Blaðamenn og landafræðin
Er ekki sjálfsagt að gera þá kröfu til balðamanna sem eru að fjalla um atburði innanlands að þeir hafi sæmilega þekkingu á landafræði. Eða í það minnsta kynni sér hvar á landinu viðkomandi þorp er, sem þeir eru að fjalla um. Í fréttablaðinu í dag er verið að fjalla um útihátíðir og þ.á.m. Kántrýhátíðina á Skagaströnd. Þar er klifað á því að Skagaströnd og Kántrýhátíðin sé í Skagafirði. En hvort Skagaströnd væri inn í innstu dölum í Skagafirði eða út á ystu annesjum var ósagt látið. Úr því að minnst er á Skagaströnd þá vita þeir á DV ekki heldur hvar Skagaströnd er. Í sumar var frétt í DV um Sómabát, Hafgeir HU, sem setti heraðamet á milli Hafnafjarðar og Skagastrandar. Með fréttinni var hið snyrtilegasta kort af Íslandi, þar sem siglingaleiðin var teiknuð inn, frá Hafnafirði til Bolungavíkur og þaðan fyrir Horn og sem leið liggur beint inn í Skagafjörð og upp í Þórðarhöfða. En eins flestir vita, eða í það minnsta, þeir 12000 gestir sem sóttu Kántrýhátíðina heim, er Skagaströnd á Skaga vestanverðum, við Húnaflóa.