ÚLFALDI ÚR MÝFLUGU
Talandi um að gera úlfalda úr mýflugu þegar maður sér öll þessi læti og mótmæli í múslimum bæði í danmörku og einnig í arabalöndum eftir að Jótlandspósturinn birti “skopmyndir” af Múhaðmeð spámanni.
Ég get skilið sjónarmið múslima að þetta sé móðgun við þeirra trú, en ég get engan veginn skilið þessi mótmæli og í raun tilgang þeirra. Sérstaklega þegar um 4 mánuðir eru liðnir síðan þessar myndir voru birtar!
Hverju er verið að mótmæla eiginlega? Jótlandspósturinn er búinn að birta afsökunarbeiðni, en leiðtogar múslíma halda ennþá áfram að kalla á að þeim sé “refsað” og múslímar sniðgangi allar danskar vörur. Einnig hafa einhverjar heittrúaðir gripið til þess ráðs að hóta sprengjuárásum, hryðjuverkum o.fl. gagnvart dönum, og norðmönnum.
Reyndar held ég að Jótlandspósturinn hafi sannað mál sitt með þessum myndbirtingum, í ljósi þess að starfsmenn blaðsins þurfa nú að hafa áhyggjur af öryggi sínu og þurfa að rýma skrifstofur sínar vegna sprengjuhótanna.
Ég get ekki lýst fyrirlitningu minni nægilega vel á þessari atburðarrás, hún minnir mjög á ofsamúgæsing sem er kynt undir með misskilningi og fáfræði einstakra trúaarleiðtoga og ríkisstjórna til að beina athyglinni af sínum eigin vandamálum.
Múslimar lýsa þessu sem argasta móðgun við íslam og heimta hefndir og þeim sem eru ábyrgir sé refsað, einnig að danmörk og noregur biðjist afsökunar.
SETJA MÁLFRELSINU SKORÐUR MIÐAÐ VIÐ REGLUR EINSTAKRA TRÚAARSAFNAÐA?
Einnig hefur hér verið í sjónvarpi talsmaður múslima á Íslandi sem hefur sagt að samkvæmt Íslam er bannað að teikna myndir af hvaða spámanni sem er, hvort sem það er Múhameð, Jesús, Guð, Móses eða aðrir.
Nú hef ég reyndar heimildir fyrir því að algengt sé að Jesús og Móses séu vinsælt efni í skopmyndir í arabískum dagblöðum og tímaritum. Spyr ég bara, hví mega vestræn dagblöð ekki gera slíkt hið sama?
Einnig, afhverju eiga vestræn ríki að takmarka málfrelsið við einhverjar trúarlegar reglur tiltekinnar trúar?
Gæti ég stofnað trúfélag og ritað eitthvert spárit og sagt í því að það sé stranglega bannað að birta myndir af fólki opinberlega. Ættu íslensk stjórnvöld að reyna virða það og setja lög sem banni slíkt svo meðlimir í þessu trúfélagi verði ekki móðgaðir?
EIGA RÍKI AÐ BIÐJA ÖNNUR RÍKI AFSÖKUNAR Á GJÖRÐUM ÞEGNA SINNA?
Skil ég einnig ekki afhverju Saudi-Arabía, Egyptaland og Líbýa (o.fl.) heimti afsökunarbeiðni frá danmörku og noregi, sem heillri þjóð, vegna birtinga einhverra dagblaða þar sem nær takmarkaðri dreifingu. Þetta er varla mál sem kemur ríkisstjórnum við.
Þetta er einnig sérstaklega merkilegt að þessi lönd séu að, má segja, níðast á danmörku sem er eitt opnasta, frjálsasta og lýðræðislegasta land í heimi. Ekki get ég sagt að málfrelsið og lýðræðið sé í hávegum haft í þessum löndum, heldur ríkir þar ritskoðun, kúgun og einræði.
Með tilvísun í fyrirsögnina, þá velti ég fyrir mér afhverju Sádi-Arabía bað Bandaríkin ekki afsökunar á 11. september, þar sem jú flestir flugræningjarnir voru þaðan.
PLOTT TIL AÐ STYRKJA STÖÐU STJÓRNVALDA Í ARABARÍKJUNUM?
Já, það er ekkert sem þjappar þjóð betur saman, eykur þjóðernisvitund hennar og styrkir stöðu stjórnvalda en að finna einhvern óvin sem allir geta beint reiði sinni til.
Bandaríkin virðast vera of stór biti, en Danmörk, lítið sætt land sem er fyrirmyndar vestrænt ríki. Sýnist að það sé búið að finna einhvern andstæðing sem arabaríkin ráða við, og geta hnykkt á vöðvum sínum til að ógna og hóta.
Kannski er þetta spurning um minnimáttarkennd þessa menningarheims, sérstaklega í ljósi síðustu ára og áratuga. Staðan í þessum löndum er slæm, atvinnuleysi mikið, kúgun og spilling mikil, lífsgæði takmörkuð, afskiptasemi vesturlanda litin hornauga svo og ástandið í Palestínu/Ísrael og Írak.
HVAR ER SAMSTAÐAN?
Það er engum til hagsbóta að láta dani standa eina í þessu þrátefli. Vestrænir fjölmiðlar eiga að styðja dani í þessu, og reyna að dreifa “sökinni” yfir til fleirri ríkja til að þynna þessa reiði út, út frá því að vera focusuð á danmörk sem einstakegt ríki, og yfir á hinn vestræna heim.
Það skiptir líka engu máli, er ekki flestum aröbum illa við vestræn gildi hvort sem er?
Þetta skiptir líka miklu máli að danir láti ekki undan og gefist ekki upp, því ef þeir fara að beygja málfrelsið að kröfum trúaarsamtaka þá er voðinn vís. Málfrelsið er sameign allra frjálsra ríkja þar sem mannréttindi og lýðræði er virt.
Hvet ég einhvern fjölmiðil hér á Íslandi að birta þessar myndir sem Jótlandspósturinn birti, og styðja frændur okkar í þessu rugli.
Kaupum danskt!
ps. það er margt sem ég skrifaði ekki, af ótta við að vera túlkaður sem rasisti eða fordómafullur gagnvart íslamstrú og arabalöndum. En verði ykkur samt að góðu hugaðir hugarar.