eða hið þveröfuga, horfir ekki á neitt og lítur aldrei í augun á viðmælanda þínum, heldur hann að þér leiðist, sért annars hugar eða ekki traustsins verður. Og ef þú lyftir augabrúnum, grettir þig eða herpir saman varirnar þá líturu út fyrir að vera óþolinmóður eða ósammála. (Þannig að það er bannað að ríghalda í stólinn sinn, gretta sig og glápa út um gluggann í atvinnuviðtali.)
Rétt hegðun.
Hvernig þú notar líkamann sem tjáningarform skiptir miklu máli í sambandi við hvernig viðmælendur svara því sem þú hefur að segja. Þú getur notað líkamann rétt með því að:
Augnsamband: Ef þú nærð vinalegu augnsambandi nokkrum sinnum á meðan á viðtalinu stendur gefur það til kynna að þú sért sjálfsöruggur, hreinskilinn og metir það sem aðrir segja.
Líkamsstaða: Afslappaður með hendur í skauti. Gefðu til kynna að þér líði vel en ekkert gera þig tilbúinn til að leggja þig í sófanum, allt er gott í hófi. Þegar viðmælandi spyr þig spurninga er mjög áhrifaríkt að halla sér aðeins fram og kinka kolli sem gefur til kynna að þú skilur spurninguna og hafir svar á reiðum höndum.
Andlitssvipur: Að brosa og kinka kolli á hentugum tímum skapar andrúmsloft þar sem skilningur og ákafi fyrir nýju sambandi er augljós.
Rödd: Reyndu að stjórna tóni raddarinnar þannig að þegar þú talar virkarðu öruggur og viss í þinni sök um allt sem þú segir. Reyndu að tala eftir kringumstæðum, hækkaðu röddina aðeins ef þú ert að segja brandara og lækkaðu hana ef þú byrjar að tala um eitthvað grafalvarlegt.
Látbragð: Notaðu hendurnar þér til stuðnings, eins og þér finnst þægilegt. Hafðu það í huga og þú virkar þar af leiðandi afslappaður, einlægur og öruggur. Með því að pæla aðeins í líkamstjáningunni getur þú haft mikil áhrif á heildarsvip og andrúmsloft viðtalsins. Ef þú vilt að þetta virki þarftu að tileinka þér opna og afslappaða stöðu strax á fyrstu mínútu viðtalsins því þá lítur þú út fyrir að vera tilbúinn til að takast á við allt en ekki ofgera stöðunni. Þú ert það sem þú þykist vera.
Gangi ykkur svo vel :)