Áður en lengra er haldið vil ég taka það skýrt fram að ég er algerlega á móti neyslu fíkniefna og tel þau eitt mesta böl sem dynur á hverju þjóðfélagi. Hins vegar er það löngu búið að sýna sig að baráttan gegn innflutningi dóps er eins og að ausa vatni úr baðkari, sem stöðugt rennur í, með teskeið. Hún er algerlega vonlaus því miður. Alltaf eru að heyrast raddir um að efla beri tollgæslu, strandgæslu, en það EINA sem gæti dugað í baráttunni gegn neyslu er ÁRÓÐUR og aftur ÁRÓÐUR. Það er vænlegra til árangurs að keppa að því að slá á EFTIRSPURNINA en ekki FRAMBOÐIÐ.

Svo er það hin hliðin. Öll bönn gegn hvers konar neyslu hafa þessi áhrif: Það skapast neðanjarðarhagkerfi sem veitir sora mannlífsins atvinnu þar sem bannið einungis hækkar verð bannvörunnar; þ.e. útsöluverð fíkniefna er í engu samræmi við raunverulegt verðmæti. Hér skapast því markaður sem alls kyns illþýði og ruslarapakk nýtir sér óspart í gróðaskyni. Höfum í huga Al Capone - Chicago - bannárin í USA (þ.e. áfengi var bannað). Var áfengisbannið þar einhverjum til góðs? Eini árangur bannsins var neðanjarðarstarfsemi, rán, morð og alls kyns ódæðisverk. Þar fitnuðu stóru kallarnir á kostað kaupenda, sem greiddu margfalt verð fyrir ólöglegt áfengið. Í dag er það sama (ef ekki mun verra) uppi á teningnum. Það eru stórir kallar sem græða vel á kostnað fíklanna, sem aftur láta kostnaðinn bitna á gömlum konum sem eru rændar lífeyrinum og bara yfirleitt þeim sem verða fyrir barðinu á þjófum sem eru að fjármagna neyslu. Þetta er einfaldlega lögmál: NEYSLUBÖNN SKAPA NEÐANJARÐARHAGKERFI. Gefum okkur að toll- og strandgæsla yrði STÓRefld. Hvað gerist: Jú, framboð minnkar aðeins og verðið HÆKKAR. Hækkandi verð = meiri glæpir. Innstreymi fíkniefna er eins og vatn; það finnur sér alltaf nýjan farveg.

Gefum okkur að fíkiefni yrðu lögleyfð takmarkað (hugmynd: fíklar hörðu efnanna ættu þess kost að fara á ákveðnar stofnanir til að fá skammtinn sinn og fengju jafnframt hreinni og síður skaðleg, drýgð efni, þ.e. þau yrðu EKKI götusöluvara - og kannabis yrði leyft á viðurkenndum sölustöðum undir eftirliti). Hvað gerðist þá? Neðanjarðarhagkerfið myndi stórminnka - ef það hyrfi ekki með öllu. Glæpum til fjármögnunar dóps myndi stórfækka - ef þeir hyrfu ekki alveg. Vil ég og minna á að rót vændis er í mörgum tilfellum fjármögnun fíkniefnakaupa. Að auki vil ég benda á enn eitt atriði: SKÓLAKRAKKAR. Dópsalar reyna alltaf að skapa sér nýja markaði. Eins og flestir ef ekki allir vita þá fara þeir í skólana til að verða sér úti um nýja kúnna.

Gott fólk, ef valið ætti að standa á milli þess að vernda fíklana gegn sjálfum sér eða líf og limi saklauss fólks sem ýmist er rænt, limlest eða jafnvel drepið í fjármögnuninni - er mitt val auðvelt: Verndum hinn almenna borgara, þ.m.t. skólabörnin - látum neðanjarðarhagkerfið visna!