Eftirfarandi er grein sem ég ritaði um málefni sem brennur oft á vörum okkar: Of væga dóma í kynferðisbrotamálum, með Svefnnauðgarann að leiðarljósi.
Tuttugu og átta ára gamall geimverkfræðingur var dæmdur í nóvember á síðasta ári í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hrottafengna nauðgun á átján ára stúlku.
Hann er talinn hafa byrlað stúlkunni sem hann nauðgaði svefnlyfið Rohypnol. Stúlkan mundi ekki neitt en var með áverka eftir nauðgunina.
Dómurinn sem hann hlaut var tveggja og hálfs árs fangelsi. Dómarar töldu hann ekki eiga sér neinar málsbætur.
Hrottafengin nauðgun í svefni
Maðurinn nauðgaði stúlkunni á hrottalegan hátt eftir að hafa boðið henni og vinkonu stúlkunnar í partý heim til sín. Þar spiluðu þau Friends spilið þar til vinkonan fór heim. Maðurinn bauð þeim upp á hvítvín og er talið að hann hafi blandað lyfinu í það. Stúlkan lognaðist út af og maðurinn nauðgaði henni.
Það sem er athyglisvert við Svefnnauðgarann er að hann gengur að líkindum enn laus.
Íslenska réttarkerfið er í molum.
Hann nauðgaði stúlkunni í nóvember árið 2004. Hann fékk svo dóminn í nóvember árið 2005. Allan þann tíma sem leið á milli gekk hann laus. Og gerir vísast til enn. Málinu hefur væntanlega verið áfrýjað miðað við dóminn sem hann hlaut sem lætur hann enn ganga lausan.
Hvenær drepur maður mann?
Það er athyglisvert. Ef þú fremur morð þá ferðu í gæsluvarðhald uns dómur fellur. Ef þú gerist sek/ur um stórfellt brot á fíkniefnalöggjöfinni ferðu í gæsluvarðhald uns dómur fellur. Ef þú ert kærð/ur fyrir nauðgun gengur þú laus uns dómur fellur. Þarna er kerfið ekki að standa sig.
Jón Hreggviðsson sagði: Hvenær drepur maður mann? Veltum því fyrir okkur. Morð er þegar einhver banar öðrum manni. Fíkniefni drepa. En drepur nauðgun?
Hugsanlega. Allavega skilur hún eftir ör á sálinni og gæti leitt til þess að fórnarlamb taki sitt eigið líf. Myrði sjálfan sig.
Of vægir dómar
Dómar yfir kynferðisbrotamönnum eru of lágir.
Tvö og hálft ár í tilfelli þessa tiltekna manns er lítið. Eiginlega ekki neitt miðað við örið sem hann skilur eftir á sál stúlkunnar sem hann var dæmdur fyrir að nauðga.
Hámarksrefsins fyrir nauðgun er samkvæmt hegningarlögum sextán ár. Það hefur margsýnt sig og sannað að dómarar dæma ekki eftir þessum refsiramma.
Maðurinn fékk tvö og hálft ár fyrir að misnota stúlku sem er á menntaskólaaldri. Hann losnar væntanlega út mun fyrr. Mörg dæmi eru um það að afbrotamenn afpláni nema tvo þriðju þess dóm sem þeir fá og jafnvel að þeir losni fyrr.
Hæstu dómarnir í stóra fíkniefnamálinu voru sex ár. Refsiramminn þar er tólf ár. Dómurinn í fyrrgreindu máli er einn sá hæsti kveðinn hefur verið upp hér á landi(var þó mildaður í Hæstarétti)
Þú þarft semsagt að nauðga nánast þremur konum til að fá sama dóm og maður sem flytur inn 7 kíló af spítti.
Skilaboð dómara
Svefnnauðgarinn fékk þungan dóm - miðað við erfiða sönnunarbyrði. Mörgum hefði þótt eðlilegt að hann fengi þyngri dóm. Sjálfum finnst undirrituðum það eðlilegt.
Dómarar senda oft þau röng skilaboð með dómum sínum þegar dæmt er í málum sem þessum. Að það sé í lagi að nauðga. En hins vegar, miðað við framangreint, er ekki í lagi að flytja inn fíkniefni. Hvort er okkur mikilvægara: Sjö kíló af spítti eða sálarlíf þriggja kvenna?