EFTIR KARL TH. BIRGISSON // tekið af Strik.is
Góðan dag, góðir hlustendur
Við höfum frá því um helgina hlustað á afar óvenjulegar fréttir af íslenzkum fyrirtækjum, sem virðast, ef mér skjöplast ekki, hafa tekið þátt í að dreifa klámi og ofbeldisefni af ýmsum toga á Netinu.
Ég ætla ekki að endurtaka efnislega hvað hér er um að ræða. Og ég ætla heldur ekki að reyna að komast að því hvar ábyrgð liggur í málum eins og þessum – það eina sem lögfræðingar virðast sammála um er að allt er óljóst, það hefur aldrei reynt á viðkomandi lagabókstaf hvað internetið snertir og enginn veit í rauninni neitt í sinn haus.
En efnið, sem fjölmiðlar voru með í höndunum í þetta skipti, er óvenjueldfimt. Annars vegar er Netið, sem er tiltölulega nýtt og í sumra augum svolítið dulúðugt fyrirbæri og hefur auk þess fengið orð á sig sem gróðrarstía alls kyns vafasamra viðskipta. Hins vegar eru þessir dularfullu heimar sem fæst okkar þekkja nema af afspurn, leyndustu og annarlegustu afkimar kynlífsiðnaðarins. Sumt af því er venjulegt klám sem vekur kannske forvitni og spennu, annað er þess eðlis að það vekur viðbjóð og enn annað, t.d. barnaklámið, líklega fyrst og fremst reiði og sorg.
Þetta eru miklar tilfinningar og miklu meiri en koma við sögu í flestum öðrum málum, og viðfangsefnið er líka meira alvörumál en gerist og gengur, og þess vegna er ennþá mikilvægara en ella að fjallað sé um það af ýtrustu varfærni. Það hefur hreint ekki öllum tekizt og sýnu verst hefur DV staðið sig í fréttaskrifum um þessi vandmeðförnu mál.
Í frétt DV á mánudag var beinlínis fullyrt að Davíð Þór Jónsson hefði tengt barnaklámsíðu við heimasíðu tímaritsins Bleikt og blátt. Við þessa staðhæfingu var enginn fyrirvari, ekkert ef og ekkert kannske, heldur var þetta fullyrt eins og það væri staðreynd sem lægi á borðinu.
Á bak við þessa fullyrðingu eru hins vegar engar staðreyndir; engin gögn, engin heimildaöflun og engin vitneskja, og raunar virðist blaðið ekki hafa reynt að tala við hinn meinta sökudólg sjálfan til að spyrja hann út í þetta skelfilega mál.
Við “venjulegar” aðstæður væri hægt að líta framhjá þessu – hugsa sem svo að blaðið sé bara að draga frekar glannalegar ályktanir af einhverju sem blaðamaðurinn hefur heyrt í öðrum fjölmiðlum.
En þetta er engin venjuleg fullyrðing. Í henni felst ekki aðeins ásökun um mjög alvarlegt lögbrot. Í þessum orðum felst að Davíð Þór Jónsson hafi vitað af barnaklámi á þessari vefsíðu, að hann hafi talið að þetta efni ætti erindi við almenning og beinlínis lagt sig í framkróka við að vekja athygli á því og koma því á framfæri. Hann vissi af barnakláminu og vildi dreifa því. Hvorki meira né minna.
Öllu alvarlegri dóm er varla hægt að fella yfir nokkrum manni og öllu verr er ekki hægt að meiða æru nokkurs manns.
Nú er rétt að spyrja: Hvað voru ritstjórar DV að hugsa? Telja þeir blaðið geta staðið við þessa fullyrðingu? Telur DV sig geta fullyrt að Davíð Þór Jónsson hafi vísvitandi tekið þátt í því að dreifa barnaklámi?
Eða finnst þeim allt í lagi að leika einn einstakling svona, ausa hann óhróðri sem þeir geta aldrei staðið við, í trausti þess að móðursýkin í samfélaginu sé svo mikil að engum detti í hug að hreyfa andmælum? Eða er þetta kannske í lagi af því að þetta er bara Davíð Þór Jónsson, klúryrtur grínisti og klámritstjóri?
Aðrir fjölmiðlar hafa sem betur fer ekki gengið svona langt, en ekki hefur þó allt verið til fyrirmyndar á fréttastofu útvarps. Hvernig stendur til dæmis á því að fréttamaður útvarps, sem flytur frétt af hinni ógeðslegu barnaklámsíðu í réttlátum reiðitóni - hvernig stendur á því að hún les viðkomandi vefslóð hátt og skýrt í hádegisfréttum útvarpsins? Er hún ekki þar með jafnsek um meinta dreifingu á barnaklámi og tímaritið, og jafnvel sekari, með því að hún var búin örugglega búin að kynna sér efni síðunnar og útlista nákvæmlega fyrir hlustendum hvers konar efni þar er að finna, áður en hún benti okkur á hvar við gætum nálgazt það?
Hér dugar ekki mótbáran um að orð sem töluð eru í útvarp fari út í loftið og komi aldrei aftur, ólíkt tengli á vefsíðu sem er þar allan sólarhringinn. Það vill þannig til að ég heyrði ekki þessa frétt í útvarpinu. Ég heyrði hana - hvar haldiði? - jú, einmitt, á vefsíðu Ríkisútvarpsins þar sem hægt er að nálgast upptökur af fréttum síðustu viku, m.a. annars fréttina um barnaklámsíðuna ömurlegu.
Aftur er rétt að spyrja: Veit útvarpsstjóri af því að á vefsíðu Ríkisútvarpsins er lýst ýtarlega innihaldi svívirðilegrar barnaklámsíðu og netnotendum síðan leiðbent um hvernig þeir geta komizt inn á hana? Ætlar hann að láta fjarlægja fréttina eða er hann kannske búinn að því?
Í umfjöllun eins og þessari eru pyttirnir nefnilega margir og auðvelt að detta í þá; það er auðvelt að missa fótanna í því andrúmslofti reiði og móðursýki sem gjarna vill myndast þegar barnaklám er til umfjöllunar.
Það, að nefna hátt og skýrt vefslóð á barnaklámsíðu í fréttunum, er í versta falli ótrúlegt dómgreindarleysi, en í bezta falli óþarfar upplýsingar sem eiga ekki heima í fréttinni og bæta engu gagnlegu við hana.
Það er ennþá verri tegund af óþarfa upplýsingum heldur en sú sem aðrir fréttamenn útvarpsins hafa verið óþreytandi við að fóðra okkur á í umfjöllun síðustu daga. Í undarlegum ákafa sínum við að segja okkur frá því sjúklegasta sem hægt er að finna á Netinu hefur þeim ekki dugað að kalla það ofbeldi og gróft klám, heldur vilja þeir endilega að við vitum að strangt til tekið eru þetta morð og nauðganir, saurát og anímalismi.
Nú veit ég ekki hvursu margir foreldrar hafa þurft að útskýra fyrir börnum sínum við kvöldmatarborðið hvernig kynlíf með dýrum fer fram, en hverjum eru þessar útlistanir eiginlega til gagns? Segja orðin ofbeldi og gróft klám ekki það sem segja þarf?
Eða eigum við svona erfitt með að hemja okkur þegar dekkstu hliðar mannlífsins eru til umfjöllunar, einmitt þegar mestu skiptir að umgangast sannleikann af yfirvegun og varkárni?