Stuttu eftir síðustu Alþingiskosningar mátti stjórnarandstaðan sjá hvað í stefndi varðandi virkjanaáætlanir ríkisstjórnarinnar. Þeim síðarnefndu hefur í mörg ár verið alvara á ferð með það að virkja “feitt” úti á landi. Af hverju í ósköpunum eru þá ekki hlutar þeirra manna sem hvað mest eru á móti virkjuninni með ákveðin TILBÚIN tromp í hendinni? Komplett, raunhæfar viðskiptaáætlanir eða jafnvel bara fullmótaðar hugmyndir um hina ýmsu valmöguleika aðra en stóriðju! Er stjórnarandstaðan búin að eyða þremur árum í að bora í nefið? Ástæðan fyrir því að mér blöskrar er sú að fólk eins og Steingrímur J, Kolbrún Halldórsdóttir og meira að segja umhverfismessíasinn Hjörleifur Guttormsson hafa látið það út úr sér ásamt öðrum virkjunarsinnum úr t.a.m. röðum Samfylkingar, að betra sé að gera EITTHVAÐ annað!! Ferða-EITTHVAÐ!! Er þetta fólk að grínast?? Það að segja gerum EITTHVAÐ annað er og á að vera, dauðdagi í pólitík.
Ég vill taka það fram að ég er EKKI einarður Kárahnjúkavirkjunarsinni. Mér finnast viðskiptaforsendur virkjunarinnar hæpnar og meira en lítið dúbíus en EKKI hinar umhverfislegu. Þar á ég við að það er ansi vafasamt að Norsk Hydro stjórni báðum endum virðiskeðjunnar (aðföngum og sölu) en ætli sér samt aðeins minnihlutaeign! Þetta er það sem ég hef mestar áhyggjur af. Og ef þessir hagsmunir væru ekki gríðarlegir þá myndi ég gefa skít í þessa bjánastjórnarandstöðu sem býður upp á tómið sem valmöguleika. Plús það að 101 Reykjavík bóhemaleiðindapakkið sem farið er að stjórna besservisseringum í fjölmiðlum er ekki að vinna hug og hjörtu okkar hinna. Það er nokkuð ljóst! En stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig ALVARLEGA eiga ekki að bjóða upp á “eitthvað” sem valkost. Ef þetta eru vinnubrögðin þá getum við alveg eins farið að kjósa 13 ára gamla krakka inn á þing!